„Ég er týpa sem ferðast alltaf með mikið með mér“

Eva Dögg elskar París en hér er hún stödd í …
Eva Dögg elskar París en hér er hún stödd í Nice. Ljósmynd/Aðsend

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir elskar að ferðast og tekur aldrei með sér handfarangur. Á ferðalögum vill hún hafa allt meðferðist og vill ekki þurfa að skítaredda neinu þegar kemur að klæðnaði. Hún komst í mikið jólaskap þegar hún heimsótti Kaupmannahöfn á dögunum. 
 
Hvernig ferðalaga týpa ert þú?

„Ég er týpa sem ferðast alltaf með mikið með mér og skammast mín ekkert fyrir það. Ástæðan er sú að þótt fáir trúi því þá finnst mér leiðinlegt að versla á sjálfa mig og hvað þá í flýti til að redda mér. Þess vegna vil ég bara vera með þau föt sem ég fíla og svo vil ég hafa snyrtidót og hárgræjur. Ég hef nefnilega lent í því að farangur týnist, ég með plön að kaupa mér föt fyrir einhvern viðburð erlendis og finn svo ekki neitt eða hæll brotnar undan skóm. Mér finnst fátt leiðinlegra en að vera bara með handfarangur þó svo að ég geri það ef ég er bara eina nótt í vinnuferð sem dæmi. Þegar ég kaupi mér föt þá eru það sjaldnast svona skyndikaup. Ég nota fötin mín lengi og vel og þar fyrir utan eru stundum tískustraumar í gangi sem ég er búin með og veit að henta mér ekki þannig að ég vil bara treysta á það sem ég er með í skápnum,“ segir Eva Dögg. 

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum?

„Já, það má segja það. Ég ferðast töluvert og hef verið svo heppin að hafa heimsótt yfir 30 lönd. Ég hef í raun alltaf ferðast mikið en þó aðallega vinnu minnar vegna hér á árum áður. Ég bjó í Bretlandi sem barn og Bandaríkjunum á háskólaárunum og fór 11 ára í 4 vikna sumarbúðir erlendis þannig að fyrir mér er þetta ekkert tiltökumál. Ég hef verið svo heppin að geta ferðast um Asíu en þá aðallega vegna vinnu og oftast ein á ferð en mig langar að upplifa hana með fjölskyldunni minni,“ segir hún. 

Hér er Eva Dögg í Frakklandi ásamt syni sínum í …
Hér er Eva Dögg í Frakklandi ásamt syni sínum í Nice í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

 
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Það er klárlega ferðin til Maldives-eyja, það stendur upp úr. Það er einhver galdur að vera við miðbaug og þessar eyjar eru svona eins og að vera staddur í póstkorti algjörlega ógleymanlegt.“

Eva Dögg horfðist í augu við skjaldböku og lýsir þeirri …
Eva Dögg horfðist í augu við skjaldböku og lýsir þeirri upplifun sem stórkostlegri. Ljósmynd/Aðsend

Horfðist í augu við risaskjaldböku 

Hver er eftirminnilegasta ferðaminningin?

„Eins og ég á margar skemmtilegar minningar þá held ég nú að það að horfast í augun á risa skjaldböku á miðju Indlandshafi sé ein sú eftirminnilegasta. Við vorum lengst úti á hafi og það var pínulítið sker neðansjávar sem við snorkluðum við og þá auðvitað kom ein risaskjaldbaka til mín. Í sömu ferð vorum við að snorkla hjá óbyggðri eyju að skoða kóralrif og þá synti stór hákarl fram hjá okkur sem ég vissi ekki af fyrr en við vorum komin heilu á höldnu í skútuna. Ég hafði séð ótal litla hákarla sem innfæddir fullyrtu að væru allir vegan þannig að ég hafði nú ekki miklar áhyggjur af því að þeir færu eitthvað að narta í mig. En mér brá pínu þegar fullvaxta hákarl var bara örfáum metrum frá mér og örugglega 100 metrar í land frá okkur og álíka í bátinn.“

Hér er Eva Dögg í hvítum sandi.
Hér er Eva Dögg í hvítum sandi. Ljósmynd/Aðsend

Væri til í Afríku og Hawaii

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig dreymir um að heimsækja Hawaii. Ég heyrði fyrst um Hawaii þegar ég var níu ára gömul og hef gengið með þann draum í maganum að fara einn daginn þangað í frí. Nú svo á ég eftir að fara til Afríku, Ástralíu og til Rússlands og svo langar mig að heimsækja fleiri lönd í suður Ameríku en ég hef gert. Nú svo hef ég enn ekki heimsótt Sviss en verið þar allt um kring og svo langar mig til Grænlands og svo er Transylvania í Rúmeníu að kalla á mig sem og Króatía og auðvitað Egyptaland,“ segir hún. 
 
Hvað leggur þú áherslu á á ferðalögum?

„Að yfirplana ekki heldur njóta litlu hlutanna og taka sem dæmi færri túristastaði og njóta augnabliksins og koma bara frekar aftur. Það er til dæmis ekki hægt að upplifa allt sem hver borg hefur upp á að bjóða í stuttri helgarferð til dæmis. Mér finnst mikilvægt að eiga bókaða matsölustaði og legg mikið upp úr því að upplifa ólíka matarmenningu,“ segir hún. 

Maldives-eyjar eru eftirminnilegur staður.
Maldives-eyjar eru eftirminnilegur staður. Ljósmynd/Aðsend

Elskar París 

 
Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Lengi vel var það London en hún á stóran hluta af hjarta mínu en hins vegar er ég ástfangin af París og er hún klárlega uppáhalds borgin mín í Evrópu.“
 
Hvers vegna er hún uppáhaldsborgin þín?

„Það er menningin, fegurðin, arkitektúrinn, andrúmsloftið, listin, maturinn, vínið, tískan og listinn heldur áfram. Ég elska „attention to details“ og það kunna frakkarnir, það eru litlu hlutirnir sem skipta máli og fegurð þeirra.“
 
Uppáhaldsveitingarstaður?

„Ég á ótal veitingastaði sem ég ég elska í París og hef ég verið dugleg að deila þeim með allskonar vinum og kunningjum á Facebook sem vita hversu oft ég heimsæki París.
Ég elska gömlu frönsku veitingastaðina, þessa klassísku, og ef ég væri að fara um næstu helgi þá myndi ég taka eitt kvöld eða hádegisverð á Allard sem er á vinstri bakkanum og svo tæki ég 100% eitt stuðkvöld á Siena sem er í fyrsta hverfi en þeir eru með speak easy bar sem er í uppáhaldi hjá mér núna.“

Uppáhaldsverslun?

„Mér finnst alltaf stemning að kíkja í Bon Marche og Gallerie Lafayette en ég á aftur á móti mína uppáhalds götu þar sem maður fær innblástur frá stærstu tískumerkjum verlandar en hún heitir Avenue Monataigne sem og Rue St-Honoré. Það er svo gaman að skoða þessar hátísku verslanir og bara að skoða fólkið þarna. Svo finnst mér líka alveg ótrúlega gaman að skoða verslanir sem eru með fatnað sem selja flíkur franska hönnun eftir hönnuði sem eru enn ekki orðnir þekktir en að gera svo flotta hluti. 

Mér finnst gaman að kaupa eitthvað sem er ekki „mainstream“ eða svona sem margir eru í eins og til dæmis þegar maður gekk í Millet úlpu til að falla inn í hópinn á unglingsárunum forðum daga.“

Hér er Eva Dögg í skíðaferð.
Hér er Eva Dögg í skíðaferð. Ljósmynd/Aðsend

New York og Las Vegas

Hver er uppáhaldborgin þín fyrir utan Evrópu?

„Ég elska New York. Það er eitthvað þar sem ég get ekki lýst með orðum svo myndi ég segja Las Vegas sem er svona Disneyland fullorðna fólksins, pínu tacky en ógleymanleg.“
 
Hefur þú heimsótt eitthvað af sjö undrum veraldar?

„Ég var eitt sumar á Rhodos og þar var auðvitað Kólossos á sínum tíma og minjarnar flokkast sem eitt af sjö undrum veraldar. Ég hef því miður ekki séð píramídana í Egyptalandi en það er á stefnuskránni klárlega.“
 
Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi erlendis?

„Ég hef verið mjög heppin á ferðalögum mínum erlendis en ég var einu sinni í leigubíl á leið frá Köln til Dusseldorf þegar leigubíll sem ég sat í lenti í árekstri á hraðbrautinni og það munaði ekki miklu að illa færi en sem betur fer var einhver verndari þarna með í för sem greip okkur.

Svo man enn eftir svörtu ekkjunni í bílskúrnum hjá pabba í San Diego, þá vorum við að hendast til Los Angeles og ég lagði barnabílstólinn með 8 mánaða gömlum syni mínum á gólfið meðan ég opnaði bílinn og þegar ég tók hann upp örfáum sekúndum seinna þá sá ég að svarta ekkjan vera í horni svona 50 cm frá okkur, ég svitna enn við tilhugsunina.“

Er einhver staður í heiminum sem þú vilt ekki heimsækja?

„Það eru ákveðin lönd í Afríku og mið austurlöndum sem heilla mig ekki í bili að minnsta kosti.“

Hér er Eva Dögg ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Ákasyni og …
Hér er Eva Dögg ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Ákasyni og sonum þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Alltaf með handáburð í vélinni

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Ég ferðast alltaf með sjal með mér, helst þunnt ullarsjal, því hitastigið í flugvél getur verið allavega. Svo finnst mér mikilvægt að vera með lítinn handáburð, var svo heppin að finna einn frá Dior sem er bæði fyrir hendur, andlit og varir og það er uppáhaldið mitt í dag.“
 
Getur þú sofið í flugvél?

„Já, ég get það en í seinni tíð verð ég þó helst að hafa hálspúða, eyrnatappa og fyrir augunum annars eru airpods og einhver B ástarmynd Netflix alveg ávísun á góða leggju í flugvél.“

Eva Dögg elskar skíðaferðir.
Eva Dögg elskar skíðaferðir. Ljósmynd/Aðsend

 
Ertu komin í jólagírinn?

„Ég er að detta í jólagírinn þessa dagana. Ég fékk jólin beint í æð í Kaupmannahöfn um daginn og þá bara var ekki aftur snúið. Ég lét setja ljósin á húsið mitt í byrjun nóvember bara til að gleðja mig sjálfa. Kannski pirrar það einhvern í götunni en það verður bara að hafa það.“

Ætlar þú að halda jólin á Íslandi eða erlendis?

„Í ár ætla ég að halda jólin á Íslandi, væri samt alveg til í að halda þau erlendis helst í Víetnam. Ég tók sama öll útgjöld tengdum aðventunni þá meina ég jólatónleikar, gjafir og matur og slíkt og bara þau útgjöld réttlæta það að vera erlendis um jólin.“

Hér er Eva Dögg að undirbúa sig undir að snorkla.
Hér er Eva Dögg að undirbúa sig undir að snorkla. Ljósmynd/Aðsend
New York er í miklu uppáhaldi.
New York er í miklu uppáhaldi. Ljósmynd/Aðsend
Hér er Eva Dögg ásamt Söru dóttur sinni í skíðaferð.
Hér er Eva Dögg ásamt Söru dóttur sinni í skíðaferð. Ljósmynd/Aðsend
Hér siglir Eva Dögg um heimsins höf.
Hér siglir Eva Dögg um heimsins höf. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert