Sóldís Alda Óskarsdóttir er 31 árs gömul og hefur ferðast um heim allan síðastliðin ár. Það má segja að hún hafi starfað sem stafrænn miðlari þar sem henni hefur tekist að fjármagna ferðalögin að miklu leyti með því að kaupa og selja hlutabréf, og verið þannig í eins konar fjarvinnu.
„Ég hef ekki verið í alveg fastri vinnu frá því að ég hætti í skrifstofuvinnunni sem ég var í, fyrir fimm árum síðan. Þá fór ég að kaupa og selja hlutabréf sem ég gerði í um tvö ár og svo hef verið að vinna aðeins þegar ég er á Íslandi. Síðasta sumar var ég að vinna sem flugfreyja hjá Icelandair og verð þar aftur næsta sumar. Það hentar mér rosalega vel að vera ekki föst í einhverju einu. Ég sé alveg fyrir mér að gera meira af því að vera stafrænn miðlari og flakka um heiminn.“
„Eftir menntaskóla lauk ég BS gráðu í viðskiptafræði og í kjölfar þess fór ég að vinna á skrifstofu tengt því. Ég fékk þar launalaust frí í fjóra mánuði á ári og nýtti það í ferðalög erlendis. Þá kviknaði hjá mér mikill ferðaáhugi, og ég ákvað að hætta í þeirri vinnu árið 2020 og flytja til Valencia á Spáni. Ég hafði komið þangað áður og borgin heillaði mig, en þar hef ég búið í gegnum tíðina í samtals eitt og hálft ár, ásamt því að hafa gert alls konar annað. Ég hef búið í Split í Króatíu í nokkra mánuði og hef líka varið miklum tíma í Barcelona og þá í mánuð í senn.“
„Ég hef farið í fleiri bakpokaferðalög en ég get talið, á örugglega að baki mér yfir 500 nætur á farfuglaheimilum, þar sem ég deili herbergi með öðrum ferðalöngum. Það hefur einmitt verið á slíkum stöðum sem ég hef fengið mikinn innblástur frá fólki, og bestu samtölin eiga sér stað. Þar hef ég hitt ferðalanga sem hafa fundið mjög frumlegar leiðir til að framfleyta sér á ferðalagi, án þess að vera bundin því að vera í þessari hefðbundnu níu til fimm vinnu. Fólk hefur verið t.d. að selja einhvers konar vörur á netinu eða í fjárfestingum, aðrir eru að kenna ensku á netinu og svo hafa enn aðrið verið að vinna á gistiheimilunum og fá þá fría dvöl og mat að launum. Mest hef ég ferðast um Mið- og Suður-Ameríku sem hentar mér vel því ég tala spænsku. Svo hef ég líka ferðast mjög mikið um Evrópu og aðeins í Asíu og Eyjaálfu.“
Ferðastu ein eða er einhver ferðafélagi með í för?
„Það hefur verið misjafnt hvort ég er að ferðast ein eða með einhverjum. Það hefur enginn einn verið að ferðast með mér allan tímann en oft hafa einhverjir komið og verið með mér í smá tíma. Þegar ég gisti á gistiheimilum þá kynnist ég alltaf fólki þar og er mikið með þeim, og oft endar það þannig að ég ferðast með þeim eitthvað áfram, svo að ég er yfirleitt lítið alveg ein. Annars á ég mjög auðvelt með að vera ein og mér finnst það fínt inn á milli. Þegar ég er á sama stað í langan tíma þá næ ég að eignast vini þar og bý til mitt net.“
Hvað hefur dregið þig út í svona mikil ferðalög?
„Mér finnst svo ótrúlega gaman að sjá og upplifa nýja hluti og mér þykir mjög áhugavert að sjá hvernig daglegt líf fólks gengur fyrir sig á ólíkum stöðum. Mér finnst líka mjög heillandi hvað maður hittir mikið af allskonar fólki. Ef ég hefði ekki fengið að kynnast svona mikið af manneskjum, hvaðan af úr heiminum, þá held ég að mér hefði aldrei dottið í hug að hætta í vinnunni minni og fara að ferðast svona mikið, en ég hitti marga sem höfðu gert slíkt. Svo sem dæmigerður Íslendingur sæki ég auðvitað líka í betra veðurfar og betra verðlag og aðeins eðlilegra magn af dagsbirtu,“ segir hún.
Stemmingin í Mið- Ameríku mikið aðdráttarafl
Hvaða lönd standa upp úr hjá þér?
„Ég er almennt mjög mikill aðdáandi spænskumælandi landa. Ef ég þyrfti að velja uppáhalds væru það líklega Spánn og Mexíkó. Ég elska Spán því að lífið þar er svo afslappað og þægilegt. Mér finnst Spánverjar kunna að njóta lífsins, það mikil hefð fyrir að fara og fá sér kaffi eða einn drykk á einhverju sætu torgi, bara eftir vinnu á þriðjudegi. Mér finnst landið einnig hafa upp á margt að bjóða, það eru stórborgir, falleg náttúra, minni borgir, smábæir og strendur. Mín reynsla er sú að það er auðvelt að ferðast um landið, það er hægt að hoppa upp í lest eða rútu og fara nánast hvert sem er.“
„Ég dvaldi í Mexíkó í tæpa fjóra mánuði árið 2022 og féll þá svolítið fyrir landinu, ég ferðaðist mikið um og fór bæði á hefðbundna túristastaði eins og Tulum en líka á staði sem eru minna heimsóttir, þar ber að nefna Bacalar og San Cristóbal de las Casas. Ég hef hvergi séð fallegri strendur en í Mexíkó og varð líka hrifin af öllum litlu og litríku bæjunum. Mexíkóborg kom mér skemmtilega á óvart, þar er svo mikið menningarlíf og ég væri alveg til í að prófa að búa þar. Maturinn útaf fyrir sig er nógu góð ástæða þess að ég dýrki landið en svo er ég yfir höfuð með Mið-Ameríku í heild sinni á heilanum. Það er bara eitthvað við stemmninguna þar sem togar svakalega mikið í mig.“
Ertu sparsöm þegar þú ert að ferðast?
„Ég er frekar sparsöm yfir höfuð, en ég vel yfirleitt ódýra gistingu og deili þá herbergi með öðru fólki. Inn á milli þarf ég hlé frá því og þá bóka ég mér nokkrar nætur á fínna hóteli. Þegar ég er lengi á einhverjum stað þá nota ég Airbnb-gistingu. Ég eyði líka frekar litlu í bílferðir og slíkt, ég nota alltaf almenningssamgöngur og haga mér eins og ég sé heimamaður. Ég tek leigubíl bara í ítrustu neyð. Ég reyni að borða þar sem heimamenn borða, það er yfirleitt frekar hagstætt en ég fer á vestræna staði til að fá mér morgunmat. Mér finnst gaman að fá mér litríka skál af morgunmat og kann virkilega vel að meta gott kaffi. Það er oft frítt kaffi á gistiheimilum en ég læt það vera því að það er algjört sull. Ég hef gaman af því að fara á ný kaffihús og hef stundað það að þræða þau til að mynda í Ruzafa hverfinu í Valencia, og mæli með. Dulche de Leche og Blackbird eru í uppáhaldi.“
Valencia hin fullkomna borg
Hvaða borg heldurðu mest upp á?
„Ég verð að segja Valencia, ég vil meina að hún sé hin fullkomna borg, enda hef ég flutt þangað tvisvar. Hún er eins og minni útgáfa af Barcelona en nánast án án túristanna. Veðrið er æðislegt bæði á sumrin og á veturna, þar er endalaust af góðum kaffihúsum og veitingastöðum. Svo er ótrúlega auðvelt að komast á milli staða, það er óþarfi að eiga bíl, þar sem það er mun fljótlegra að hjóla um eða nota lest. Það er mikið af hjólastígum og er allt á jafnsléttu. Ég hef hjólað víða um borgina en það er ekki einu sinni nauðsynlegt að eiga hjól, það eru hjólastöðvar út um allt og árskortið til þess að fá aðgang að þeim er um 4.000 krónur. Í Valencia er fallegur miðbær og stór almenningsgarður sem fyllist um helgar af fólki, margir fara í lautarferð og það myndast yndisleg stemming. Einnig eru allar búðir sem manni gæti mögulega dottið í hug og það er fínasta strönd í borginni en rétt fyrir utan hana eru ennþá betri strendur,“ segir Sóldís Alda.