Tónlistarkonan Katherine von Drachenberg eða Kat Von D er á leið í tónleikaferð til Evrópu til að kynna plötu sína My Side of the Mountain, en aðdáendur hennar bíða með óþreyju eftir elektrónísku poppprinsessunni. Tónleikar hennar fara fram í júní, m.a. í London, Gautaborg, Osló, Kaupmannahöfn, Varsjá, Dublin og Madríd.
Von D er með 9,4 milljónir fylgjenda á Instagram og setti inn myndskeið af sér í gær þar sem hún var að pakka fyrir ferðina. Fatavalið er ekki flókið, að því er virðist – enda alltaf svartklædd – svo svartar flíkur og skór liggja á víð og dreif um svefnherbergisgólfið.
Í myndskeiðinu segist hún pakka svona fyrir tónleikaferð, sorterar flíkur og dreifir þeim á gólfið svo hún hafi sjónrænt yfirlit yfir hvað hún á. Hún bendir á svarta kjóla og segir þá vera kirkjuföt, en Von D er fædd í Mexíkó og foreldrar hennar voru boðberar kirkju sjöunda dags aðventista, söfnuðar sem greinir sig frá öðrum kristnum söfnuðum á þann hátt að laugardagur er heilagur hvíldardagur.
Því næst bendir hún á fatnað og skó sem hún notar dagsdaglega, létta jakka og fatnað og fylgihluti sem hún notar á sviði.
Auk þess að vera tónlistarkona er Von D einnig húðflúrari og frumkvöðull og kom hún fram sem flúarari í raunveruleikaþáttunum LA Ink (2007-2011).
Í nýlegu viðtali á Original Rock.net er hún spurð hvaða áfangastaði hún hlakkar mest til að koma á og svarar Von D að hún sé spennt fyrir öllum stöðunum því langt sé síðan hún ferðaðist til Evrópu. Hins vegar sé hún sérlega áhugasöm um Beinakirkjuna í Tékklandi, Sedlec Ossuary. Talið er að Þessi rómansk-kaþólska kapella hafi að geyma beinagrindur af 40-70.000 manneskjum, en beinin hafa verið notuð í skreytingar og húsgögn í kapellunni.