Fimm æðislegar borgir í sumarfríinu

Samsett mynd/Kristine Kozaka/ Daniels Joffe/Hans Ott

Vantar þig hugmyndir um hvert skal skreppa í sumarfríinu? Fimm spennandi sumarborgir eru listaðar á vef The Guardian. 

Ríga, Lettland

Lettneska höfuðborgin Ríga státar af módernískum arkitektúr og hellulögðum stéttum í gamla bænum, Vecriga, sem gerir hana eina af fegurstu borgum Austur-Evrópu. Löng sumarkvöld þar sem hitastig fer ekki yfir þrjátíu gráður, þakbarir með lifandi tónlist og útitónleikar í gróskumiklum görðum á meðan fallegar strendurnar í bænum Jurmala eru aðeins í hálftíma fjarlægð.

Kseniia Samoylenko/Unsplash

Antwerpen, Belgíu

Antwerpen er allt í senn furðuleg og listræn borg, stútfull af kokteilbörum, kaffihúsum og sjálfstæðum listagalleríum sem iða af lífi yfir sumartímann. Á sumrin fyllist Sint-Anneke-ströndin, við vinstri bakka árinnar Scheldt, af heimamönnum sem njóta þess að dýfa tánum í tært vatnið og borða skelfisk á einhverjum veitingastaðanna við árbakkann. Garðar verða vettvangur götuleikhúss, sirkusatriða og kvikmyndahúss undir berum himni, einkum á meðan Zomer van Antwerpen-listahátíðin stendur yfir 19. júní til 31. ágúst.

Ernest Ojeh/Unsplash

Bolzano, Ítalíu

Höfuðborg Suður-Týról-héraðsins á Ítalíu, Bolzano, státar af germanskri byggingalist og sögu ítalsks matar og menningar. Borgin er staðsett á meðal Dólómíta-fjallanna, umkringd vínekrum og grónum fjallshlíðum en hýsir einnig bestu tónlistarsenur Evrópu að sumri, jazz-hátíðina Sudtyrol og klassísku tónlistarhátíðina Bolzano Festival Bozen 5. ágúst til 7. september. 

Afar vinsælt er að njóta náttúrufegurðarinnar og útivistar í kringum Bolzano og er Guncina-stígurinn, sem er 4,5 kílómetra ganga úr borginni í hæðir fjallanna, sérlega skemmtileg leið.

Fabrizio Coco/Unsplash

Gautaborg, Svíþjóð

Á vesturströnd Svíþjóðar stendur Gautaborg. Strendurnar Nasetbadet og Askimsbadet eru í stuttri fjarlægð frá borginni. Einnig er hægt að skoða eyjaklasann við borgina á kayak eða í bátsferð og gæða sér á sjávarréttarhádegisverði á Hönö-eyju eða njóta strandarinnar á Rivö-eyju. Gautaborg er þekkt fyrir sjávarrétti og ostrur og þær fjörutíu tegundir af bjór sem framleiddar eru á svæðinu.

Annað sem er vel þekkt eru sánur en hægt er að fara í almenningssánu í Jubilee-garðinum eða í Dyrön electric-sánuna sem er einni stuttri bátsferð í burtu.

Jeet Datta/Unsplash

Genf, Sviss

Genf er miklu meira en borg sem stendur við Alpana. Á sumrin er hægt að fá sér sundsprett við manngerða strönd Eaux-Vives við Genfarvatn, Quai de Cologny eða Geneve-Plage þar sem hægt er að prófa ýmsar vatnaíþróttir.

Það úir og grúir af vínveitingastöðum í gamla bænum í Genf, allt frá nýtísku Soul Wines yfir í meira hefðbundið, Vino Olio Caffe. Flestar götur liggja til Saint-Pierre-kirkjunnar þar sem hægt er að fara upp í turninn og njóta útsýnisins yfir borgina og Genfarvatn. Á miðvikudögum og laugardögum er Plainpalais-flóamarkaðurinn opinn og bændamarkaði má nálgast víða um borgina alla daga vikunnar.

visualsoflukas/Unsplash

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert