Þessi spila á Hróarskeldu í ár

Stormzy, Charli XCX, Doechii og Olivia Rodrigo eru meðal þeirra …
Stormzy, Charli XCX, Doechii og Olivia Rodrigo eru meðal þeirra stórstjarna sem stíga á svið á Hróarskeldu í ár. Samsett mynd/AFP

Roskilde festival, eða Hróarskelda, er hápunktur sumarsins hjá mörgum. Á hverju ári stígur heitasta tónlistarfólk ársins á svið á sjö ólíkum sviðum hátíðarinnar. Árið í ár er engin undantekning en hér eru helstu tónlistamennirnir sem spila á hátíðinni.  

Charli XCX 

Hátíðin byrjar með pompi og prakt en Charli XCX spilar á miðvikudagskvöld á appelsínugula sviðinu, stærsta sviði Hróarskeldu. Charli XCX gaf í fyrra út plötuna BRAT sem þótti ein besta plata ársins, einkennandi fyrir tíðaranda og menninguna. Charli er þó enginn nýgræðingur heldur hefur hún verið að í rúman áratug.  

Charli XCX spilaði á hátíðinni í fyrra þegar BRAT var nýkomin út en þá spilaði hún á Arena, minna sviði í lokaðra rými sem gerði partýstemninguna persónulega. Gera má ráð fyrir að tónleikar hennar í ár verði að einhverju leyti ólíkir þeim í fyrra, á mun stærra sviði, áhorfendur undir berum himni og hún búin að gefa út remix-plötu af BRAT. Hjá henni má búast við partýi.  

Fontaines D.C. 

Írska punk-hljómsveitin Fontaines D.C. spilar einnig á appelsínugula sviðinu á miðvikudaginn. Fyrsta plata þeirra kom út árið 2019 og síðan þá hafa þeir gefið út þrjár plötur. Þeir hafa hlotið lof gagnrýnenda og eru sagðir hafa endurlífgað post-punkið. Mörgum blöskraði tónleikar þeirra á tónleikahátíðinni PrimaveraSound í Barselóna þar sem þeir sýndu palestínska fánann og sögðu Ísraela fremja þjóðarmorð. Áhorfendur á tónleikunum fögnuðu þó skilaboðunum.  

Írsku drengirnir í hljómsveitinni Fontaines D.C. eru sagðir hafa endurlífgað …
Írsku drengirnir í hljómsveitinni Fontaines D.C. eru sagðir hafa endurlífgað post-punkið. AFP/Isabel Infantes

Stormzy 

Grime-rapparinn Stormzy spilar á appelsínugula sviðinu á fimmtudaginn. Fyrsta plata hans, hin margverðlaunaða Gang Signs & Prayer, náði fyrsta sæti breska vinsældalistans, sem var áður óþekkt fyrir grime-plötu. Stormzy var árið 2019 aðal númerið á tónleikahátíðinni Glastonbury, fyrstur svartra breskra rappara.  

Stormzy spilaði á Hróarskeldu árin 2016 og 2018 og hefur sagt að það séu einar bestu tónleikaupplifanir sínar, svo það má búast við stórbrotnum tónleikum nú þegar hann snýr aftur á sinn uppáhaldsstað.  

FKA twigs 

Það er erfitt að finna orð sem fanga tónlist FKA twigs en hún flokkast sennilega undir einhvers konar rafdanstónlist. FKA twigs sem sjálf er dansari hefur gefið út þrjár plötur, sú nýjasta verandi platan Esexua sem er innblásin af rave-senunni í Prag og kom út síðasta haust. Allar plötur hennar hafa hlotið mikið lof og platan hennar Magdalena hefur verið kölluð meistaraverk. Erfitt er að segja til um hverju má búast við á tónleikum FKA twigs fimmtudagskvöld á Arena sviðinu en þá ætti enginn að láta fram hjá sér fara. 

FKA twigs flytur tónlist sína á Arena sviðinu á fimmtudaginn.
FKA twigs flytur tónlist sína á Arena sviðinu á fimmtudaginn. AFP/Angela Weiss

Olivia Rodrigo 

Oliviu Rodrigo þekkja flestir en hún hefur slegið í gegn með plötum sínum SOUR og GUTS. Með einlægri, angistarfullri og orkumikilli tónlist sinni hefur Olivia Rodrigo orðið rödd sinnar kynslóðar. Hún var fyrsta tónlistarkonan í næstum áratug sem komst í fyrsta sæti á bandaríska plötulistanum með fyrstu tvær plöturnar sínar. Hún spilar föstudagskvöld á appelsínugula sviðinu. Búast má við að tónleikar hennar verði hráir og fullir af orku.  

Doechii 

Doechii hefur ekki farið fram hjá neinum á árinu en hún hlaut Grammy-verðlaun fyrir bestu rappplötu ársins með plötu sinni Alligator Bites Never Heal. Textar sem flétta saman persónulegri reynslu og húmor einkenna tónlist Doechii og hún hefur hlotið mikið lof frá öðrum röppurum á borð við Kendrick Lamar. Doechii spilar á appelsínugula sviðinu á föstudag.  

Tyla 

Hin suðurafríska Tyla átti að spila á hátíðinni í fyrra en forfallaðist á síðustu stundu svo eftirvæntingin eftir tónleikum hennar er mikil. Tyla hefur sett sitt mark á tónlistaheiminn með house-innblásinni danstónlist sem hún fléttar við R&B. Á tónleikum Tyla, sem kölluð hefur verið skærasta stjarna Suður-Afríku, má búast við sannkölluðu sumardanspartýi en þeir verða á laugardaginn á appelsínugula sviðinu.  

Tónleikar Tyla verða sannkallað sumarpartý.
Tónleikar Tyla verða sannkallað sumarpartý. Getty Images/Maya Dehlin Spach

Nine Inch Nails

Industrial-rokkhljómsveitin NineInchNails stígur á Arena sviðið á laugardaginn. Þeir Trent Reznor og Atticus Ross skipa hljómsveitina en þeir hafa samið tónlist fyrir fjölmargar kvikmyndir, til dæmis the Social Network sem þeir unnu Óskarsverðlaun fyrir. Tónlist NineInchNails hefur drungalegan hljóm sem mun magnast upp í lokaða svæði Arena. Hljómsveitin hefur spilað á hátíðinni áður og tónleikum þeirra hefur verið lýst sem sálarhreinsandi, ofsafengnum upplifunum.  

Þetta eru aðeins nokkrir af þeim fjölmörgu tónlistarmönnum sem stíga á stokk á Hróarskelduhátíðinni. Eins og alltaf býður hátíðin upp á eitthvað fyrir alla og eflaust eru fjölmörg nöfn á dagskrá sem lesendur þekkja sem ekki er fjallað um hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert