Árið 1892 gekk listmálarinn Edward Munch um Ekeberg-garðinn í Osló. Hann hripaði niður í dagbókina sína orðin: „Ég heyrði stórfenglegt og óþekkt öskur úti í náttúrunni“.
Þessi upplifun hans varð innblásturinn að einu frægasta verki hans, Ópinu.
Munch fæddist í þorpinu Adalsbruk í Loten-héraðinu í Noregi árið 1863.
Í dag stendur Munch-safnið innan um ótal nýbyggingar við hafnarbakkann í Bjorvika. Arkitektúr safnsins er með þeim hætti að turninn hallar fram líkt og hann hneigi sig fyrir Oslóarborg, borginni sem var innblástur margra af verkum hans.
Einn af hápunktum heimsóknar í Munch-safnið er ristastórt herbergi þar sem rissur Aula-málverkanna eru til sýnis, röð risalistaverka sem Munch gerði fyrir hátíðarsal Oslóarháskóla.
Þegar nasistar réðust inn í Noreg voru þessi málverk falin í námu, en listaverk Munch voru á lista nasista yfir úrkynjun og var framúrstefnuleg list talin til siðspillingar. Eftir stríðið fengu verkin sinn stað aftur.
Í minna en klukkustundarfjarlægð frá Osló er sveita- og menningarsetrið Ramme, þar sem Munch málaði tvö af áðurnefndum risaverkum. Hægt er að ganga um húsið hans og útistúdíóið, ásamt því að dóla sér meðfram ströndinni við Oslóarfjörð.
Auðvelt er að ímynda sér að umhverfið hafi verið kjörið fyrir Munch sem var þjakaður af heilsubresti og geðrænum vandamálum allt sitt líf.
Munch fjárfesti í húsnæðinu árið 1910 og hélt því til dauðadags 1944.
Í Grunerlokka í Osló átti fjölskylda Munch heima í nokkrum húsum í hverfinu. Húsin eru merkt sérstaklega en í einu þeirra geymdi hann eitt af frægustu verkum sínum, Veika barnið, sem hann málaði eftir dauða systur sinnar sem lést úr berklum.
Einnig er hægt að votta Munch virðingu með því að heimsækja gröf hans í Our Savior-kirkjugarðinum í Osló.