Alexander Kárason athafnamaður átti flug með vinahópnum sínum til Tyrklands með flugfélaginu Play aðeins nokkrum dögum eftir að fregnir bárust af gjaldþroti þess. Hann tók málin í sínar eigin hendur og keypti lagerinn af búningunum út úr þrotabúinu og er byrjaður að selja búningana á sérstakri sölusíðu á Facebook, Play Air uniform.
„Þetta er nú bara einfalt, ég keypti búningana úr þrotabúinu af Play,“ segir Alexander, oftast kallaður Lexi.
„Stundum þegar það þarf að selja alls konar dót þá er hringt í mig. Ég leysi vandamál, orðum það þannig. Þetta var eitt af því. Ég gerði tilboð og keypti svo lagerinn af þrotabúinu,” segir hann.
„Planið er að selja þetta sem einhverskonar minjagripi (e. memorabilia) fyrir fólk sem vill eiga galla, búninga, húfur eða jakka og allt því tengt. Þetta eru allt nýjar vörur, jakkaföt og dragtir líka.“
Hefurðu fengið einhver viðbrögð?
„Við erum nú bara nýbúin að setja þetta í loftið og höfum verið í startholunum. Við erum að finna rétt verð á þetta og svona en það er strax komið fullt af fólki sem langar í þetta. Þetta voru smekklegir búningar sem þau voru með og góðar vörur,“ segir Alexander.
Af hverju ákvaðstu að kaupa lagerinn?
„Við í vinahópnum keyptum þetta flug með Play til Tyrklands fyrir ári síðan. Korteri fyrir ferðina hrynur félagið og ég stekk á þetta.
Úr varð Players-mótaröðin í Tyrklandi. Strákarnir fengu allir merktan fatnað svo þetta var góður „banter“ í leiðinni.“
Hver flaug ykkur út?
„Við flugum með Easy Jet, merktir Play,” segir Alexander og hlær. „Ég fór meira að segja í kapteinsbúningunum í gegnum Leif Eiríks.”