Rukka 30 þúsund fyrir nóttina

Náttúruminjasafnið í New York
Náttúruminjasafnið í New York

Eftir fimm ára hlé verða hinar geysivinsælu gistinætur í ameríska náttúruminjasafninu í New York aftur á dagskrá í október. Fyrsti viðburðurinn, A night at the Museum: The Overnight Experience, fer fram 24. október. 

Gistinæturnar fóru fyrst af stað árið 2006 samhliða kvikmyndinni Night at the Museum og hafa síðan orðið fastur liður hjá fjölskyldum í borginni og fólki á ferðalagi. Þær eru ætlaðar börnum á aldrinum 6–12 ára og foreldrum þeirra. 

Á dagskrá eru vasaljósferðir um risaeðlusali, ratleikir og spurningakeppnir. Gestir gista undir 29 metra löngum bláhval og fá minjagrip, inneign fyrir framtíðarheimsóknir og einkaaðgang að safnbúðinni.

„Upplifunin er viss um að skapa minningar sem fjölskyldur munu varðveita að eilífu,“ segir Sean Decatur forseti safnsins, um viðburðinn. 

Miðaverðið er frá 225 dollurum á mann eða um tæpar 30 þúsund krónur. Viðburðurinn er ekki fyrir börn sem eru yngri en sex ára og þurfa öll börn að vera í fylgd með fullorðnum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert