Höfuðstaður Sviss og fjármálahöfuðborgin Zürich, er falleg og stendur við Zürich-vatn og Limmat-ána. Ferðavefurinn Planet D segir að hægt sé að upplifa það besta í borginni á aðeins þremur dögum.
Best er að verða sér úti um Zürich-kortið sem býður upp á ótakmarkaðar ferðir með strætó, kláfum, lest og sporvagni, auk skemmtilegra siglinga á Limmat-ánni.
Eftir morgunverð á Villa Florhof, sem opnar aftur á næsta ári, er fullkomið að hefja daginn á göngutúr um gamla bæinn og vesturhluta Zürich.
Rechberg-garðarnir eru við hliðina á Florhof-hótelinu og eru fallegasta svæðið í höfuðborginni. Fyrir aftan stendur Rechberg-setrið sem á rætur sínar að rekja til 1759, en var endurnýjað 2014.
Þegar leiðinni er haldið áfram er tilvalið að fara á einn af útsýnisstöðum borgarinnar, Tæknistofnun Sviss við hlið Zürich-háskólans. Þar er hægt að njóta útsýnis yfir Limmat-ána, gamla bæinn og þá fjöldamörgu kirkjuturna sem standa upp úr meðal bygginga í borginni.
Áður en sagt er skilið við vesturbakka Limmat-árinnar má ekki gleyma að skoða þekktustu byggingu Zürich, Grossmünster.
Þeir staðir sem hafa mesta aðdráttarafl í gamla bænum eru staðsettir þvers og kruss meðfram Limmat-ánni. Þess vegna er um að gera að njóta þess að ganga yfir Münsterbrücke-göngubrúna yfir til Fraumünster-kirkjunnar með kirkjuglugga hannaða af Marc Chagall.
Síðdeginu er vel varið í vesturhluta borgarinnar, sem er talið svalasta hverfi Zürich. Þar eru m.a. Freitag-turninn og ótal listagallerí. Hægt er skoða nýjustu sýningu með verkum Leonardo da Vinci í Maag Hall.
Kvöldverður á Viadukt-veitingastaðnum er kjörinn endir á deginum, með frábærum mat og stórbrotnu útsýni yfir Zürich.
Gott er að taka daginn snemma og byrja á að ná sólarupprásinni yfir Limmet-ánni í Lindenhof-kastalanum. Kastalinn er staðsettur uppi á hæð, á rústum gömlu borgarmúranna. Útsýnið teygir sig yfir Grossmünster-dómkirkjuna og gamla bæinn.
Frá Lindenhof-hæðinni er góður tími að rölta meðfram Limmat-ánni og að St. Peter's-kirkjunni, þar sem gefur að líta stærstu kirkjuklukku í Evrópu.
Þá er tími til að halda til morgunverðar á Cafe Milchbar á Paradeplatz.
Ef halda skal til bátsferðar er rétt að fara niður að Bürkliplatz-bryggju. Tvisvar í viku er grænmetismarkaður á bryggjunni og bændamarkaður á sunnudögum. Báturinn er tekinn til Wolishofen, sem er listamannasamfélag á gömlu iðnaðarsvæði. Þar eru haldnir margir viðburðir og hátíðir, einnig eru þar margir veitingastaðir. Hægt er að fara göngubrúna til baka.
Á degi tvö er einnig mælt með heimsókn í Lindt-súkkulaðiverksmiðjuna.
Í lok kvöldverðar er skemmtilegt að fara til Quaibrücke, síðustu brúarinnar á milli gamla bæjarins og Zürich-vatnsins. Þar er klassískt útsýni yfir Limmat-ána og á fjórar þekktustu kirkjurnar í Zürich. Sólarlagið verður stórbrotið.
Á degi þrjú er tími fyrir laugarsvæðið Badi Enge við Zürich-vatn. Þar er að finna sólarverönd, sund, veitingastað og gufubað. Frá svæðinu er fallegt útsýni til Alpanna, yfir vatnið og borgina.
Hægt er að fara á vatnabretti um Schanzengraben-skurðinn, sem má eiginlega ekki missa af.
Það er ekki hægt að fara til Sviss án þess að fá sér fondú. Veitingastaðurinn Swiss Chuchi er staðsettur í hjarta gamla bæjarins, en þar má gæða sér á ekta svissnesku fondú.
Eftir hádegismat er tekinn sporvagn á lestarstöðina og lestin tekin til Uetliberg. Ferðin tekur um klukkustund.
Uetliberg er fjall, um 869 metra hátt, fyrir ofan Zürich. En það þarf ekki að ganga því lestin fer nánast alla leið á toppinn. Frá lestarstöðinni er aðeins 10-15 mínútna gönguferð að útsýnispallinum.
Síðasta kvöldið í borginni er tilvalið að njóta sólsetursins fyrir framan Sechseläutenplatz, austan við vatnið. Sechseläutenplatz er stærsta torgið í Sviss, um 16.000 fermetrar og þar stendur einnig óperuhúsið í Zürich.