Í stórum sal í O₂-tónleikahöllinni í Lundúnum er dansað og sungið á nær hverju kvöldi við ódauðleg lög sænsku poppsveitarinnar ABBA. Þar fer fram stórkostleg sýning sem ber nafnið Mamma Mia! The Party, leikhúsupplifun sem hefur heillað áhorfendur frá öllum heimshornum síðan hún hóf göngu sína árið 2019.
Sýningin er engri lík. Þar sameinast tónlist, leiklist, kvöldverður og dans á einstakan hátt. Gestir ganga inn í ævintýralegan sal sem hefur verið umbreytt í grísku eyjuna Skopelos.
Sagan gerist allt í kringum gestina: fyrir framan, aftan, neðan og jafnvel ofan, en áhorfendur sitja við borð með síbreytilegu útsýni og verða hluti af sögunni sjálfri.
Hugmyndin að Mamma Mia! The Party kviknaði hjá Birni Ulvaeus, einum af stofnfélögum ABBA. Hann vildi skapa upplifun þar sem fólk yrði ekki aðeins vitni að tónlistinni heldur lifði hana sjálft í gegnum mat, drykk og dans.
Fyrsta sýningin var sett upp í Stokkhólmi árið 2016 en árið 2019 flutti hún til Lundúna þar sem hún hefur notið mikillar hylli síðan.
Innifalið í miðaverðinu er fordrykkur, fjögurra rétta grískur kvöldverður og boð á líflegt ABBA-diskó eftir sýninguna.
Fyrir ferðamenn sem heimsækja Lundúnir er Mamma Mia! The Party ekki aðeins kvöldskemmtun heldur upplifun sem fangar þann anda sem borgin er þekkt fyrir: fjölbreytileika, gleði og menningu í hæsta gæðaflokki.
