„Sporarinn“ Magne Kvam og eiginkona hans, Ásta Briem, hafa síðastliðin sjö ár lagt gönguskíðaspor á stórhöfuðborgarsvæðinu í sjálfboðavinnu og með einstaklingsframlögum. Nú hafa sveitarfélögin Reykjavík og Mosfellsbær séð akkinn í verkefninu er varðar útiveru og lýðheilsu höfuðborgarbúa og hafa því lagt framtakinu lið með styrkveitingu. Að auki eru þau í samstarfi við verslunina Everest um leigu á Fisher-skíðum.
Til jafns við gönguskíði á veturna segist Magne hafa verið á fjallahjóli á sumrin og upphaflega hafi sporavinna hafist vegna þess að hann sá hve léleg nýting var á svæðum eins og Heiðmörk og Hólmsheiði á veturna.
„Það var allt stútfullt af snjó og ég vissi alveg hvaða ævintýraland væri þarna inni í skóginum,“ segir Magne og fékk því leyfi til að leggja spor fyrir fjallahjól í snjónum á þessum svæðum.
„Þegar gönguskíðin urðu vinsælli sáum við að það yrði að gera eitthvað fyrir „skíðarana“ líka.“ Hann lýsir því hve mikil vinna er fólgin í að leggja sporin og engin hafi í raun sinnt verkefninu nema skíðasvæðin, eins og í Bláfjöllum.
„Íslendingar eru að fatta hve aðgengileg gönguskíðaiðkun er og að aðstaðan sé nánast í bakgarðinum.“
Á meðan á samtalinu stendur er Magne að leggja spor á Korpúlfsstöðum í Grafarvogi. Hann nefnir önnur sporasvæði; Hólmsheiði, Blikastaði í Mosfellsbæ og vötnin; Rauðavatn, Langavatn og Hafravatn.
„Það er um að gera að vera sveigjanlegur eftir því hvar góðan snjó er að finna.“
En hvaðan kemur gönguskíðaáhugi Magne?
„Pabbi er norskur og þegar ég var barn þá var náttúrlega ekkert annað í boði en að fara á gönguskíðum í skólann. Ég fór á milli bæja í sveitinni á gönguskíðum,“ svarar Magne og segist hafa verið á gönguskíðum frá fjögurra ára aldri. Hann ólst upp á Svalbarðsströnd á Akureyri og bætir við að þessi tegund af skíðaiðkun hafi þótt heldur hallærisleg á þeim tíma.
„Snjór er ótrúlega flókið fyrirbæri,“ segir Magne með löngu ó-hljóði. „Snjórinn er flóknari en kvenmaður.“ Hann segist nota átta mismunandi græjur eftir því hvers lags snjórinn er; púður, vindpakkaður snjór, hjarn o.s.frv.
„Aðaltrixið er að vinna með veðurspánni. Ef þú sporar á vitlausum tíma þá fer þetta allt í klessu.“ Þess vegna fer hann jafnvel af stað fjögur um nótt og leggur spor til sjö um morgun, þegar þarf.
Yfir vetrartímann hefur þetta orðið aðalstarf Magne en á sumrin reka hjónin Icebike Adventures fyrir ferðamenn. Segir hann að hugmyndin sé sú sama hvort sem er fyrir fjallahjólin eða gönguskíðin; að búa til aðstæður fyrir útiveru.
„Við erum að búa til afþreyingu fyrir fólk sem vill stunda útivist á þessum tíma árs. Það er skammdegi og viðbjóður og allir eru inni að tala um hvað er kalt.“ Því sé kjörið að fá þann hóp út á gönguskíði í fannhvítri náttúrunni sem jafnist á við góða vítamínsprautu.
„Við fáum alla flóruna í brautirnar okkar, fimm ára krakka með langömmu sinni.“
Magne leggur áherslu á að fá leiðbeiningar til að byrja með þótt ekki væri nema ein kvöldstund í grunntækni. Hjónin halda úti Facebook-síðunni Sporið og hafa t.a.m boðið upp á ókeypis kynningarkvöld í samstarfi við Millu og Krillu.
„Ég ráðlegg fólki að byrja á flötu svæði,“ og nefnir hann í því samhengi vötnin. Hann bendir einnig á upplýsingagjöfina en Sporið setur inn upplýsingar um ný spor og aðstæður á Strava og að hægt sé að stilla forritið þannig að fólk fái meldingu í símann um leið og nýtt spor kemur.
„Því auðvitað er þetta eins og með skíðin, það er alltaf best að vera fyrstur á svæðið.“
„Að nota utanbrautarskíði í braut er bara eins og að kaupa sér jeppa og ætla að nota hann á kappakstursbraut.“
Hann segir einnig að búnaðurinn megi ekki vera of gamall. Annars er einnig hægt að leigja bæði barna- og fullorðinsskíði hjá Sporinu og er staðsetning leigu auglýst á Facebook-síðunni hverju sinni.
„En þú þarft ekki að græja þig upp eins og þú sért að fara á Ólympíuleikana. Það eina sem þarf eru skíði, skór, stafir og góða skapið.“