Þegar sú gula lætur loksins sjá sig og ekki eitt ský er að sjá á himni er ekkert annað að gera en að henda á sig sólgleraugum, smyrja á sig sólarvörn og skella sér út. Þið vitið að sólardagarnir hér eru dýrmætir og það getur orðið yfirþyrmandi að ákveða hvað á að gera til að nýta sólargeislana sem best.
Ferðavefur mbl.is tók saman nokkrar hugmyndir fyrir þá sem vilja nýta veðurblíðuna til fulls án sólarsamviskubits.
Hver man ekki eftir því að fara í vatnsblöðrustríð með vatnsbyssum eða blöðrum? Hafið handklæði og skiptiföt í bakpokanum og ekki gleyma að hirða upp gúmmíbútana eftir stríðið.
Nauthólsvíkin er fljót að fyllast á sólríkum sumardögum og þar skapast skemmtileg baðstrandarstemning. Í fjörunni er lítið laugarsvæði og ofar á ströndinni er heitur pottur sem allir geta notið góðs af. Í Nauthólsvík er einnig sandblakvöllur þar sem oft má sjá hópa í blakleik. Grípið handklæði, smá nesti og fötu og skóplu fyrir krakkana og þá er eins og þið séuð mætt á strendur Tenerife. Ef Nauthólsvíkin er pökkuð þá er einnig frábær strönd í Sjálandinu í Garðabæ.
Pakkið baguette, ostum, jarðarberjum og jafnvel kampavíni í körfu, grípið stórt teppi og veljið grænasta blettinn á túninu. Taktu með þér spil, bók, bolta eða hvað annað sem kallar á skemmtun og njóttu sólarinnar. Frábærir staðir á höfuðborgarsvæðinu: Heiðmörk, Elliðaárdalur, Arnarhóll í miðborginni og Grasagarðurinn væri tilvalinn eftir heimsókn í Húsdýragarðinn. Valmöguleikarnir eru óteljandi.
Skelltu þér með ferjunni frá Skarfabakka eða Gömlu Höfninni og sigldu út í kyrrláta eyjaparadís. Þar geturðu notið hádegismatar eða léttra veitinga í friðsælu umhverfi - eða jafnvel tekið lautarferðina þarna.
Einstök klassík. Krakkarnir eyða orkunni á hoppubelgnum, klifurgrindum og hringekjunni á meðan foreldrar slaka á með kaffibolla og hafa góða sjónlínu yfir allan hasarinn.
Sundlaugar höfuðborgarsvæðisins breytast í hálfgerða vatnagarða um leið og sólin lætur sjá sig. Rennibrautir, pottar og sólbekkir á öllum hornum. Ef þig langar í ævintýralegri útgáfu, þá er Reykjadalur í Hveragerði fullkominn kostur, um 50 mínútna ganga upp í grænan dal launar erfiðið með ylvolgri náttúrulaug.
Frisbígolfvellirnir eru komnir út um allt og það er tilvalin skemmtun fyrir vinahópinn eða fjölskylduna að taka einn folf-hring.
Hjólaðu eða gakktu og skottastu milli ísbúða á höfuðborgarsvæðinu. Smakkaðu, berðu saman og finndu út hvar maður fær bestu kúluna.