„Ég hef aldrei heyrt talað um þriðju vaktina á Ítalíu“

Fríða og Filippo eru búsett á Ítalíu með börnunum sínum …
Fríða og Filippo eru búsett á Ítalíu með börnunum sínum tveimur. Ljósmynd/Aðsend

Fríða Sóley Hjartardóttir hjúkrunarfræðingur er búsett á Ítalíu ásamt kærasta sínum Filippo Riviera og tveimur börnum þeirra.

„Ég er með litla skrifstofu heima og er í fjarvinnu hjá Heilsuveru og sé um að svara 1700 símanum og spjallinu.“

Fríða og Filippo fluttu fyrst til borgarinnar Trento á Norður-Ítalíu vorið 2022 þegar Filippo hóf störf sem verkfræðingur hjá ítölsku fyrirtæki. Borgin Trento er staðsett í Dólómítafjöllunum, við landamæri Austurríkis.

„Eftir að við vorum búin að taka ákvörðun um að flytja út þá komst ég að því að ég væri ólétt, sem var svolítið óvænt.“ 

Fríða hóf því dvölina á fæðingarorlofi áður en hún byrjaði að starfa fyrir Heilsuveru.

Þorpið sem fjölskyldan býr í heitir Courmayeur og er í …
Þorpið sem fjölskyldan býr í heitir Courmayeur og er í 1200 metra hæð. Ljósmynd/Aðsend

Að eignast barn á Ítalíu

Fríða hefur reynslu af að eignast barn á Íslandi annars vegar og svo aftur á Ítalíu. Sonur þeirra verður fimm ára í maí og dóttirin þriggja ára í sumar.

„Mig langaði mikið til að eiga á fæðingarheimili og fann eitt slíkt í Trento með ljósmóður sem talar ensku. Það var algjör draumur.“

Fríða segir þjónustuna í héraðinu niðurgreidda, en því er mismunandi farið eftir hvar á Ítalíu fólk er búsett.

„Svo kom í ljós að ég var svona GBS-beri [Beta hemolytískir streptókokkar] og þurfti þess vegna að fæða á spítala.“

Umhverfið er stórbrotið.
Umhverfið er stórbrotið. Ljósmynd/Aðsend

Fríða eignaðist dótturina á spítala í næsta bæ og segir fæðinguna hafa gengið vel, en ljósmóðirin sem ætlaði að vera með henni á fæðingarheimilinu var viðstödd fæðinguna og sá um að þýða ásamt öðrum stuðningi. „Og ég fékk að eiga í vatni eins og ég hafði óskað.“ 

Oftast liggja konur inni á spítalanum í þrjá til fjóra sólarhringa eftir fæðingu en Fríða fékk að fara á fæðingarheimilið. 

„Þegar ég kom heim fékk ég heimaþjónustu frá ljósmóður líkt og er gert á Íslandi. Oftast er það ekki þannig á meðal ítalskra kvenna, því þær dvelja lengur á spítalanum og mæta svo bara með barnið í þriggja vikna skoðun.“

Útiveran og frelsið.
Útiveran og frelsið. Ljósmynd/Aðsend

Þriðja vaktin þekkist ekki

Nýlega fluttu Fríða og Filippo í þorpið Courmayeur í 1200 metra hæð í Ölpunum, nær Frakklandi, en fjölskylda Filippo býr þar.

Eftir að hafa verið tvö ein með börnin í Trento segir Fríða breytinguna til hins betra og þau fái meiri aðstoð frá fjölskyldu Filippo.

Hvernig er að vera með börn á Ítalíu?

„Ítalía er mjög barnvæn þjóð. Úti á götu er tekið vel eftir börnum og fólk vill eiga í beinum samskiptum við þau, t.d. beygir sig niður til að heilsa þeim.“ Fríða bætir við að stundum finnist henni Ítalir fullnærgöngulir eins og þegar gömul kona sneri sér að drengnum hennar sem datt og meiddi sig og sagði honum að hætta að skæla. 

„Það er aldrei vesen að hafa börnin með og þú tekur þau með í allt.“

Á góðri stund úti í náttúrunni.
Á góðri stund úti í náttúrunni. Ljósmynd/Aðsend

Hins vegar er jafnrétti eitthvað allt annað mál og ólíkt því sem er hérlendis.

„Það var sjokk fyrir mig að vera kona og móðir á Ítalíu.“

Fríða segir margar mæður vera heima með barnið fyrstu þrjú æviár þess og að leikskólinn sé ætlaður þriggja til sex ára. Eitthvað er um ungbarnaleikskóla en þeir eru mun dýrari.

„Maðurinn er mikið útvinnandi og konan sér um allt í tengslum við heimilið. Ég hef aldrei heyrt talað um þriðju vaktina á Ítalíu og ég held að fólk viti ekki einu sinni hvað það er.“

Margar mæður eru útivinnandi og setja barnið á ungbarnaleikskóla en eru þá kannski í hlutastarfi, að sögn Fríðu. 

„Amman og afinn eru rosa virk á Ítalíu og í raun sér öll stórfjölskyldan um að ala upp barnið, frænkur og langömmur líka.“

Fríða segist hafa verið fljót að finna, eftir að þau færðu sig um set á Ítalíu, hvað það skipti miklu máli að hafa fjölskylduna nálægt. „Ég held það sé líka gott fyrir krakkana að fá önnur sjónarhorn á lífið heldur en einungis frá mömmu og pabba.“

Útivera og klifur er eitt af því sem fjölskyldan elskar …
Útivera og klifur er eitt af því sem fjölskyldan elskar að gera saman. Ljósmynd/Aðsend

Þrjú tungumál á heimilinu

Fríða og Filippo kynntust í Frakklandi. Hún fór fyrst út sem skiptinemi og bjó þá á Brittaníuskaganum í norðvestur Frakklandi og síðar fór hún í skiptinám til Parísar, en auk þess að vera hjúkrunarfræðingur nam hún einnig mannfræði.

„Við Filippo tölum saman á frönsku. En franskan hefur líka hjálpað mér með ítölskuna.“

Börnin þeirra eru altalandi á ítölsku og í héraðinu þar sem fjölskyldan býr núna eru ítalska og franska töluð til jafns og börnin læra frönsku í skólum og leikskólum. 

Hvaða tungumál talið þið t.d. við kvöldverðarborðið?

„Heima er þetta smá „kaos“. Ég skil ítölskuna og tala hana ágætlega. Maðurinn minn talar ítölsku við börnin og ég íslensku. Krakkarnir svara á ítölsku, þótt þau skilji vel íslenskuna og tali hana þá hugsa þau á ítölsku og því eðlilega betri í henni.“

Í hjólaferð með gríslingana.
Í hjólaferð með gríslingana. Ljósmynd/Aðsend

Hinn fullkomni dagur

Spurð um hvað sé það besta við svæðið sem þau búi á segir Fríða að umhverfið sé magnað. „Við búum í fjöllunum. Strákurinn minn er byrjaður að æfa skíði og æfir núna tvisvar sinnum í viku. Ég er sjálf að reyna að læra á skíði. Það er mikið um skíðaiðkun hér, gönguskíði og klifur.“

Veturnir geta verið snjómiklir en veðráttan er allt öðruvísi en á Íslandi og segir Fríða að þau séu að mestu laus við veðurofsann sem oft sé hérlendis á þessum tíma árs. Þegar viðtalið er tekið er snjór í fjöllunum, sjö stiga hiti, logn og sól. Sumrin eru góð og getur hitinn farið í allt að 25-30 gráður, að sögn Fríðu. 

Fríða Sóley elskar lífið í Ölpunum.
Fríða Sóley elskar lífið í Ölpunum. Ljósmynd/Aðsend

Hvers sakniði frá Íslandi fyrir utan fjölskyldu og vini?

„Við erum öll sammála um að sakna þess mjög mikið að geta ekki farið í sund. Það fyrsta sem við gerum þegar við komum til Íslands er að fara í sund. Það er sundlaug hérna en það er verið að gera við hana og hún hefur verið lokuð í fjögur ár. Það tekur allt svo langan tíma, það átti að opna hana aftur fyrir ári síðan.“

Að lokum lýsir Fríða hinum fullkomna degi á Ítalíu.  

„Við vöknum í rólegheitum og tökum því rólega. Um sumarið er fullkomið að fara í lautarferð við nálægt vatn og taka því rólega í sólinni og náttúrunni. Eftir daginn er æðislegt að koma heim og eiga kvöld með fjölskyldunni við kvöldverðarborðið. Að vetri til væri æðislegt að fara í dalina hér í kring á gönguskiði eða í göngu. Bara vera úti í náttúrunni.“

Gengið að vatninu.
Gengið að vatninu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert