Fyrrverandi slökkviliðsmaðurinn og bráðatæknirinn Óskar Steindórsson segir fólk ekki nógu meðvitað um þær þyngdartakmarkanir sem gilda um samanlagða þyngd ökutækis og hjólhýsis. Þegar hann langaði að leigja út sitt hjólhýsi sá hann fljótlega að það væri hugsanlega of þungt fyrir fólk sem hefði ekki BE-próf, eða kerruréttindi. Þess vegna stofnaði hann fyrirtæki.
Í hvert skipti sem ég ferðast hérlendis verð ég alltaf jafn hissa á að ég geri ekki meira af því,“ segir þriggja barna faðirinn Óskar Steindórsson. „Uppáhaldsstaðurinn minn á Austurlandi er Hallormsstaðarskógur og Atlavík,“ bætir hann við en Hallormsstaðarskógur er fallegasti staður sem hann segist hafa dvalið á hérlendis.
Fyrr á árinu stofnaði Óskar Leiguhýsi.is, fyrirtæki sem leigir út hjólhýsi til ferðaþyrstra Íslendinga og útlendinga. Hann segist hafa séð gat á markaðnum og tækifæri til að leigja út minni hjólhýsi fyrir þá sem hyggja á tjaldferðalag. Í 22 ár starfaði hann sem slökkviliðsmaður og bráðatæknir hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hann hefur á þessum tíma séð ófá slysin og segir fólk oft ekki meðvitað um þá hámarksþyngd sem megi hafa í eftirdragi á þjóðveginum.
„Ég fékk bílpróf í lok maí 1997, en 15. ágúst sama ár breyttust lögin og þá þurfti fólk að fá sérstök BE-réttindi til að hafa eftirvagn yfir ákveðinni þyngd. Þeir sem eru ekki með BE-réttindi mega ekki hafa neitt í eftirdragi sem er meira en 750 kg, eða 3.500 þegar heildarþyngd bílsins og eftirvagns er tekin saman,“ segir Óskar.
„Bíllinn minn og mitt hýsi er rúmlega það.“
Óskar langaði að leigja út eigið hjólhýsi, en sá að það gæti orðið ákveðið vandamál varðandi þyngdartakmarkanir á hjólhýsum og að smærri hýsi þyrftu að vera fáanleg. Brúttóþyngd bílsins getur verið 1.900 kg en þegar fjórar manneskjur eru komnar í bílinn, með farangri, getur bíllinn orðið allt að 2.500 kg, líkt og Óskar tekur dæmi um. „Þá getur 750 kg hjólhýsi auðveldlega orðið 1.200 kg þegar það hefur verið hlaðið með t.d. borðbúnaði, stólum, fortjaldi, gashylkjum o.fl. Þá ertu kominn umfram viðmiðin.“
Hann segir að sektir við því að fólk sem ekki hefur fengið tilskilin leyfi keyri bíl sem er yfir 3.500 kg séu 60.000 kr. „Það er ekkert gaman að fá svoleiðis reikning í sumarfríinu fyrir utan hættuna sem því fylgir.“
Óskar segir lögregluna fylgjast með og taka stikkprufur víðs vegar um landið.
„Ég varð sjálfur vitni að þessu einu sinni í útilegu. Frænka mín og eiginmaður hennar voru stoppuð af Blönduóslöggunni, sem spurði um hýsið og bílinn og vildi fá að sjá alla pappíra, skráningar o.fl. Hann var að vísu á þeim aldri að hann hafði sjálfkrafa fengið leyfi með ökuréttindunum sínum.“
Fæstir sem eru með fjölskyldu í dag mega draga hjólhýsi, að sögn Óskars, ekki nema þeir séu á sérlega léttum bíl.
„En þá ertu bara í vandræðum með að draga hýsið. Það þarf kröftugan bíl til að draga stór hjólhýsi og fólk virðist ekki nógu meðvitað um þetta. Í dag fá allir B-ökuréttindi en það þarf að taka BE-prófið, kerruprófið, sérstaklega og það er smá ferli með fjórum ökutímum og prófi.“
Sjálfur segist hann hafa séð ótal mörg ljót slys og sú reynsla hafi markað hvað hann leggi áherslu á.
„Ég eiginlega rambaði á þetta. Ég var 22 ára og vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera í lífinu. Á þeim tíma var ég að vinna hjá Securitas sem var með aðsetur í Skógarhlíð. Þegar auglýst var starf hjá slökkviliðinu lagði ég inn umsókn og fékk starfið. Ég bara fann mig í þessu, þetta var bara minn geiri.“
Á höfuðborgarsvæðinu er slökkvilið og sjúkraflutningar rekið saman og fastráðnir eru því bæði slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn. „Ég fékk fornám og grunnnám hjá þeim 2003 og tæplega þremur árum seinna var ég orðinn fullmenntaður sem atvinnuslökkviliðs- og neyðarflutningamaður.“
Óskar segir að tveimur árum síðar hafi hann haldið til Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, þar sem hann lærði bráðatækni. Þaðan útskrifaðist hann með með diplómu á háskólastigi. „Bráðatæknir er sá sem tekur yfir á slysstað, verður leiðtogi á vettvangi í sjúkraflutningum og sá sem ber ábyrgð á faglegri vinnu gagnvart sjúklingum.“
Tíu árum síðar, árið 2018, kláraði Óskar B.Sc.-gráðu í bráðafræðum á Írlandi. „Ég er með þessa lífssýn að á tíu ára fresti endurhugsa ég allt, hvort ég geti lært eitthvað nýtt eða hvort ég eigi að gera eitthvað annað.“ B.Sc.-gráðan fól í sér tvö ár ofan á diplóma í bráðatækni. „Það eru fáir hérlendis með þessa gráðu en þetta er hæsta menntun í utanspítalaþjónustu hérlendis.“
Eftir að hann hafði starfað í nokkur ár í viðbót með B.Sc.-gráðu í bráðafræðum segist hann hafa fundið þörf fyrir verulegar breytingar. „Ég hafði fengið mína fylli af störfum mínum fyrir slökkviliðið og séð og gert allt mörgum sinnum.“
Þegar Óskar stofnaði Leiguhýsi.is í byrjun þessa árs sagðist hann hafa velt fyrir sér hjólhýsamenningunni hérlendis, hýsin séu almennt mjög stór og að hans sögn óþarfa lúxus. Hann leitaði eftir möguleika fyrir þá sem hafa ekki kerrupróf en vilja fara í frí með hjóhýsið í eftirdragi.
„Heilinn minn virkar svona, ég er lausnamiðaður. Ég sé ekki vandamál, bara lausnir.“
Hann leitaði að smærri hýsum, undir 750 kg, með svefnplássi fyrir tvo til fjóra, en samt nógu rúmgóðum svo hægt væri að hafa það huggulegt.
„Þegar ég fann þessi hýsi sá ég að ég gat verið að bjóða upp á vöru sem er 30-40% ódýrari en vörur samkeppnisaðila hér.“
Hann hefur þegar leigt út til bæði innlendra og erlendra ferðamanna og segir þennan kost ákjósanlegan fyrir þá sem sjá ekki fyrir sér að fara nema í eina til tvær útilegur að sumri.
„Mig langaði til að Íslendingar gætu ferðast en það eru svo margir sem vilja ekkert eiga svona græju. Það er alls konar vesen sem fylgir. Þú þarft að hafa aðstöðu til að geyma hýsið yfir sumarið. Svo þarf líka að finna geymslupláss yfir veturinn. Kostnaðurinn við að geyma hýsið og tryggja það getur verið í kringum 300.000 krónur. Fyrir utan annað viðhald og skoðun.“
„Ég hef séð allt of marga sem lenda í slysum og við höfum verið fljótir að sjá hvort fólk hafi verið í vandræðum, ótryggt eða í órétti.“
Hann bætir við að sér hafi fundist flestir sem eru með eitthvað í eftirdragi fara varlega. „Þú ferð ekkert mikið hraðar en á 80 eða 90 og svo taka hjólhýsin á sig mikinn vind, sem er einmitt kostur þess að aka um með minni hýsi.“
Það er nóg að gera hjá Óskari sem segir bókanir hafa hrannast inn en hann langi þó sjálfan til að reyna að ferðast um landið í sumar.
Spurður um stað sem hann langar að ferðast á en hefur ekki komið til, svarar Óskar: „Ég á eftir að fara á Þórshöfn þarna á norðaustanverðum odda landsins. Ég hef aldrei komið þangað svo það er verkefni sumarsins.“
Hann nefnir tvo aðra staði sem hann hefur komið til en langar að ferðast á aftur: „Stuðlagil, það er svo gaman að koma þangað og mjög sérstakt hvernig það myndaðist. Djúpivogur er afskaplega fallegur, fallegt bæjarstæði og skemmtilegur. Austfirðirnir eru náttúrulega afskaplega fallegir og leiðin frá Egilsstöðum til Akureyrar. Svo er mikið af földum gersemum hérlendis sem ferðamenn vita ekki endilega af.“