Á þessum árstíma er gríðarlega vinsælt á meðal Íslendinga að lengja helgina og kíkja í borgarferð. Þar nýtur fólk þess að borða góðan mat, kíkir á listasöfn og verslar jafnvel eitthvað.
Það er fátt verra en að vera illa búinn og illa undirbúinn fyrir veðrið. Þegar kemur að Lundúnum er nánast alltaf von á smá vætu á haustin. Góður rykfrakki ætti að koma sér vel og þá sérstaklega ef efnið er vatnsfráhrindandi.
Tískan í borginni er gríðarlega fjölbreytt og persónulegur stíll er mjög einkennandi. Drottningar Lundúna elska að blanda saman vintage-fötum við nýrri föt en stíllinn getur verið mjög breytilegur eftir hverfum. Í Notting Hill eru þær margar klæddar eins og best klæddu konur Parísar á meðan listatýpan kemur sterkt fram í austurhluta borgarinnar. Lundúnabúar halda þó fast í hefðirnar og elska klassískan, vel klæðskerasniðinn fatnað.
Dökkgrænn litur er kjörinn fyrir þennan árstíma og aldrei of mikið af honum. Það er mikilvægt að taka með sér hlýjan og þunnan ullarbol því veðrið getur verið ófyrirsjáanlegt í Lundúnum á haustin. Þannig verður þér ekki kalt.