„Ég er ekkert fátæk gömul kona og ég veiti mér ýmislegt“

Kolbrún Linda lætur vel af ferðinni til Balí.
Kolbrún Linda lætur vel af ferðinni til Balí. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Kolbrún Linda Ísleifsdóttir er lögfræðingur á eftirlaunum sem hefur unun af ferðalögum. Áður en hún settist í helgan stein starfaði hún sem kennslu- og skrifstofustjóri við lagadeild Háskóla Íslands. Hún er fráskilin og á tvö uppkomin börn og sex barnabörn.

Í samtali við mbl.is segir Kolbrún frá einu af eftirlætisferðalögum sínum til Balí. Kolbrún útskýrir að hún sé með MS-sjúkdóminn og þoli illa að fljúga. 

„Fyrir svona sjö til átta árum voru auglýstar ferðir til Balí í tvær vikur. Svo ég hugsaði að ég nennti ekki að fara í sólarhringsferðalag hvora leið fyrir aðeins tvær vikur. Þess vegna ákvað ég að kaupa tvær ferðir og fór ekkert heim á milli. Ég var þar í fjórar vikur.“

Hún bætir því við að tvær ferðir til Balí hafi kostað sitt en verið algjörlega þess virði. 

Umhverfið á Balí er fagurt og róandi.
Umhverfið á Balí er fagurt og róandi. Sebastian Pena Lambarri/Unsplash

Mikill raki í dásamlegu umhverfi

Ferðin var skipulögð með fararstjóra og fór Kolbrún út í október. Spurð um hitastigið segir hún að allan tímann hafi hitinn verið í 39 gráðum.

„Ég var á svo fínu hóteli með svo góðri sundlaug svo ég sat bara og las bók undir sólhlíf,“ segir hún og hlær. Það hafi þó ekki komið að sök því húðin varð silkimjúk í rakanum.

Að sögn Kolbrúnar stóð þjónustulund íbúa upp úr, en hún nefnir einnig fallegt umhverfið og matinn. 

„Ég er ekki vegan, en hef mikið dálæti á grænmetismat og grænmetisréttirnir á Balí voru alveg sérstaklega góðir.“

Hún líkir matnum á Balí við Phuket á Taílandi, en þangað ferðaðist hún með systur sinni.

„Okkur langaði ekkert til Pattaya, þar sem voru gamlir feitir Norðurlandabúar með fallegar, ungar taílenskar stúlkur.“

Sannkölluð paradís.
Sannkölluð paradís. Niklas Weiss/Unsplash

Þyrftu að íhuga skilagjald

Kolbrún er mikið fyrir umhverfismál og segir helsta löst eyjunnar allt plastið sem er að finna á ströndinni og í sjónum, jafnvel þótt hún hafi dvalið á fínu hóteli.

„Mikið lifandis skelfing þyrftu þessar þjóðir að taka upp skilagjald á flöskum. Það er svo brjálæðisleg plastmengun. Ég fer aldrei í sjóinn í þessum ferðum. Sama hvar ég fer. Og mann langar ekki að synda í sjónum,“ segir hún hneyksluð og bætir við:

„Það er aldrei að sjá neinar flöskur hér, jafnvel eftir fjörugustu helgar í miðbænum. Það eru alltaf einhverjir sem tína þær upp.“

Bestu upplifunina í Balí segir Kolbrún hafa verið nuddið sem hún fór í daglega. Það hafi verið algjört afbragð.

„Ég er ekkert fátæk gömul kona og ég veiti mér ýmislegt, þess vegna segi ég unga fólkinu að borga í lífeyrissparnað.“ En Kolbrún hefur fengið ótal tækifæri til að fara t.d. á tónleika og ferðast.

Þeir eru ýmsir sem skjóta upp kollinum á Balí.
Þeir eru ýmsir sem skjóta upp kollinum á Balí. Laura Cros/Unsplash

Verslaðirðu eitthvað?

„Ég keypti svolítið af textíl þarna úti í sérstökum verslunum. Ég kaupi ekki minjagripi sem eru framleiddir í Kína. Mig langaði í efni sem var ofið og búið til á Balí, hannað og selt í balískum verslunum. Silkið og efnin eru dásamleg.“

Kolbrún bætir því við að hún hafi ekki látið sauma neitt á sig því hún sé svo hrifin af íslenskri hönnun og kaupi því aðallega fatnað hérlendis. 

Sólarlag á draumaeyjunni Balí.
Sólarlag á draumaeyjunni Balí. Harry Kessell/Unsplash

Næsta draumaferð

Aðspurð segir Kolbrún að sig langi mikið til Ástralíu, en þar hafi sonur hennar og systurdóttir búið á meðan þau voru í námi. 

„Svo hef ég ferðast víða en ég hef aldrei komið til Ítalíu. Það er á „Must do before I die“-listanum.“

Kolbrún segir söguna af fyrstu og einu tilrauninni til að fara til Ítalíu.

„Ég ætlaði nú að fara til Ítalíu fyrir einhverjum árum og átti þá flug til Londan þaðan sem ég átti að fljúga til Rómar. En svo gaus Eyjafjallajökull. Flugið sem átti að fara frá Keflavík til London breyttist á einu augabragði í Akureyri – Glasgow.“ Þau ferðaplön hafi því farið út um þúfur. 

Að lokum segist hún einnig vonast til að komast í aðra Balíferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert