Sigurdís Egilsdóttir flutti til Vestmannaeyja fyrir fjórum árum og lifir þar draumalífi ásamt maka og tveimur börnum þeirra. Hún ólst upp á Vestfjörðum og hefur búið á nokkrum stöðum vítt um landið í gegnum tíðina og er ekki hrædd við að breyta til. Siddý, eins og hún er yfirleitt kölluð, starfar sem hjúkrunarfræðingur bæði á heilsugæslunni og á sjúkradeildinni á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Á dögunum keypti hún fellihýsi og ætlar fjölskyldan að ferðast innanlands í sumar.
Sambýlismaður minn og lífsförunautur heitir Gulli og saman eigum við tvö börn, Jökul Loga, þriggja ára, og Viktoríu Dís sem er ellefu mánaða. Við búum hér saman í Eyjum á heimaslóðum Gulla, en ég er í fæðingarorlofi um þessar mundir,“ segir Siddý sem er mikil útivistarkona. Hún hefur ferðast mikið innanlands en líka farið töluvert til útlanda.
„Mér finnst mér fátt skemmtilegra en að kynnast náttúrunni og ólíkum menningarheimum. Ég hef mikinn áhuga á hreyfingu, tónlist, spilum og flestum íþróttum. Nýjasta áhugamál mitt er rafhjól, en þessa dagana snýst lífið að mesta leyti um samverustundir og gleðilegan hversdagsleikann með tveimur litlum börnum sem heldur mér svo sannarlega við efnið,“ segir hún.
Siddý er alin upp á Reykhólum á Vestfjörðum og eftir grunnskóla lá leiðin í framhaldsskóla á Akranesi.
„Þaðan hélt ég áfram í íþróttalýðháskóla í Árósum í Danmörku. Háskólaárunum eyddi ég síðan í Reykjavík. Ég fór einnig að vinna eitt sumar í Neskaupstað og annað í Stykkishólmi. Upphaflega ætlaði ég aðeins að vinna eitt sumar í Vestmannaeyjum, en hér er ég enn,“ segir hún.
Hvernig finnst þér að búa í Vestmannaeyjum?
„Það er dásamlegt að búa í Vestmannaeyjum. Hér er mjög fjölskyldu- og barnvænt samfélag og það er allt til alls, íþróttir, tónlist, frábærir leikskólar og skólar, leiklist, kirkjustarf, kórar og flott heilbrigðiskerfi, með sjúkrahúsi á staðnum. Hér er lífið hægara og rólegra en í borginni, sem hentar sveitalubbanum í mér einstaklega vel. Ég nýt þess að slaka á og næ best andanum þar sem allt er aðeins minna stress og meiri ró. Hér er samt ótrúlega mikið líf árið um kring, með alls konar viðburðum fyrir bæði börn og fullorðna. Það er einmitt það sem ég elska líka.“
Hún nefnir að sér þyki vænt um hvað samfélagið tók henni vel þegar hún flutti til Eyja.
„Fólkið hérna er einstakt. Það besta við að búa í Eyjum er fólkið, náttúran og hvað allt er stutt, það tekur eina til þrjár mínútur að skreppa út í búð, og þetta afslappaða líf hentar mér einstaklega vel. Það versta er án efa Gubbólfur eða Herjólfur á slæmum dögum. Ég er enginn sjóari og stundum spyr ég mig alveg hreinskilnislega af hverju ég búi hér. En svarið er einfalt: hér er ég enn og líður afskaplega vel og er ekki á leiðinni neitt, að minnsta kosti ekki á næstunni,“ segir hún.
Hvað finnst ykkur fjölskyldunni skemmtilegast að gera í frítíma ykkar?
„Okkur finnst gaman að vera á rafhjólum, fara í sund, og út í bakarí og á sjávardýrasafnið. Svo finnst okkur gaman að dorga á bryggjunni og fara í ævintýraferðir. Íþróttaskólinn á laugardögum er líka stór partur af okkar helgarstemningu. Það þarf ekki mikið til að gleðja lítil hjörtu og allar samverustundir eru ómetanlegar,“ segir hún.
Eru einhverjar fjallgöngur eða náttúrugersemar í Vestmannaeyjum sem þú ert hrifin af?
„Já það má alls ekki gleyma að nefna þá stórbrotnu náttúru og fegurð sem þessi litla eyja hefur að geyma. Þrátt fyrir smæðina býr hún yfir ótrúlegum fjölbreytileika og ótal möguleikum. Mínar uppáhaldsfjallgöngur eru að ganga upp Dalfjallið upp að Blátindi, hæsta tindi Vestmannaeyja, kíkja að Stafsnesi, ganga eftir Eggjunum og yfir að Klifinu. Fuglalífið og útsýnið er eitthvað-annað flott. Gangan upp á Heimaklett er einstök, þar má ekki gleyma að kippa með sér brauði og gefa kindunum á leiðinni, þær munu elska þig. Svo er Eldfellið passlega stutt og þægileg ganga. Sagan í kringum eldgosið og bæinn er mögnuð, og ef þú ert heppin/n finnurðu enn hita í hrauninu, sem mér finnst alveg ótrúlegt.“
En einhverjar náttúruperlur á Suðurlandi yfirhöfuð sem þú heldur upp á?
„Múlagljúfur er algjörlega ómissandi, einn af mínum mestu uppáhaldsstöðum á Íslandi! Þessi faldi gimsteinn er engu líkur, með stórbrotnu landslagi.“
Ætlið þið fjölskyldan að vera í Eyjum á Goslokahátíðinni og yfir Þjóðhátíð?
„Við látum okkur aldrei vanta þegar heimahátíðirnar ganga í garð, nema þegar ég var að fæða barn í fyrra. Ég myndi samt segja að ég væri töluvert spenntari fyrir þessum hátíðum en heimamaðurinn sjálfur. Ef það er eitthvað sem Vestamannaeyingar kunna, þá er það að finna tilefni til að fagna og mér finnst það algjörlega frábært. Hér býr mikið stemningsfólk sem kann að njóta lífsins, og það sést svo vel á slíkum dögum. Bærinn lifnar við, gleðin smitar út frá sér og allir eru svo „jolly og ligeglad“ ef það má sletta. Ég elska þessa stemningu og dáist að því hvað er lögð mikil vinna og ást í þessar glæsilegu hátíðir.“
Eru einhver ferðalög á döfinni hjá ykkur í sumar?
„Við vorum að koma heim úr dásamlegri ferð til Porto í Portúgal. En við stefnum á að ferðast mikið innanlands, við vorum svo að kaupa okkar fyrsta fellihýsi og ætlum að elta sólina á Íslandi í sumar. Við stofnuðum ferðafélag í fyrra sem heitir Eltum sólina, og það er okkar mottó,“ segir Siddý.