„Ég vil meina að þetta sé elítan í íslenskum leiðsögumönnum“

Sara Hlín Sigurðardóttir kennir byrjendum jafnt og lengra komnum alvöru …
Sara Hlín Sigurðardóttir kennir byrjendum jafnt og lengra komnum alvöru fjallaskíðamennsku. Samsett mynd/Aðsend

Flugstjórinn og fjallaleiðsögumaðurinn Sara Hlín Sigurðardóttir er 43 ára gömul. Hún æfði skíði alla sína barnæsku og fór síðan að þjálfa hjá Breiðablik, auk þess sem hún var skíðakennari í Austurríki í eitt ár.

„Þannig byrjaði mín skíðavegferð. Sem skíðaþjálfari tók ég ýmis réttindi hjá Skíðasambandi Íslands til að verða löggildur þjálfari."

Sara er með öll tilskilin réttindi til að leiðsegja á …
Sara er með öll tilskilin réttindi til að leiðsegja á fjallaskíðum. Ljósmynd/Aðsend

Úr flugstjórn í fjallaleiðsögn

Sara fékk árs uppsögn í starfi sínu sem flugstjóri hjá Icelandair á meðan á kórónaveirufaraldrinum stóð. Hún sat ekki auðum höndum heldur dreif sig í leiðsögumannanám hjá FAS, framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu.

„Þeir eru að kenna fjallamennskunám og ég fór í eitt ár í stíft nám og fékk réttindi til að vinna á skrið- og hveljökli, að leiðsegja í línu og lærði sprungubjörgun o.s.frv.“

Sara fékk árs uppsögn í starfi sínu sem flugstjóri hjá …
Sara fékk árs uppsögn í starfi sínu sem flugstjóri hjá Icelandair á meðan á kórónaveirufaraldrinum stóð og dreif sig í nám í fjallaleiðsögn. Ljósmynd/Aðsend

Þetta nám leiddi til þess að Sara fór að kenna fjallaskíði á jöklum landsins.

Í dag starfar Sara sem flugstjóri hjá Icelandair og leiðsegir meðfram því, m.a. hjá Sóta Summits í Fljótunum norður á Tröllaskaga. 

Það er skinnað upp og skíðað niður.
Það er skinnað upp og skíðað niður. Ljósmynd/Aðsend

Fjallaskíðamennska

„Þetta er bara bæði jafn gaman,“ svarar Sara þegar hún er spurð um hvort skemmtilegra sé á fjallaskíðum eða svigskíðum. 

Sara segir hafa orðið sprengju í fjallaskíðamennsku í kringum 2010 og að þessi tegund skíðamennsku hafi vaxið jafnt og þétt síðan þá en eflaust tekið kipp í kórónaveirufaraldrinum líkt og mörg önnur útivist.

„Fólk er bara farið að nýta snjóinn miklu betur, samanber t.d. gönguskíðin.“

Gott viðmið fyrir áhugasama er að komast upp að Steini á Esjunni og þá sé vel hægt að taka þátt í fjallaskíðanámskeiðum Sóta summits. 

Sara leiðbeinir þátttakanda á námskeiðinu.
Sara leiðbeinir þátttakanda á námskeiðinu. Ljósmynd/Aðsend

„Fjallaskíðin eru þannig að þú getur losað hælinn á bindingunni og svo seturðu skinn undir skíðin og þá ertu kominn með viðnámið. Þá er þér ekkert að vanbúnaði en að labba bara upp brekkuna,“ segir hún og bætir við að þetta sé auðveldara en að vera í gönguskóm og ganga upp fjall. 

Spurð segir Sara til svipað fyrir þá sem hafi meiri áhuga á að vera á snjóbretti. „Fólk sem er á snjóbretti í stað fjallaskíða er á svokölluðu „split board“ þar sem brettinu er skipt í tvennt og hægt er að snúa bindingunum. Skinn eru sett undir hvorn hluta fyrir sig, gengið á því upp eins og fjallaskíðum, brettinu svo smellt saman á toppnum og þá er bara að renna sér niður.“

Horft yfir Fljótin á Tröllaskaga.
Horft yfir Fljótin á Tröllaskaga. Ljósmynd/Aðsend
Mynd af öllum leiðsögumönnum Sóta summits.
Mynd af öllum leiðsögumönnum Sóta summits. Ljósmynd/Aðsend

Sóti Summits námskeiðin

Sóti summits er tiltölulega nýtt fyrirtæki sem býður upp á gistingu í gömlu en nýuppgerðu skólahúsnæði, sveitahótelinu Sóti Lodge, framarlega í Fljótunum. Þar er einnig gömul sveitalaug sem fengið hefur upplyftingu og heitir Sólgarðar, ásamt gufu og heitum potti.

Sara kennir fjallaskíði á nokkrum námskeiðum sem haldin eru á vormánuðum. Þátttakendur fara á fjöllin í kring, sem snúa að Fljótunum og skíða niður. Það getur þó verið breytilegt eftir veðri og vindum.  

„Hjá Sóta eru bara íslenskir leiðsögumenn og ég er stolt að fá að starfa með þeim sem ég vil meina að séu elítan í íslenskum leiðsögumönnum,“ segir Sara og bætir við að þeir hafi jafnvel farið á hæstu tinda heims. Þar á meðal er Leifur Örn Svavarsson sem hefur t.d. tvisvar klifið Everest, farið margsinnis á Norður- og Suðurpólinn og leiðsegir bæði á Pólunum og hæstu tindum heims, að sögn Söru. 

Skálað í fullkomnum veðurskilyrðum.
Skálað í fullkomnum veðurskilyrðum. Ljósmynd/Aðsend

Sara kennir undirstöðuatriði á fjallaskíðum, fer yfir tæknina og græjurnar, á meðan Leifur kennir snjóflóðahluta námskeiðsins, en hann sá um snjóflóðavöktun Veðurstofunnar í mörg ár.

Líkt og Sara útskýrir, varðandi fjallaskíðamennsku, er mikilvægt að kunna að forðast aðstæður þar sem iðkandinn gæti lent í snjóflóði, þá þarf að læra að lesa í fjöllin og veðrið. Viðbrögð við snjóflóði eru einnig kennd á námskeiðinu.

Námskeiðin eru fyrir byrjendur og lengra komna og svo er hópnum stundum skipt eftir getu.

Fleira er í boði eins og þyrluferðir og „heli-drop“ þegar skíðamönnum er flogið í þyrlu á ákveðinn stað. Þeir skinna upp fjöllin og skíða niður þar til komið er til baka.

„Þetta er náttúrulega snjókista Íslands þarna á Tröllaskaganum.“ 

„Í bakgarði hótelsins blasir við fjallið Barð en þar var …
„Í bakgarði hótelsins blasir við fjallið Barð en þar var fyrsta skíðamót landsins haldið árið 1905. Úr sundlauginni horfum við svo á Sótahnjúk en fyrirtækið heitir eftir honum.“ Ljósmynd/Aðsend
Frelsið gerist vart meira en þetta.
Frelsið gerist vart meira en þetta. Ljósmynd/Aðsend
„Við leggjum mikið uppúr að skíða gamlar þjóðleiðir ef hægt …
„Við leggjum mikið uppúr að skíða gamlar þjóðleiðir ef hægt er og tengja við þjóðsögur sem og sannar sögur svæðisins.“ Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert