Falið strandþorp í Marokkó orðin lúxusparadís

Taghazout-þorpið er litríkt og heillandi.
Taghazout-þorpið er litríkt og heillandi. Samsett mynd

Taghazout er lítið sjávarþorp við Atlantshafið í um það bil tuttugu mínútna akstursfjarlægð norðan við Agadir. Það er þekkt fyrir frábæra brimbrettamenningu með stöðum eins og Anchor Point og Panorama sem laða að bæði byrjendur og reynda brimbrettakappa.

Þorpið var áður rólegt fiskimannaþorp en hefur þróast í afslappaðan ferðamannastað með kaffihúsum, gistihúsum og jógastúdíóum.

Eftir að hafa varið nokkrum dögum í Agadir var ferðinni heitið til Taghazout. Taghazout Bay er nýtt ferðamannasvæði rétt sunnan við þorpið. Þar finnurðu lúxushótel, golfvöll og strandklúbba. Þekktar alþjóðlegar hótelkeðjur hafa komið sér fyrir á svæðinu eins og Hilton, Hyatt, Radisson og Fairmont. Ég gisti á Fairmont-hótelinu sem er eitt það glæsilegasta sem ég hef komið á.

Horft yfir fjölskyldusundlaugina á Fairmont-hótelinu við Taghazout Bay.
Horft yfir fjölskyldusundlaugina á Fairmont-hótelinu við Taghazout Bay. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir

Fullkomin afslöppun við Taghazout Bay

Hótelið er staðsett við sjóinn. Herbergin eru í nokkrum húsum á lóðinni en þar er einnig hægt að finna litlar villur sem eru annaðhvort í einkaeigu eða til útleigu.

Með því að hafa herbergin í nokkrum byggingum upplifa gestir mikla ró og ekkert áreiti. Það er ekki ein risastór hótelbygging heldur dreifast gestirnir um stórt svæði. Sérstök sundlaug er fyrir fullorðna en einnig er fjölskyldulaug og sólbaðsaðstaða. Það er meira að segja lítill leikvöllur og krakkaklúbbur. Á svæðinu eru padelvellir, ótrúlega falleg heilsulind og golfvöllur. Markmið hótelsins er einfaldlega það að gestir eigi ekki að þurfa að sækja neitt út fyrir hótelgarðinn því slökunin er í forgangi.

Á hótelinu eru nokkrir veitingastaðir, hinn japanski Morimoto, Tapa Wine Bar sem er spænskur, Paper Moon sem er ítalskur og miðjarðarhafsstaðurinn Beef & Reef. Ég fór á alla þessa staði nema japanska staðinn, ég á það eftir, og maturinn var góður á þeim öllum. Á Fairmont átti ég við sama „vandamál“ að stríða og í Agadir; ég varð aldrei svöng.

Á hótelinu er einkaströnd fyrir þá sem vilja sóla sig nær sjónum. Fyrir þá sem eru þarna í rómantískum tilgangi mæli ég með að heimsækja ströndina seinnipartinn, ná sólsetrinu og fylgjast með hestum og kameldýrum ganga meðfram strandlengjunni. Fullkomin fegurð og ró. 

Horft yfir sundlaugarsvæðið sem er aðeins fyrir fullorðna.
Horft yfir sundlaugarsvæðið sem er aðeins fyrir fullorðna. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Ef þig dreymir um að synda á barinn þá er …
Ef þig dreymir um að synda á barinn þá er þetta hótelið fyrir þig. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Heilsulindin á hótelinu var hin glæsilegasta.
Heilsulindin á hótelinu var hin glæsilegasta. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Hótelsvæðið á Fairmont.
Hótelsvæðið á Fairmont. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Frábær pítsa á miðjarðarhafsveitingastaðnum Beef & Reef.
Frábær pítsa á miðjarðarhafsveitingastaðnum Beef & Reef. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Sjávarréttirnir voru frábærir.
Sjávarréttirnir voru frábærir. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Ég náði ekki alveg að fanga fegurðina á mynd.
Ég náði ekki alveg að fanga fegurðina á mynd. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir

Paradísardalurinn

Paradísardalurinn er gróðurmikill dalur í Atlasfjöllunum í um klukkutíma akstursfjarlægð frá Taghazout. Við fórum af stað einn morguninn í lítilli rútu og var bílferðin á köflum ekki fyrir viðkvæma, eða lofthrædda, og á meðan akstrinum stóð varð einfaldlega bara að einbeita sér að því að horfa ekki niður. 

Við lögðum bílnum í pínulitlu sveitaþorpi og héldum í smá göngutúr. Í Paradísardalnum renna tærir lækir, litir fossar og náttúrulegar laugar umkringdar pálmatrjám og klettum. Fyrir nokkrum árum var þetta leynistaður heimamanna en nú er orðið vinsælt meðal ferðamanna að heimsækja staðinn.

Gönguferðin er ekki erfið en jafnframt ótrúlega falleg. Ég var, sem yfirleitt, ekki beint klædd fyrir aðstæður og í síðu hvítu bómullarpilsi sem var orðið heldur skítugt undir lokin. 

Í miðjum dalnum eru tvær mismunandi náttúrulaugar sem heimamenn nota til að kæla sig niður. Við laugarnar eru ofurkrúttleg lítil kaffihús sem selja te, vatn og Coca Cola. Á einum stað var hægt að fá smákjúkling í tagínu og salat. Ég áttaði mig þó ekki á því hvar „eldhúsið“ var staðsett, svona uppi á fjalli, og var hreinlætið sennilega ekki upp á marga fiska.

Í lok göngunnar var búið að stilla upp litskrúðugum marrokóskum mottum undir hundrað ára gömlu argan-tré. Þarna áttum við að borða hádegismat. Við settumst niður og fengum heimabakað brauð með hunangi, möndlusmjöri og ólífuolíu. Aðalrétturinn var borinn fram í tagínu en það var mauksoðinn Ras-El-Hanout-kjúklingur með grænmeti og var ótrúlega góður.

Maturinn var eldaður af lítilli fjölskyldu sem býr í fjöllunum. Eftir máltíðina vildu nokkrir í hópnum, ég þar á meðal, versla hunang af fjölskyldunni og fengum við því að sjá hvernig fólkið býr.

Í eina herbergi hússins voru fjögur lítil rúm, nokkrir kollar, ein gashella og stærðarinnar flatskjár. Á einu rúminu sat eldri kona að búa til brauð. Heimsóknin á þetta heimili kippti manni niður á jörðina en þarna bjó fólk sem þarf lítið og lifir í náttúrunni. Það ræktaði sitt grænmeti, átti nokkra kjúklinga og hunangsflugur. Skógurinn var „apótekið” þeirra eins og einn heimamaður orðaði það.

Ef þú ætlar að heimsækja Paradísardalinn er mælt með að …
Ef þú ætlar að heimsækja Paradísardalinn er mælt með að klæðast sundfötum. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Ferða- og heimamenn stungu sér til sunds.
Ferða- og heimamenn stungu sér til sunds. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Veitingastaðurinn í fjöllunum bauð upp á ýmislegt.
Veitingastaðurinn í fjöllunum bauð upp á ýmislegt. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Pringles og gos í gönguna?
Pringles og gos í gönguna? mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Hádegismaturinn var borðaður undir aldargömlu argan-tré.
Hádegismaturinn var borðaður undir aldargömlu argan-tré. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Heimagert brauð, smákökur, möndlusmjör, hunang og ólífuolía.
Heimagert brauð, smákökur, möndlusmjör, hunang og ólífuolía. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Kjúklingurinn í tagínunni bragðaðist vel.
Kjúklingurinn í tagínunni bragðaðist vel. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Heimsókn til fjölskyldunnar sem eldaði hádegismatinn. Myndin var tekin með …
Heimsókn til fjölskyldunnar sem eldaði hádegismatinn. Myndin var tekin með góðfúslegu leyfi konunnar sem sat í stofunni og bakaði brauð. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir

Taghazout-þorpið

Síðasti dagurinn fór í heimsókn í litla bæinn Taghazout. Þarna tók á móti manni ofsalega afslöppuð stemning og var mikið um ungt fólk með brimbretti á bakinu. Mikið líf var á ströndinni þar sem börn busluðu í sjónum og aðrir sátu á strandarstöðunum í kring. Mikil matarlykt var í loftinu og veitingastaðirnir elduðu fisk eða kjúkling í tagínu.

Á hverju horni voru litlar verslanir sem seldu keramik og marrokóskar mottur sem ég komst því miður ekki með heim. Ég ferðaðist einungis með handfarangur í þessa ferð en mun ekki gera þau mistök næst þegar ég fer.

Taghazout er sjávarþorp sem er vinsælt á meðal þeirra sem …
Taghazout er sjávarþorp sem er vinsælt á meðal þeirra sem vilja læra á brimbretti. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Litadýrðin var áberandi.
Litadýrðin var áberandi. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
Það var mikil stemning á ströndinni í Taghazout.
Það var mikil stemning á ströndinni í Taghazout. mbl.is/Edda Gunnlaugsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert