Nadine og Snorri fóru með börnin til Marokkó

Fjölskyldan sá og upplifði margt skemmtilegt.
Fjölskyldan sá og upplifði margt skemmtilegt. Samsett mynd

Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs Play, og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, fjölmiðlamaður og ritstjóri miðilsins ritstjori.is, fóru ásamt börnum sínum tveimur í mikla ævintýraferð til hafnarbæjarins Essaouira í Marokkó nýverið.

Nadine segir bæinn búa yfir miklum sjarma og hafa upp á margt að bjóða fyrir ævintýraþyrsta ferðamenn.

„Við flugum með Play til Marrakesh og fórum þaðan með leigubíl til Essaouira, sem er einstakur bær staðsettur á vesturströnd Marokkó. Við Snorri höfum farið tvö saman til Marokkó áður en langaði aftur með börnin og ákváðum því að heimsækja þennan bæ, enda talsvert afslappaðra andrúmsloft en í Marrakesh. Leigubílaferðin tók um það bil tvær klukkustundir og kostaði ekki neitt.“

Fjölskyldan á góðri stund.
Fjölskyldan á góðri stund. Ljósmynd/Aðsend

Bærinn iðar af lífi

Aðspurð segir Nadine bæinn iða af lífi og menningu.

„Essaouira hefur upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn með sínum fallegu ströndum, listræna andrúmslofti og fjölbreyttu menningarlífi. Við gistum á hóteli, eða „riad“ í „medína“, sem þýðist á íslensku sem gamli bærinn. Þar má finna mjög þröngar og skemmtilegar götur. Við vorum umkringd fjölskrúðugu markaðslífi, fjölskyldum og fallegum byggingum.

„Medínurnar“ í Marokkó eru oft mjög þröngar og fullar af lífi og þú getur fundið markaði, verslanir, kaffihús og veitingastaði. Þar eru líka margar áhugaverðar og sögulegar byggingar, moskur, mikið dýralíf og hinar hefðbundnu verslanir (súk) þar sem þú getur keypt marokkóskt handverk, krydd, útskurð og flísar.“ 

Það er margt að sjá.
Það er margt að sjá. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gekk að ferðast með börnin?

„Við höfðum alveg áhyggjur af því hvernig það væri að ferðast með börn til Marokkó en það reyndist mjög skemmtilegt og áhugavert. Eldri strákurinn okkar, sem er sex ára, elskaði borgina og þótti allt mjög framandi og forvitnilegt. Litli gaurinn okkar, sem er eins og hálfs árs, naut þess að vera á ströndinni enda er sandurinn á ströndinni í Essouira silkimjúlkur.

Fólk ætti alls ekki að setja það fyrir sig að ferðast á aðeins meira framandi staði þó að það sé með börn – a.m.k. ekki til Marokkó – þar var alls staðar tekið vel á móti okkur fjölskyldunni. Ég mæli eindregið með því að heimsækja landið yfir vetrartímabilið, en það er æðislegt að vera þar frá nóvember til maí. Það er afar heitt yfir sumartímann en meðalhiti í janúar er í kringum 20 gráður sem mér finnst fullkomið, sérstaklega ef ferðast á með börn.“

Feðgarnir fóru á bak kameldýrs.
Feðgarnir fóru á bak kameldýrs. Ljósmynd/Aðsend

Þótti maturinn algjört lostæti

Hvernig er matarmenningin?

„Ég elska matinn í Marokkó - matarmenningin er ótrúlega fjölbreytt og er undir miklum áhrifum frá Arabíu, Miðjarðarhafi, Frakklandi og Afríku. Það jafnast ekkert á við að fá sér gott tagine og couscous á mjög svo viðráðanlegu verði á hverjum einasta degi.”

Maturinn var einstaklega gómsætur að mati Nadine.
Maturinn var einstaklega gómsætur að mati Nadine. Ljósmynd/Aðsend

Mælirðu með því að heimsækja Marokkó?

„Ef maður er að fara með fjölskylduna til útlanda mæli ég innilega með því að fólk, sem er kannski búið að fara oft og mörgum sinnum til Tenerife, prófi Marokkó. Ferðalag til Marokkó getur verið mjög hagkvæmt miðað við marga aðra áfangastaði í Evrópu, sérstaklega þegar þú tekur mið af kostnaði við flug, gistingu, mat og afþreyingu.

Nú flýgur Play beint til Marrakesh fram í maí, gistingin þarna er talsvert ódýrari en t.d. á Tenerife og svo fannst okkur oft hlægilegt hvað við borguðum lítið fyrir allan góða matinn á veitingastöðunum. Mæli með!“

Synir hjónanna nutu sín í botn.
Synir hjónanna nutu sín í botn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert