Þegar veðrið er búið að leika við landsmenn líkt og undanfarið verður freistandi að fara með fjölskylduna aðeins út fyrir höfuðborgina. Þá er tilvalið að nota annan hvorn daginn í helgarfríinu í dagsferð á Suðurlandið.
Hér á eftir kemur hugmynd að gullna fjölskylduhringnum. Það er um að gera að kynna sér afgreiðslutíma fyrirfram og taka daginn snemma.
Fyrsta stopp er í sundlauginni í Þorlákshöfn. Í sundlauginni er 25 metra laug, tvær útirennibrautir, tveir heitir pottar og vaðlaug. Inniaðstaðan er tilvalin fyrir yngstu kynslóðina en þar er 45 sentímetra djúp laug með leikföngum, kastala með tveimur litlum rennibrautum og ýmislegu fleiru sem kætir krílin. Nokkuð ljóst er að orkan verður vel nýtt.
Vetraropnun um helgar er milli klukkan 10-17. Það er frítt í sundlaugina fyrir börn upp að tíu ára aldri. Það kostar 375 kr. fyrir börn á aldrinum 10-18 ára og 1.250 kr. fyrir fullorðna.
Frá Þorlákshöfn er hægt að keyra fram hjá Selfossi í átt til Friðheima. Aksturinn tekur um klukkustund. Friðheimar er sannkölluð „tómataparadís“ og hefur vaxið mikið í vinsældum síðustu ár. Þegar gengið er niður að veitingastaðnum er stundum að sjá hesta í girðingu við stíginn og þá er hægt að klappa þeim.
Veitingastaðurinn er staðsettur í gróðurhúsinu þar sem tómatarnir eru ræktaðir og þar þykir börnunum afar skemmtilegt að skoða býflugurnar sem hjálpa til við ræktunina. Matseðillinn hverfist um það sem ræktað er á staðnum og þar ber hæst hin sívinsæla Friðheimatómatsúpa.
Þar er einnig matseðill fyrir börnin en þess má geta að börn yngri en sex ára fá fría súpu, en börn á aldrinum 6-13 ára fá súpuna á hálfvirði. Frí ábót er á súpunni.
Athugið að bóka þarf borð með fyrirvara.
Yfir sumartímann hefði frú ferðalag mælt með viðkomu í dýragarðinum Slakka á leiðinni úr Friðheimum, en garðurinn er aðeins opinn á sumrin og út september. Hins vegar er hægt að aka Skálholtsveg og beygja til hægri við Skeiða- og Hrunamannaveg, á leið til Hvolsvallar. Aksturinn tekur um klukkustund.
Á Hvolsvelli er að finna stærstu eldfjalla- og jarðskjálftasýningu í Evrópu. Það er frítt fyrir börn á aldrinum 0-16 inn á sýninguna og þá er einnig hægt að kaupa fjölskyldupakka.
Upplifunin er stórkostleg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Helgaropnun er milli klukkan 9 og 17.
Frá Hvolsvelli til Reykjavíkur er um 1,5 klukkustunda akstur. Þá er alltaf hægt að hafa viðkomu í ísbúð eða mathöllinni á Selfossi eða í skrúðgarðinum í Hveragerði.