Nýbakaðir stúdentar flykkjast suður á bóginn í sólina til að fagna útskrift. Albufeira, hinn líflegi strandbær í Portúgal, trónir á toppnum sem vinsælasti áfangastaður útskriftarnema í ár.
Ferðavefur mbl.is hefur tekið saman fimm skotheld ráð fyrir þessa ungu krakka sem margir hverjir eru á leiðinni í sína fyrstu ferð án fjölskyldu.
Hvað skal gera og hvað skal forðast:
- Forðastu að játa 10 ára ást þína - nema þú sért alveg viss.
Heppilegur tími ástarjátningar er ekki þegar þið eruð föst á sama hótelganginum í viku. Reyndu að sjá hvort tilfinningarnar séu gagnkvæmar áður en þú skapar óþægilega stemningu sem enginn kemst undan.
- Vinakerfið er heilagt.
Farið alltaf að minnsta kosti tvö saman, hvort sem það er á ströndina eða ferð á salernið. Hafið kveikt á staðsetningu í símanum, t.d. með forritinu Life360.
Svo gerir ekkert gagn af því að vera með síma ef rafhlaðan er búin. Fjárfestu í hleðslukubbi!
- Ekki vera subban í hópnum.
Spennan og skemmtunin þýðir ekki að herbergið eigi að líta út eins og unglingsherbergi sem hefur ekki gengið frá í margar vikur. Gríptu með þér poka fyrir óhrein föt og losaðu þig við pizzakassana. Svo nennir líka enginn að horfa á skítugu sokkana þína liggja á gólfinu.
- Berðu virðingu fyrir hlutum annarra.
Brotin hurð, skemmd borðplata eða önnur „óhöpp“ geta kostað hópinn hóteltrygginguna - sem getur reynst vont fyrir veskið. Athugaðu reglur hótelsins og mundu að tryggingar dekka ekki fíflagang sem fer úr böndunum.
- Passaðu mikilvæga hluti.
Geymdu vegabréf, kort og reiðufé í öryggishólfi eða á öðrum góðum stað. Taktu mynd af skilríkjunum á símann og notaðu snertilausar greiðslur þegar farið er út á lífið. Það væri leiðinlegt að verða viðskila við vegabréfið og átta sig á því á leiðinni heim.
mbl.is óskar nýstúdentum góðrar ferðar og minnir á mikilvægi þess að innbyrða nóg af steinefnum og söltum í hitanum, setja á sig sólarvörn og ekki gleyma góða skapinu. Verið góð hvert við annað og komið heil heim. Góða skemmtun!