Hvað er hægt að gera á Portofino?

Portofino er sannkölluð paradís.
Portofino er sannkölluð paradís. Samsett mynd

Taylor Swift minnist á ítalska sjávarþorpið Portofino í laginu Elizabeth Taylor, sem finna má á nýjustu breiðskífu bandarísku tónlistarkonunnar, The Life of a Showgirl, sem leit dagsins ljós á föstudag.

Aðdáendur söngkonunnar – hinir svokölluðu Swifties – eru nú allir á leið til þorpsins, ef marka má ferðasérfræðinga Travel Republic, en leit að Portofino jókst um ríflega 1.300% aðeins klukkustund eftir að platan kom út.

Í tilefni þess tók ferðavefur mbl.is saman það helsta sem vert er að skoða og upplifa í þessari sannkölluðu perlu Miðjarðarhafsins – fyrir alla íslensku Swiftarana sem nú dreyma um Portofino.

Heillandi sjávarþorp

Portofino er lítið og töfrandi sjávarþorp á Ítölsku Rivíerunni, þar sem tíminn virðist líða hægar. Þar búa aðeins um 500 manns og er þetta því fullkominn staður fyrir þá sem vilja slappa af og hlaða batteríin.

Þorpið býður upp á fjölbreytta afþreyingu, en eitt það vinsælasta er að rölta um göturnar og dást að litríku húsunum, helst með gómsætan gelato í hönd.

Portofino er litríkt og heillandi sjávarþorp.
Portofino er litríkt og heillandi sjávarþorp. Skjáskot/Planet of Hotels

Rölt um höfnina

Allir sem heimsækja Portofino ættu að leggja leið sína á Piazza Martiri dell’Olivetta, torgið í hjarta þorpsins. Þar ríkir hugguleg og lífleg stemning, og þetta er hinn fullkomni staður til að taka nokkrar myndir, fá sér skot af espresso og gleyma stað og stund.

Gómsætur gelato.
Gómsætur gelato. Skjáskot/Instagram

Draumur matgæðinga

Ítalía er án efa þekktust fyrir matarmenningu sína – pasta, pítsur og annað gómsæti sem gleður bragðlaukana. Í Portofino er að finna fjölda veitingastaða sem bjóða upp á ferska sjávarrétti, heimagert pasta og auðvitað klassískar ítalskar pítsur.

Meðal vinsælla staða eru Trattoria Tripoli, Pizzeria Portofino og Taverna del Marinaio. 

Já, þetta er pítsa.
Já, þetta er pítsa. Skjáskot/Pizzeria Portofino

Gula kirkjan á klettinum

Það er eitthvað heillandi við að heimsækja kirkjur og dást að fegurð þeirra og sögulegu gildi – og Kirkja heilags Georgs er engin undantekning.

Þessi fallega gula kirkja stendur á kletti og býður upp á einstakt útsýni yfir Portofino og Lígúríuhafið. Hún er fullkominn staður fyrir þá sem vilja njóta friðarstundar.

Þaðan er aðeins stutt ganga að Castello Brown og vitanum, sem bæði eru meðal helstu kennileita svæðisins.

Kirkja heilags Georgs.
Kirkja heilags Georgs. Skjáskot/TripAdvisor

Castello Brown

Yfir þorpinu trónir Castello Brown, sögulegt virki sem var byggt á 15. öld til að verja Portofino gegn sjóræningjum. Í dag hýsir kastalinn safn þar sem má sjá ljósmyndir, málverk og húsgögn sem segja sögu svæðisins.

Castello Brown.
Castello Brown. Ljósmynd/Unsplash

Náttúrugarðurinn í Portofino

Náttúrugarðurinn er sannkölluð paradís fyrir göngufólk og náttúruunnendur. Þar liggja fallegar göngurleiðir um grænar hlíðar með útsýni yfir Lígúríuhafið og strandlengjuna.

Þarna er ekki erfitt að eyða degi eða dögum á …
Þarna er ekki erfitt að eyða degi eða dögum á röltinu. Skjáskot/PeakVisor

Paraggi-strönd

Rétt utan við Portofino liggur Paraggi-strönd, sem er þekkt fyrir kristaltæran sjó og einstaka náttúrufegurð. Þar er hægt að synda, sóla sig og bara njóta lífsins.

Paraggi-strönd.
Paraggi-strönd. Skjáskot/Instagram

Lúxus á hverju horni

Þrátt fyrir að Portofino sé lítið er það sannkölluð paradís fyrir þá sem kunna að meta lúxus.
Í miðbænum má finna verslanir sem selja vörur frá sumum af þekktustu tískuhúsum heims – Dolce & Gabbana, Ferragamo og Louis Vuitton – auk smærri verslana sem bjóða handmálaðan keramik, heimagerða ólífuolíu og sérsmíðaða skartgripi.

Það er auðvelt að eyða peningum á Portofino.
Það er auðvelt að eyða peningum á Portofino. Skjáskot/Luxury Retail

Bátsferðir

Í Portofino er upplagt að skella sér í bátsferð og njóta sólsetursins með glas af freyðivíni í hönd. Einnig er vinsælt að fara á kajak eða snorkla í kristaltærum sjónum.

Já – á Portofino er eitthvað fyrir alla!

Fjöldi glæsilegra snekkja liggur við höfnina og setur svip sinn …
Fjöldi glæsilegra snekkja liggur við höfnina og setur svip sinn á þorpið. Skjáskot/Charter World

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert