„Átti þetta klassíska „eat-pray-love“-augnablik eftir sambandsslit“

Lára Borg Lárusdóttir í Asíu.
Lára Borg Lárusdóttir í Asíu. Ljósmynd/Aðsend

Lára Borg Lárusdóttir er 29 ára fyrrverandi flugfreyja hjá Play. Fyrir nokkrum vikum flutti hún til Kaupmannahafnar þar sem hún fékk vinnu á markaðsstofu. Lára er mikil stemningsmanneskja og elskar að kafa og fara á brimbretti.

„Ég elska líka að fara í leikhús, lyfta, borða og elda góðan mat, hoppa út úr flugvélum og almennt að prófa eitthvað nýtt,“ segir hún.

Lára hafði áður búið í Köben, fyrir rúmum tveimur árum, en flutti svo heim og hefur síðastliðin tvö ár ferðast gríðarlega mikið. Hún fékk ákveðna uppljómun þegar hún var stödd í fríi í Indónesíu, hún fann að hún vildi breyta til hjá sér og gera eitthvað fyrir sjálfa sig.

„Ég byrjaði á því að fara til Balí í febrúar 2023 þar sem ég var í heilan mánuð á meðan ég var enn að vinna fyrir danskt fyrirtæki. Þá kviknaði eitthvað inni í mér þar sem ég áttaði mig á því hvað það var auðvelt að ferðast ein og hvað ég var ekki glöð með það sem ég var að gera í Köben á þeim tíma.

Á meðan ég var þar sagði ég upp í vinnunni minni með ekkert plan, en ég bara vissi að mig langaði að breyta einhverju. Ég kom svo til baka, pakkaði saman og fór til Íslands þar sem ég fór að vinna hjá Play með það að markmiði að safna fyrir næsta ferðalag. Ég hafði séð myndband á TikTok af manni sem var að tala um einhverja gígantíska snákategund sem má finna í Amason-skóginum, og þá hugsaði ég með mér hvað það væri geggjað að fara þangað. Mögulega er mjög skrýtin tenging þarna, en það var allavega það sem lét mig líta til Suður-Ameríku.“

Lára sagði upp vinnunni, flutti frá Danmörku og hóf nýjan …
Lára sagði upp vinnunni, flutti frá Danmörku og hóf nýjan kafla. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir sumarið stökk ég í flugvél til Kólumbíu þar sem ég dvaldi fyrstu tvær vikurnar í ferðinni, í Bógóta og var í sjálfboðaliðastarfi á leikskóla. Ég kenndi börnunum ensku og fékk í staðinn mat og frítt húsnæði. Eftir viku í Suður-Ameríku fór ég í fallhlífarstökk en mér fannst ég þurfa að byrja þessa ferð með smá látum, mömmu minni til mikillar ánægju, en þetta er örugglega það besta sem ég hef gert á ævinni.

Ég ákvað svo að fara norðar í Kólumbíu og þar sem ég lagði ferðina upp með að vera ódýra, ferðaðist ég með rútu. Keyrslan átti að taka 18 klukkustundir en varð svo að sólarhringsför. Ég ferðaðist svo aðeins um norðurströndina þar sem ég fór meðal annars á brimbretti, vann sem sjálfboðaliði í frumskóginum, dansaði salsa og fleira skemmtilegt. Ég færði mig svo til Cartagena sem er með fallegri borgum sem ég hef komið til og af ströndum Cartagena fór ég til Santa Cruz del Islote sem er þéttbýlasta eyja í heimi.

Ég gisti á annarri eyju við hliðina, þar sem ég svaf úti í hengirúmi, með tæran sjóinn í kringum mig og stjörnubjartan himininn. Ég endaði svo Kólumbíuferðina í Medellín þar sem ég fór í spænskuskóla og í frítíma fór ég á fótboltaleiki og djammaði,“ segir hún.

Henni þótti ótrúlega gaman að hoppa úr flugvél.
Henni þótti ótrúlega gaman að hoppa úr flugvél. Ljósmynd/Aðsend

Lára hélt ferðinni áfram til næsta lands, til Ekvadors og fór þar til háfjallaborgarinnar Quito. Einnig heimsótti hún Cotopaxi-þjóðgarðinn þar sem hún fór í göngu upp á eldfjall og hjólaði svo niður fjallið en slík sport eru vinsæl í heimsálfunni.

„Svo var komið að aðaltilgangi ferðarinnar og ástæðunni fyrir því að ég valdi Suður-Ameríku; Amason-frumskóginn. Ég var í fjóra daga í frumskóginum með geggjuðum hóp. Við sigldum um og skoðuðum alls konar dýr, fullt af öpum, krókódílum og fleira. Ég synti í Amason-ánni þar sem mér var tjáð að þar væru um 40 tegundir af Piranha-fiskum. Ég fór í næturgöngu í frumskóginum þar sem ég sá tarantúlur og aðrar risakóngulær svo þetta var mjög gott „exposure-therapy“ fyrir mig.

Svo fór ég til Kosta Ríka en ákvað að taka strax rútu yfir til Nígaragva. Þar eyddi ég mestöllum tímanum á brimbretti og fór á eldfjallaeyjuna Omatepe sem er staðsett á stöðuvatni, inni í miðju landinu. Eftir þessa þrjá mánuði fór ég svo heim til Íslands fyrir jólin og endaði þar á spítala þar sem ég hafði fengið Dengue Fever, mjög skemmtileg leið til að enda ferðalagið.

Eftir um sex vikur á Íslandi ákvað ég svo að fara til Brasilíu þar sem ég var ekki alveg búin að taka þessi ferðalög úr kerfinu. Ég byrjaði í Florianopolis sem er yndislegur brimbrettabær, en svo fór ég til Rio til þess að fara á karnivalið. Það var mögnuð upplifun. Fólk var dansandi um allt, frá morgni til kvölds, svo mikil gleði, tónlist og bara mögnuð stemning. Ég mæli með því að allir upplifi Rio-karnivalið einu sinni á ævinni.

Ég fór svo til eyjunnar Ilhabela sem er algjör paradísareyja. Ég fór þangað til þess að ná aðeins að hvíla mig og kúpla mig niður. Ég endaði svo Brasilíuferðalagið mitt í Ubatuba áður en ég fór svo til Sao Paulo og fór svo til Íslands og varði sumrinu aftur þar.“

Hér er Lára í seinni hálfleik Ameríku ferðalagsins, á kjötkveðjuhátiðinni …
Hér er Lára í seinni hálfleik Ameríku ferðalagsins, á kjötkveðjuhátiðinni í Brasilíu. Ljósmynd/Aðsend

Taílensk köfunarparadís

„Planið var svo að flytja aftur til Kaupmannahafnar en einhverra hluta vegna ákvað ég að bóka miða aðra leið, til Taílands. Þar byrjaði ég í Bangkok sem mér fannst ótrúlega skemmtileg borg en ég var tilbúin að koma mér þaðan eftir tvo daga og 300 rottur. Ég fór svo til Koh Tao sem er líklega mín allra uppáhaldseyja en þar eyddi ég löngum tíma og lærði meðal annars að kafa. Að kafa er líka eitt af því magnaðasta sem ég hef gert og eitthvað sem ég varð sjúk í. Ég fékk „advanced“ köfunarréttindi og má kafa niður á 30 metra dýpi.

Ég fór einnig til Koh Phangan og Koh Samui sem eru miklar partýeyjur en þar er mikið fallegt að sjá líka. Ég fór svo norður til Chiang Mai þar sem ég lærði að elda alvöru taílenskan mat og fór í fílaathvarf fyrir fíla sem höfðu áður verið í sirkusum eða slíku. Ég fór einnig í göngur, flúðasiglingu, skoðaði fossa og drakk óhóflegt magn af Chang bjór. Ég eyddi jólunum í Taílandi þar sem áherslan var að kafa og djamma; þetta voru með betri jólum, þó að heimþráin hafi alveg stundum bankað upp á.

Besta vinkona mín og kærasti hennar komu svo til mín og við vörðum áramótunum saman. Við fórum til Phuket, Krabi og í Khao Sok-þjóðgarðinn sem er mögulega fallegasti staður sem ég hef séð á ævinni. Við gistum þar í litlum herbergjum á vatninu, fórum í göngur, sigldum um og leituðum að dýrum og nutum útsýnisins.“

Lára Borg brallaði margt skemmtilegt í Taílandi var þar yfir …
Lára Borg brallaði margt skemmtilegt í Taílandi var þar yfir jólahátíðina. Ljósmynd/Aðsend

„Annað landið af þremur í þessari ferð var Víetnam, en það munaði litlu að mér yrði ekki hleypt inn í landið. Ég hafði skrifað vitlausa dagsetningu á vísaskjalið, mér var því neitað þegar ég ætlaði að innrita mig á flugvellinum og við tók algjört stresskast þar sem ég reyndi að hringja í allar áttir. Ég ákvað svo að reyna aftur, valdi mér manneskju sem mér fannst virka mjög vinaleg. Sú manneskja tók ekki eftir mistökunum og ég rétt náði fluginu.

Ég byrjaði í Ho Chi Minh þar sem ég fór meðal annars og heimsótti safnið sem fjallar um Víetnamstríðið. Ég fór einnig í Cu Chi Tunnels þar sem hermenn bjuggu og földu sig neðanjarðar. Ég fór einnig til Dalat og þurfti að versla mér fullt af hlýjum fötum því ég var í Víetnam á köldum tíma og bakpokinn minn samanstóð af kjólum og bikiníum. Eftir því sem ég færði mig norðar í Víetnam varð kaldara.

Ég fór svo til Hoi An, Hanoi og endaði svo á því að fara í fjögurra daga mótorhjólaferð um norður Víetnam sem kallast Ha Giang Loop. Það var enn annar hápunktur ferðarinnar en ég var þarna með yndislegum hóp af fólki, þar sem við keyrðum um fallegustu náttúru sem ég hef á ævi minni séð og fórum meðal annars að landamærum Kína.“

Hér er hún í góðum gír að þeytast um fjöllin …
Hér er hún í góðum gír að þeytast um fjöllin í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend

„Að lokinni frábærri mánaðardvöl í Víetnam stökk ég til Filippseyja en mig hafði lengi langað að fara þangað. Ég hafði þó heyrt að það væri dýrt og mikið vesen að fara þangað því að landið samanstendur af svo mörgum eyjum. Ég ákvað samt að fara og ég get sagt að ég sé ekki eftir því.

Eftir 20 tíma ferðalag lenti ég á eyjunni Cebu. Þar fór ég að kafa með sardínum, sem er árstíðarbundið, og einnig var daglegur viðburður að stökkva beint út á morgnana og snorkla með skjaldbökum sem voru úti um allt.

Næst fór ég til Siquijor þar sem dagarnir einkenndust af því að keyra um á vespu og elta fossa, en það er um marga slíka að velja. Það voru nokkur atvik á Siquijor þar sem það voru ýmist kakkalakkar eða kóngulær í rúminu mínu og get ég þar af leiðandi sagt að það var ekki mikið sofið. En þess virði samt sem áður.“

Það er ekki hægt að sleppa því að dýfa sér …
Það er ekki hægt að sleppa því að dýfa sér í sjóinn við sólsetur á fallegum stöðum í Filippseyjum. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir það fór ég á Malapascua sem er pínulítil eyja af ströndum Cebu, ekki nema einn kílómeter á breidd og 2,5 á lengd. Ástæðan fyrir því að ég fór þangað var til þess að fara að kafa með Thresher-hákörlum en þeir eru meinlausir og að mínu mati frekar krúttlegir. Það var magnað að vera þarna og vera með þessi ótrúlegu dýr beint fyrir framan sig, ég skiptist á að hlæja og öskra úr gleði. Ég mæli með því að allir kafarar fari þangað en sjávarlífið er magnað.

Þar á eftir fór ég til eyjunnar Palawan til El Nido og svo í fjögurra daga bátsferð yfir til Coron, þar sem ég bjó á bát, með tíu manna hóp og gisti í litlum opnum kofum á ströndinni á næturnar. Við heimsóttum alls konar eyjur, syntum með sjávardýrum, drukkum romm og nutum þess að vera til. Þetta var hin fullkomna leið til að enda fimm mánaða ferðalag, sem ég kláraði svo í Manila.“

Ákvað að hætta að bíða eftir öðrum

Hafðirðu farið í stórt ferðalag áður?

„Ég hef alltaf elskað að ferðast en fyrir þetta hafði ég ferðast á annan hátt; bókað fín hótel, slappað af á ströndinni, kíkt í búðir og farið sátt heim. Það blundaði alltaf í mér að gera eitthvað aðeins meira út úr rammanum, gista á gistiheimilum, búa í bakpoka og upplifa eitthvað alveg nýtt.

Ég átti þetta klassíska „eat-pray-love“-augnablik eftir sambandsslit og ákvað að ég myndi núna hætta að vera endalaust að bíða eftir fólki og fara bara sjálf. Þá ferð bókaði ég með tveggja vikna fyrirvara með nákvæmlega ekkert plan. Þetta reyndist vera besta ákvörðun sem ég hef tekið enda áttaði ég mig á því hvað væri mikið meira þarna úti heldur en bara umhverfið sem ég þekkti og vinnan sem ég hataði,“ segir hún.

Var einhver ein upplifun sem stóð upp úr?

„Það var Amason-regnskógurinn. Ég hef aldrei áður upplifað tilfinninguna eins og að vera þar, að vera í frumskógi sem ég hafði bara heyrt um í heimildamyndum eða séð í tímaritum, og vera svo bara allt í einu þar. Að sigla framhjá krókódíl í sínu náttúrulega umhverfi, horfa í augun á honum og líta svo upp og þar er api að sveiflast yfir þér. Ég held það sé eiginlega ekkert sem lýsir tilfinningunni að vera þarna í fyrsta skipti. Þetta hljómar mjög dramatískt en svona var upplifunin mín!“

Köfun er nú eitt af aðal áhugamálum Láru og stefnir …
Köfun er nú eitt af aðal áhugamálum Láru og stefnir hún á að gera meira af því. Ljósmynd/Aðsend

Hún lenti nokkrum sinnum í krefjandi aðstæðum í reisunum og glataði meðal annars peningaveskinu sínu.

„Það var eitt fyndið og stressandi atvik í El Nido. Ég fór út í drykki með vinum mínum og til mín komu nokkur ung börn sem vildu selja mér armbönd. Ég, sem á erfitt með að segja nei, keypti af þeim armbönd en var ég þar með búin að opna ormagryfju. Þá komu fleiri börn og svo enn fleiri. Í stað þess að gefa þeim pening ákvað ég að labba með þessum krúttum í búð og kaupa fyrir þau mat. Þetta fréttist um allt hverfið á um 30 sekúndum og allt í einu var ég með um 30 manna hóp af börnum og fullorðnum á eftir mér sem fylgdu mér inn í búðina. Þau ýttu að mér alls kyns vörum og fylltu afgreiðsluborðið af nammi, snakki, kökum og mat og ég gat lítið annað gert en að drífa mig að kaupa áður en meira safnaðist á borðið og fór svo burt.

Seinna um kvöldið komu tveir litlir strákar að mér, sögðust ekki hafa fengið neitt af því sem var keypt í búðinni og spurðu hvort ég vildi kaupa franskar á staðnum sem var þarna við hliðina. Að sjálfsögðu mátti ekki skilja eftir út undan svo ég keypti franskar, setti peningaveskið mitt í töskuna mína og kvaddi strákana. Ég labbaði svo yfir á barinn til vina minna, ætlaði að kaupa mér drykk og viti menn. Veskið var horfið með öllum peningunum og hverju einasta korti sem ég var með.

Ég hafði nefnilega asnast til þess að fara í hraðbanka fyrr um kvöldið og í stað þess að skilja einhver kort og pening eftir á hostelinu tók ég allt með mér, svo allt hvarf. Ég var þarna ekki með neina leið til þess að borga fyrir neitt þar sem Filippseyjar taka einungis við seðlum. Ég hitti svo yndislegan mann sem var að gista á sama hosteli og ég, sem gaf mér Revolut-kortið sitt, svo ég náði að taka út pening restina af ferðinni. Þrátt fyrir að ég hafi vitað þetta fyrir fram þá var þetta mjög dýrmæt áminning um að vera ekki með öll kortin sín og allan peninginn sinn á sér.“

Lára mætti nokkrum áskorunum í reisunum en tók öllu með …
Lára mætti nokkrum áskorunum í reisunum en tók öllu með bros á vör. Ljósmynd/Aðsend

„Annað atriði átti sér stað í Brasilíu, þegar ég fór í göngu upp að fossi sem endaði á kletti fyrir ofan fossinn. Fyrir neðan fossinn var frekar kraftmikil laug. Ég ákvað að stilla símanum mínum upp við brúsann minn og labba að klettabrúninni til að taka nokkrar tímastilltar myndir. Ég held að ein mynd hafi náð að smellast áður en ég sá símann renna hægt og rólega ofan í laugina og sá hann þá snúast hring eftir hring.

Ég gat ekki bara farið ofan í vatnið því þá hefði straumurinn líklegast ýtt lengra niður ánna og þá væri ég ekki hér til að segja þessa sögu. Eftir um 20 mínútur í panikki og ákvarðanatöku um hvort ég ætti að sætta mig við að síminn væri farinn eða hvort ég ætti að fórna lífinu mínu fyrir hann fundum við lausn en þrír úr hópnum héldu í trjádrumb og klettabrúnina. Ég hélt í trjádrumbinn og dýfði mér ofan í til þess að ná símanum. Og viti menn! Það tókst, ég lifði og uppskar fagnaðarlæti frá gestum og gangandi. Síminn þurfti að fara í viðgerð en hann náði að lifa af þennan hálftíma í vatninu, ótrúlegt en satt.“

Lára Borg lagði ein af stað í öll þessi ferðalög en endaði sjaldan á því að vera ein og hún kynntist flestum þegar hún gisti á gistiheimilum.

„Á hverjum einasta stað sem ég fór á kynntist ég svo geggjuðu fólki sem eru enn góðir vinir mínir í dag. Það kom mér á óvart hversu margir eru að ferðast einir og það gerir mann mun opnari fyrir því að kynnast öðru fólki heldur en þegar maður er með öðrum.“

Hverjar voru áherslurnar þínar í þessum ferðalögum?

„Þær voru að prófa allt, sjá allt, smakka allt og tala við alla. Með því að vera bara einhvern veginn til í allt upplifði ég hluti sem ég hefði ekkert endilega getað séð fyrir eða planað. Ég hitti fólk sem urðu nánir vinir mínir, sem ég hefði ekkert endilega hitt annars. Ég var ekki að eltast við neinn lúxus og var því ekki að eyða miklu í gistingu eða mat og er mjög ánægð með það, það endaði alltaf vel. Á ódýru hostelunum kynntist ég skemmtilegu fólki og bjó til minningar, og á lókal-veitingastöðunum, sem voru oft bara úti á miðri götu, borðaði ég besta matinn. Ég vildi svo frekar eyða pening í upplifanir, eins og köfun eða annað slíkt.“

Hún vildi kynnast fólki, sjá ný lönd og upplifa hefðir …
Hún vildi kynnast fólki, sjá ný lönd og upplifa hefðir landsins og stóð heldur betur við það. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað land sem þú heldur mest upp á eftir þessi ferðalög?

„Ég á mjög erfitt með að velja mér eitt land þar sem þau eru öll svo ólík og öll með sinn sjarma. Ég held ég verði mögulega að velja Filippseyjar vegna ósnertrar náttúrufegurðar. Mér fannst það alls ekki eins túristavætt og mörg önnur lönd eru orðin. Svo virtist vera nýr foss eða nýtt lón á hverju horni, inn á milli hárra pálmatrjánna. Sjórinn þar var líka sá tærasti sem ég hef nokkurn tímann séð og sjávarlífið ótrúlegt,“ segir Lára.

Hvað ertu að gera þessa dagana?

„Ég er nýflutt aftur til Köben og er byrjuð að vinna á markaðsskrifstofu. Ég var orðin tilbúin að koma mér fyrir og vera á einum stað í smá tíma og búa ekki í bakpoka lengur. En hins vegar er ævintýraþráin alltaf til staðar og er ég með augun mín á austurhluta eða Suður-Afríku þar sem mig langar að fara í safarí, að kafa og á brimbretti. Svo veit ég að ég mun skella mér í einhverjar styttri ferðir inn á milli þar sem ég á erfitt með að vera lengi á sama staðnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka