Ef aðeins hugmyndin um að fljúga gerir þig kvíðinn þá ertu ekki einn. Þótt klínísk greining flughræðslu (aviophobia) sé óalgeng þá er ótti margra við að stíga upp í flugvél og taka á loft mun algengari.
Sumir óttast að vera í lokuðu rými og komast ekki út. Aðrir eru lofthræddir og enn aðrir óttast einfaldlega þá hugsun að opna óvart neyðarútganginn í miðju flugi.
Hér að neðan verða taldar upp nokkrar ráðleggingar frá flugmönnum, flugþjónum og fólki sem hefur sérhæft sig í meðferð við flughræðslu. Ráðin birtust á vef Travel and Leisure:
Af einhverjum ástæðum hefur líkaminn myndað viðbragðsmynstur þar sem fólk tengir kvíða við flugvélar. Sé unnið með grunn orsök óttans verður auðveldara að vinna með hann.
Ókyrrð í lofti er vegna vinda sem geta valdið hristingi, ekkert ósvipað því þegar bílar keyra á holóttum vegi eða skip sigla á úfnum sjó.
Í dag gerir tæknin flugmönnum kleift að forðast ókyrrð eins og best verður. Verði hins vegar ókyrrð þá má fyllast þakklæti yfir að sveigjanlegir vængirnir vinni eins og höggdeyfar í loftinu, að sögn flugmanna.
Það gæti mögulega hjálpað að kynna sér hvernig flugvélar eru hannaðar til að standa af sér neyðartilvik. Viðbúnaður er lykillinn í neyðartilfellum og vitneskja um að viðkomandi sé tilbúinn til að takast á við mismunandi aðstæður gæti aukið á öryggistilfinninguna.
Hljómar ekkert spennandi, en gæti verið gagnlegt. Mælt er með þáttunum Mayday (Air Disasters), þar sem fjallað er um tiltekin flugslys, farið yfir hvað fór úrskeiðis, hvers vegna og hvernig iðnaðurinn brást við til að hindra að slíkt kæmi fyrir aftur.
Mikilvægt er að láta vita ef flughræðsla er til staðar. Flugþjónar og flugfreyjur eru sérþjálfuð í að takast á við aðstæður eins og oföndun farþega eða ef farþegi fellur í yfirlið.
Gott er að velja sæti sem gætu spornað gegn aukinni flughræðslu. Kannski við neyðarútgang, við glugga eða nær gangi. Hvað sem lætur fólki líða betur.
Fleiri atriði eru talin upp á Travel and Leisure og eru t.d. að leita aðstoðar hjá sérfræðingi, finna góða afþreyingu á meðan á flugi stendur, nota öndunaraðferðir um borð og hreinlega að fara í flug, ekki láta hræðsluna stoppa sig.