Ferðataska féll 40 km úr geimnum án þess að skemmast

Það er ýmislegt sem gert er til að prófa gæði …
Það er ýmislegt sem gert er til að prófa gæði vara. Skjáskot/Youtube

Er þetta fugl? Nei, þetta er flugvél! Eða, heyrðu, þetta er ferðataska! Nú þegar ferðalög út í geiminn gætu orðið að veruleika hafa ýmis fyrirtæki séð sér leik á borði varðandi vöruþróun. 

Þannig var ferðataska frá fyrirtækinu Samsonite prófuð nýlega er hún var látin falla til jarðar utan úr geimnum, til að sjá hvort taskan myndi þola fallið. 

Sem hún og gerði.

Þrátt fyrir að tilraunin hafi orðið erfið fyrir tilstilli lofthjúps jarðar lenti ferðataskan í heilu lagi í fjallshlíð við Las Vegas. 

Öfgafyllsta fallpróf í heimi

Dr. Chris Rose hjá fyrirtækinu Sent Into Space var spenntur fyrir tilraunaverkefninu, en fyrirtækið er þekkt fyrir tilraunir á borð við að skjóta Barbie út í geim á 60 ára afmæli dúkkunnar og að gera þeyting í geimnum með ákveðinni tegund blandara.

Þá hefur fyrirtækið einnig prófað að gera kreditkortafærslu í geimnum í samstarfi við stór kortafyrirtæki. 

Dr. Rose sagði í viðtali við Travel and Leisure að um væri að ræða öfgafyllsta fallpróf í heimi. Öryggi og umhverfisáhrif voru Sent Into Space ofarlega í huga og þess vegna fór ferðataskan út í geiminn með loftbelgsgeimfari. 

Eftir að hafa náð himinhvelfingunni var taskan látin falla til jarðar og lenti hún fyrst á hjólunum en síðan á skelinni, ósködduð, og náðist ævintýrið á myndband. 

 Travel and Leisure

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert