Arnór Hreiðarsson starfar í eigin rekstri og á rætur að rekja sitt hvorum megin við Breiðafjörð á Vestfjörðum. Föðurfólk hans er frá Arnarstapa þar sem goðsögnin um Bárð Snæfellsás á sér stað og ólst faðir hans upp í Stykkishólmi. Móðurættin er frá Fellsströndinni hinum megin fjarðarins. Árið 2018 flutti Arnór ásamt konu sinni til Stykkishólms þar sem hann tók við rekstri ömmu sinnar á Hótel Egilsen.
„Þótt ég hafi ekki sjálfur alist upp á nesinu hefur tengingin alltaf verið sterk, fyrst og fremst í gegnum fjölskylduna,“ segir Arnór.
„Ég eyddi síðan mörgum sumrum sem ungur drengur hjá frændfólki mínu í Stykkishólmi. Sú tenging dýpkaði enn frekar árið 2018 þegar ég flutti vestur með konunni minni og tók við rekstri Hótels Egilsens sem amma mín hafði áður rekið. Það að stíga inn í þann rekstur var ekki einungis fagleg ákvörðun heldur líka persónuleg, arfur sem ég vildi rækta og móta á minn hátt.“
Hvað er það sem heillar þig við Snæfellsnesið?
„Það sem heillar mig við Snæfellsnesið er samspil náttúrufegurðar, kyrrðar og sögu sem mótar upplifunina. Sérstaklega finnst mér Stykkishólmi hafa tekist að þróast með reisn. Fasteignum er vel við haldið, endurbætur gerðar af virðingu fyrir því sem áður var og það ríkir einlægur metnaður fyrir því að varðveita karakter bæjarins. Þetta skiptir máli og það gerir Stykkishólm að lifandi stað, ekki eftirlíkingu.“
Arnór bjó í Stykkishólmi í tvö ár, frá árinu 2018 til ársins 2020.
„Ég horfi til þessa tíma með hlýju. Að reka lítið hótel í fámennu samfélagi er bæði krefjandi og gefandi. Maður kynnist fólki á annan hátt en í borginni og það myndast traust og tengingar sem lifa lengi eftir að maður fer,“ segir Arnór.
„Lífið í Stykkishólmi er hægara en dýpra. Maður hefur tíma til að staldra við og veita því sem skiptir máli athygli. Bærinn er líka frábær fyrir fjölskyldufólk, börnin leika sér frjáls, skólasamfélagið er gott og tengslin á milli fólks eru sterk.“
Hugurinn dregur hann alltaf vestur þótt hann búi á höfuðborgarsvæðinu í dag.
„Ég reyni að verja sem mestum tíma á Snæfellsnesi yfir sumartímann. Í ár ætla ég til dæmis að eyða verslunarmannahelginni þar. Tvær nætur í Stykkishólmi og svo tvær nætur í Flatey á Hótel Flatey. Þar verður þétt og flott tónlistardagskrá allar helgar í sumar. Flatey er ótrúleg, kyrrðin, fuglalífið og menningin mynda andrúmsloft sem erfitt er að endurskapa annars staðar,“ segir Arnór.
Hvernig væri hinn fullkomni dagur á Snæfellsnesi?
„Ef ég mætti hanna minn fullkomna dag á nesinu þá myndi hann byrja rólega með kaffibolla við höfnina í Stykkishólmi, á Sjávarborg hjá Skarphéðni og Sigríði, og morgungöngu á bryggjuna og Súgandisey. Síðan væri sigling með Kristjáni Lár kapteini út á Breiðafjarðareyjar en þar er stórbrotið landslag, fuglalíf og einstök orka. Á leið minni um nesið myndi ég stöðva á kaffihúsi í Grundarfirði því mér skilst að kaffibrennslan Valería sé algjörlega til fyrirmyndar. Þar ristar eigandinn kaffibaunir sem hann fær beint frá bændum í Kólumbíu,“ segir hann og heldur svo áfram.
„Eftir hádegi myndi ég leggja upp í gönguferð, í Búðahrauni og við Arnarstapa. Kvöldið myndi ég enda á veitingastaðnum Sjávarpakkhúsinu í Stykkishólmi. Það er staður sem virkilega stendur upp úr, bæði fyrir matargerðina og upplifunina. Þar tekst Söru Hjörleifs að fanga ferskleika sjávarins á einfaldan en úthugsaðan hátt. Að sitja þar með góðan mat og vínglas með útsýni yfir höfnina er eitthvað sem ég held að enginn gestur gleymi.“
Hvaða fleiri staði myndirðu mæla með að heimsækja?
„Það eru náttúruperlur og menningarleg kennileiti. Eyjarnar í Breiðafirði, Arnarstapi og styttan af Bárði Snæfellsás, Snæfellsjökull sjálfur með sínum dulúðuga krafti, Búðir og Búðahraun, Vatnshellir, Djúpalónssandur, Lóndrangar, Saxhóll og Berserkjahraun. Fyrir þá sem vilja komast út fyrir alfaraleið mæli ég með Helgrindum eða rólegum degi í Flatey.“
Margir hafa talað um að Snæfellsnesið hafi einhvers konar aðdráttarafl, hvað finnst þér um þá kenningu?
„Ég trúi því. Þetta er staður sem snertir fólk og fær það til að hugsa, finna og vera. Það er ekki bara fegurðin heldur eitthvað djúpt, næstum ósýnilegt, sem fær mann til að tengjast sjálfum sér. Þess vegna kemur fólk aftur og aftur og þess vegna finnst mér ég alltaf heima þar, sama hvar ég bý.“