Loftleiðir, leiguflugsarmur Icelandair, býður ferðalöngum að ferðast aftur í tímann með PanAm-flugi.
PanAm eða Pan American World Airways var stærsta flugfélag Bandaríkjanna og það fyrsta sem flaug um allan heim. Flugfélagið var starfrækt í rúm 60 ár og er þekkt fyrir lúxus og glæsileika um borð í vélunum. PanAm þykir einkum einkennandi fyrir menningu 20. aldarinnar.
Nú sinna Loftleiðir PanAm flugi fyrir erlenda ferðaskrifstofu. Áhöfnin er klædd PanAm einkennisbúningum frá mismunandi tímabilum og vélin er merkt flugfélaginu. Að stíga um borð í vélina er því eins og að stíga aftur í tímann.
Ferðalagið hófst þann 17. júní, þegar flogið var frá New York-borg, og endar á Íslandi þar sem áhöfnin lendir 28. júní. Vélin stoppar í Bermúda, Lissabon, Marseille, London og Shannon.
Næsta ferð með PanAm verður farin í apríl næsta árs en þá verða stopp í Bandaríkjunum, Asíu og Eyjaálfu. Beyond capricorn skipuleggur ferðirnar sem „færa gullnu öld flugferðalaga inn í nútíðina.“