Sigrún Fjeldsted Sveinsdóttir er fertugur markþjálfi, náms- og starfsráðgjafi og kennir jákvæða sálfræði við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Hún starfar einnig sjálfstætt við að efla konur í gegnum fjarþjálfun sem byggir á að kenna þeim að huga betur að líkamlegri og andlegri heilsu.
Í október sá Sigrún um fyrstu heilsu- og hreyfiferðina til Króatíu, fyrir konur á öllum aldri, í samstarfi við Stjörnuferðir. Sú ferð sló í gegn svo skipulögð hefur verið önnur slík ferð í febrúar, til Dubai.
Líkamleg hreyfing er Sigrúnu ekki ókunn enda hefur hún verið í íþróttum frá barnsaldri, er fyrrum afrekskona í frjálsum íþróttum og algjör „hreyfifíkill“ eins og hún segir sjálf.
„Ég fór tvítug á skólastyrk til Bandaríkjanna út á frjálsar íþróttir,“ segir Sigrún. Hún bjó í Georgíu í fjögur ár á meðan hún stundaði grunnnám í sálfræði við University of Georgia.
Þessi fjögur ár var Sigrún á fullum íþróttastyrk. Hún leigði íbúð á vegum skólans ásamt þremur öðrum nemendum og segir það hafa verið mikla lífsreynslu, sem fyrst og fremst fólst í að læra að standa á eigin fótum en einnig að komast að því hve mikilvægt væri að hafa hausinn rétt skrúfaðan á þegar kom að íþróttaiðkuninni.
„Þarna úti fór ég í miklar hugarfarspælingar og sá hvað andlegur styrkur skiptir miklu máli. Þetta var mjög mótandi tími í mínu lífi.“
Eftir að Sigrún hætti í frjálsum íþróttum 24 gömul hélt hún áfram að huga að andlegri og líkamlegri heilsu. Hún hreyfir sig alla daga og er mest að æfa í líkamsræktarsal þar sem hún blandar saman styrktar- og þolæfingum, en auk þess sækist hún í að hreyfa sig sem mest úti á sumrin og þá í gegnum fjallgöngur, útihlaup og hjólreiðar.
Í gegnum tíðina hefur hún sett saman prógramm sem hefur virkað best fyrir hana sjálfa, sem hún deilir nú með öðrum konum í gegnum hópfjarþjálfunina.
Spurð út í ferðina til Króatíu segir Sigrún hana hafa verið æðislega og gengið vonum framar. Með henni voru 24 konur og dvöldu þær í Makarska, litlum bæ við Adríahafið, í 20-25 gráðu hita.
Staðurinn býður upp á fjölbreytta hreyfingu, allt frá æfingum á ströndinni yfir í krefjandi göngur og hjólatúra.
„Eitt skiptið leigðum við hjól og hjóluðum meðfram rivíerunni í annan fallegan bæ sem heitir Baska Voda. Hreyfing dagsins þann daginn var að hjóla þangað í ótrúlega fallegu umhverfi bæði meðfram rivíerunni og í gegnum litla og fallega smábæi. Þegar við komum til Baska Voda tókum við æfingu á ströndinni, fórum út að borða og hjóluðum svo til baka.”
Segir Sigrún margar þeirra hafa sigrað sjálfa sig þann daginn.
Hver var uppáhaldsstaðurinn þinn?
„Það voru eiginlega allir æfingastaðirnir uppáhalds en ég get sagt þér sérstaklega frá einum,” byrjar Sigrún og lýsir lítilli hæð rétt fyrir utan Makarska þar sem hópurinn komst í algjöra þögn og friðsæld.
„Við horfðum bara yfir hafið og gerðum okkar æfingar. Í lokin var ég með smá hugleiðslu sem byggði á að fara inn á við, sækja styrkinn sinn og þakklætið og svo sátum við þarna í þögninni hver og ein á sínum forsendum.“
Önnur ógleymanleg upplifun segir Sigrún hafa verið þegar þær fóru á Nugal Beach, sem hefur verið kosin ein af fallegustu og friðsælustu ströndum Evrópu. Frá Makarska er um 20-30 mínútna ganga á ströndina en aðeins er göngufært að henni um stíg sem liggur í gegnum skóglendi.
„Það var algjör kyrrð á ströndinni og náttúran svo falleg og sjórinn kristaltær. Æfing dagsins þennan dag var að skokka eða ganga að göngustígnum. Þar setti ég upp styrktaræfingu og svo gengum við í gegnum skóginn að ströndinni þar sem við slökuðum á og þær sem vildu fóru í sjóinn,” segir Sigrún og bætir við að útsýnið yfir Adríahafið hafi verið stórbrotið.
„Það er bara svo frábært að efla konur í umhverfi þar sem ekkert annað er í gangi en fókus á þær sjálfar.“
Að lokum segist hún full tilhlökkunar til næstu ferðar til Dubai, sem verður með svipuðu sniði og Króatíuferðin.