Höfuðborg Skotlands er þekkt sem einn af bestu áfangastöðum í heiminum til að fagna áramótunum. Skoska hátíðin ber sitt eigið nafn Hogmanay.
Með stórbrotinni viðburðadagskrá og miðbæ sem glitrar af hátíðarskreytingum, eru ýmsar ástæður þess að íhuga Edinborg sem áfangastað þegar nýja árið gengur í garð.
Hogmanay er skoska orðið yfir síðasta dag ársins og er einnig samheiti yfir hátíðartilbrigðin í Edinborg um áramótin.
Í Skotlandi teygir jólahátíðin sig inn í nýárspartíið, sem er framlengt til 2. janúar. Fjögurra daga Hogmanay hátíðin hefst 29. desember með kyndilgöngu. Í skrúðgöngunni arka um 20.000 manns berandi logandi kyndla. Gangan verður eins og eldfljót sem liðast um gamla miðbæinn.
Kyndilberarnir ganga undir dynjandi trommuslætti og lúðraþyturinn hrífur gesti og gangandi. Viðburðurinn er ævaforn hefð sem nær aftur í aldir og minnir á víkingatímann.
Hátíðin nær hámarki þegar götupartíið hefst. Veislugestir mæta á Princes-götu sem er lokuð fyrir bílaumferð á meðan hátíðin stendur yfir. Þá hefst karnivalstemning með lifandi tónlist, sekkjapípum, trommuslætti, götulistamönnum og matarvögnum.
Þegar talið er niður í nýja árið bíða gestir með eftirvæntingu eftir að borgin verði lýst upp með rosalega flottum flugeldum sem skotið er upp frá Edinborgar-kastala.
Þegar sýningunni er lokið taka menn, kunnugir og ókunnugir, höndum saman og hefja hátíðarsönginn Auld Lang Syne, en textinn er eftir ljóði hins virta skoska skálds Robert Burns, og þannig er gamla árið kvatt.