„Versta ferðalagið væri „all-inclusive“ eða skemmtiferðaskip“

Bjarney Hinriksdóttir, Baddí, kynntist kærasta sínum Manueli frá Mexíkó á …
Bjarney Hinriksdóttir, Baddí, kynntist kærasta sínum Manueli frá Mexíkó á Tinder árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Bjarney Hinriksdóttir, Baddí, er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður til 20 ára. Á laugardagsmorgnum kennir hún sólósalsa á Dansverkstæðinu, skemmtilega danstíma fyrir þá sem elska að dansa.

„Ég er líka sjálf á dansnámskeiðum í augnablikinu og æfi í Mjölni nokkrum sinnum í viku.“ Baddí rekur einnig tacovagninn La Buena Vida ásamt Manuel, mexíkönskum kærasta sínum.

Baddí og Manuel reka saman tacovagninn La Buena Vida.
Baddí og Manuel reka saman tacovagninn La Buena Vida. Ljósmynd/Aðsend

Ást á stefnumótaforriti

Manuel á dóttur frá fyrra hjónabandi og saman eiga þau tvo hunda og eina kisu.
„Ég og Manuel kynntumst í lok september árið 2020, á Tinder. Hann var staddur í Mexíkó og ég á Íslandi en hann rataði þó inn á mitt Tinder… Hverjar eru líkurnar?“

Tengingin á milli þeirra varð strax mjög sterk og fyrstu fjóra mánuðina nutu þau sambandsins í gegnum netið. Um leið og færi gafst heimsótti Baddí hann til Mexíkó, í janúar 2021, og ástin tók öll völd.

Baddí segir Manuel nánast vera norrænni en sig sjálfa, svo …
Baddí segir Manuel nánast vera norrænni en sig sjálfa, svo hugfanginn er hann af Íslandi, íslenskri menningu og veðrinu. Ljósmynd/Aðsend

„Þá tóku við ferðalög fram og til baka hjá okkur báðum, sem var mikið púsluspil í kórónaveirufaraldrinum. Manuel flutti svo til Íslands í september 2021.“ 

Baddí segir það hafa verið lítið mál fyrir Manuel að setjast að á Íslandi, svo hugfanginn varð hann af landi og þjóð. „Ég myndi segja að hann væri norrænni í sér en ég. Hann elskar meira að segja veðrið og veturinn. Það gerir hlutina vissulega auðveldari, en það verður erfiðara og erfiðara að fá hann út í hitann í Mexíkó.“

Bestu staðirnir

Eftir að Manuel fluttist til Íslands fyrir þremur árum síðan hafa þau Baddí farið þrisvar sinnum saman til Mexíkó. Hún hefur einnig sjálf ferðast þangað ásamt vinkonu sinni og í maí skrapp hún ein til að sækja tengdamóður sína. 

„Mexíkó er stórt land og býr yfir miklum fjölbreytileika, hvert ríki hefur sinn sjarma.“ Baddí segist einungis hafa heimsótt lítinn hluta af landinu en á sér þó nokkra uppáhaldsstaði.

„Playa del Carmen, þar sem Manuel bjó þegar við kynntumst, á stóran stað í hjartanu. Það er bær við karabíska hafið, stutt frá Cancún, með endalausri hvítri strandlengju og kósý stemningu.“

Eitt af því sem Baddí sækist í á ferðalögunum eru …
Eitt af því sem Baddí sækist í á ferðalögunum eru fallegar strendur og sjórinn. Ljósmynd/Aðsend
Það væri ekki ónýtt að stinga sér til sunds þarna.
Það væri ekki ónýtt að stinga sér til sunds þarna. Ljósmynd/Aðsend

Baddí nefnir einnig San Miguel de Allende á miðhálendi Mexíkó sem er einn af svokölluðum „Pueblos Magico“, alger töfrastaður. Þar fyrirfinnst ríkt lista- og menningarlíf en einnig er haldið upp á bestu „dag hinna dauðu“ hátíð, Día de los Muertos, í Mexíkó.

„Síðast en ekki síst myndi ég segja Bacalar, sem er uppáhaldið okkar beggja, en það er lítill bær sem stendur við stórt lón, og hýsir besta kaffihús í heimi, El Manatí.“

Hefur verið heppin

Baddí hefur ferðast til flestra landa í Evrópu, ásamt Mexíkó, Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ, Kosta Ríka, Bandaríkjanna, Ástralíu, Balí, Myanmar, Marokkó og Tyrklands. Eftirminnilegustu ferðalögin eru ferðalagið til Brasilíu sem skiptinemi þegar hún var 18 ára, dvöl á Krít 2019 og þegar hún fór og hitti Manuel í fyrsta skiptið í Mexíkó.

Aðspurð um hættur á ferðalögum segist Baddí hafa ferðast mikið ein og lent í ýmsu, sérstaklega þegar hún var yngri og þá helst á ferðalögunum um Suður-Ameríku. „En ég hef verið heppin.“

Matarupplifunin er ekki síður mikilvæg en umhverfið.
Matarupplifunin er ekki síður mikilvæg en umhverfið. Ljósmynd/Aðsend

Baddí vill helst upplifa fjölbreytt ferðalög en henni líði best ef hún geti dansað og hreyft sig  mikið, borðað góðan mat og fengið gott kaffi.

„Ég hugsa að besta matarupplifunin hafi verið á Grikklandi, sérstaklega á Krít, og í Mexíkó. Ég bjó líka á Ítalíu í mörg ár og Ítalir eru sennilega hvað stoltastir af sinni matargerð af öllum, og þar er allur matur góður.“

Hún sækist einnig í fallegar strandir og sjóinn, að finna frelsið, leigja bíl og keyra um og stoppa hvar sem hana langar til. Hún segist ekki hrifin af að gista á hótelum og gerir það nánast aldrei.

„Mér finnst gaman að finnast ég eiga heima þar sem ég er. Versta ferðalagið sem ég gæti hugsað mér væri all-inclusive hótel eða skemmtiferðaskip.“

Næst á dagskrá segir Baddí að þau fari líklega til Mexíkó fljótlega eftir áramót en þau langar einnig að ferðast til Japan á næsta ári. 

Baddí og Manuel elska að ferðast saman, en hún hefur …
Baddí og Manuel elska að ferðast saman, en hún hefur einnig verið dugleg að ferðast ein í gegnum tíðina. Ljósmynd/Aðsend

Fimm ferðaráð 

„Þegar ég ferðast þá…

  • Leita ég fyrst að besta kaffinu (Speciality coffee).
  • Reyni ég að tala tungumálið, allavega „góðan daginn“, „takk“ og „bless“.
  • Fer ég á matarmarkað og borða þar, þar er oft besti maturinn.
  • Fer ég út að hlaupa eða hjóla sem er frábær leið til að kynnast staðnum.
  • Finn ég oft danstíma eða tek þátt í skemmtilegu námskeiði sem er góð leið til að kynnast fólki.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka