„Snjórinn er flóknari en kvenmaður“

Magne Kvam segist nota átta tæki til að leggja gönguspor …
Magne Kvam segist nota átta tæki til að leggja gönguspor fyrir gönguskíðaiðkendur enda hvert tæki mismunandi eftir hvernig snjórinn er. Ljósmynd/Sporið

„Sporarinn“ Magne Kvam og eiginkona hans, Ásta Briem, hafa síðastliðin sjö ár lagt gönguskíðaspor á stórhöfuðborgarsvæðinu í sjálfboðavinnu og með einstaklingsframlögum. Nú hafa sveitarfélögin Reykjavík og Mosfellsbær séð akkinn í verkefninu er varðar útiveru og lýðheilsu höfuðborgarbúa og hafa því lagt framtakinu lið með styrkveitingu. Að auki eru þau í samstarfi við verslunina Everest um leigu á Fisher-skíðum.

Til jafns við gönguskíði á veturna segist Magne hafa verið á fjallahjóli á sumrin og upphaflega hafi sporavinna hafist vegna þess að hann sá hve léleg nýting var á svæðum eins og Heiðmörk og Hólmsheiði á veturna. 

„Það var allt stútfullt af snjó og ég vissi alveg hvaða ævintýraland væri þarna inni í skóginum,“ segir Magne og fékk því leyfi til að leggja spor fyrir fjallahjól í snjónum á þessum svæðum.

Þegar Magne fékk fyrst leyfi til að gera fjallahjólaiðkendum kleift …
Þegar Magne fékk fyrst leyfi til að gera fjallahjólaiðkendum kleift að hjóla í Heiðmörk að vetri til vissi hann að þessi ónýttu svæði væru algjör draumur. Ljósmynd/Sporið

Vildu gera eitthvað fyrir „skíðarana“

„Þegar gönguskíðin urðu vinsælli sáum við að það yrði að gera eitthvað fyrir „skíðarana“ líka.“ Hann lýsir því hve mikil vinna er fólgin í að leggja sporin og engin hafi í raun sinnt verkefninu nema skíðasvæðin, eins og í Bláfjöllum.

„Íslendingar eru að fatta hve aðgengileg gönguskíðaiðkun er og að aðstaðan sé nánast í bakgarðinum.“

Á meðan á samtalinu stendur er Magne að leggja spor á Korpúlfsstöðum í Grafarvogi. Hann nefnir önnur sporasvæði; Hólmsheiði, Blikastaði í Mosfellsbæ og vötnin; Rauðavatn, Langavatn og Hafravatn. 

„Það er um að gera að vera sveigjanlegur eftir því hvar góðan snjó er að finna.“

Nú eru höfuðborgarbúar farnir að átta sig á að aðstæður …
Nú eru höfuðborgarbúar farnir að átta sig á að aðstæður til gönguskíðaiðkunar eru nánast í bakgarðinum, að sögn Magne. Ljósmynd/Sporið

En hvaðan kemur gönguskíðaáhugi Magne?

„Pabbi er norskur og þegar ég var barn þá var náttúrlega ekkert annað í boði en að fara á gönguskíðum í skólann. Ég fór á milli bæja í sveitinni á gönguskíðum,“ svarar Magne og segist hafa verið á gönguskíðum frá fjögurra ára aldri. Hann ólst upp á Svalbarðsströnd á Akureyri og bætir við að þessi tegund af skíðaiðkun hafi þótt heldur hallærisleg á þeim tíma.

Allt snýst þetta um að fylgja veðurspánni, segir Magne og …
Allt snýst þetta um að fylgja veðurspánni, segir Magne og þess vegna hefst hann stundum handa að næturlagi. Ljósmynd/Sporið

Mikil vinna 

„Snjór er ótrúlega flókið fyrirbæri,“ segir Magne með löngu ó-hljóði. „Snjórinn er flóknari en kvenmaður.“ Hann segist nota átta mismunandi græjur eftir því hvers lags snjórinn er; púður, vindpakkaður snjór, hjarn o.s.frv. 

„Aðaltrixið er að vinna með veðurspánni. Ef þú sporar á vitlausum tíma þá fer þetta allt í klessu.“ Þess vegna fer hann jafnvel af stað fjögur um nótt og leggur spor til sjö um morgun, þegar þarf. 

Yfir vetrartímann hefur þetta orðið aðalstarf Magne en á sumrin reka hjónin Icebike Adventures fyrir ferðamenn. Segir hann að hugmyndin sé sú sama hvort sem er fyrir fjallahjólin eða gönguskíðin; að búa til aðstæður fyrir útiveru.

„Við erum að búa til afþreyingu fyrir fólk sem vill stunda útivist á þessum tíma árs. Það er skammdegi og viðbjóður og allir eru inni að tala um hvað er kalt.“ Því sé kjörið að fá þann hóp út á gönguskíði í fannhvítri náttúrunni sem jafnist á við góða vítamínsprautu.

„Við fáum alla flóruna í brautirnar okkar, fimm ára krakka með langömmu sinni.“

Sporið er með Facebook-síðu og þar koma inn upplýsingar um …
Sporið er með Facebook-síðu og þar koma inn upplýsingar um ný spor en þeir hlaða einnig inn upplýsingum í rauntíma á Strava. Ljósmynd/Sporið

Ráð til áhugasamra

Magne leggur áherslu á að fá leiðbeiningar til að byrja með þótt ekki væri nema ein kvöldstund í grunntækni. Hjónin halda úti Facebook-síðunni Sporið og hafa t.a.m boðið upp á ókeypis kynningarkvöld í samstarfi við Millu og Krillu.

„Ég ráðlegg fólki að byrja á flötu svæði,“ og nefnir hann í því samhengi vötnin. Hann bendir einnig á upplýsingagjöfina en Sporið setur inn upplýsingar um ný spor og aðstæður á Strava og að hægt sé að stilla forritið þannig að fólk fái meldingu í símann um leið og nýtt spor kemur.

„Því auðvitað er þetta eins og með skíðin, það er alltaf best að vera fyrstur á svæðið.“

„Að nota utanbrautarskíði í braut er bara eins og að kaupa sér jeppa og ætla að nota hann á kappakstursbraut.“

Hann segir einnig að búnaðurinn megi ekki vera of gamall. Annars er einnig hægt að leigja bæði barna- og fullorðinsskíði hjá Sporinu og er staðsetning leigu auglýst á Facebook-síðunni hverju sinni. 

„En þú þarft ekki að græja þig upp eins og þú sért að fara á Ólympíuleikana. Það eina sem þarf eru skíði, skór, stafir og góða skapið.“ 

Magne mælir með að byrjendur leiti sér upplýsinga og sæki …
Magne mælir með að byrjendur leiti sér upplýsinga og sæki eins og eitt námskeið til að læra tæknina við gönguskíðaiðkun. Ljósmynd/Sporið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert