„Mig klæjar í fingurna að fara aftur“

Tanja Teresa Leifsdóttir í Japan.
Tanja Teresa Leifsdóttir í Japan. Samsett mynd

Tanja Teresa Leifsdóttir fór í sumar í ferð drauma sinna til Suður-Kóreu og Japan. Ferðalög eru helsta ástríða hennar og veita henni bæði drifkraft og lífsgleði. Þessi langa ferð var hennar fyrsta til Asíu, en hún kom til vegna þess að vinkona hennar er þessa dagana búsett í Japan og var þetta því gullið tækifæri til að heimsækja hana og kynnast landinu.

„Ég er 31 árs og starfa sem sérfræðingur hjá Rannís. Ég elska að ferðast og er aldrei hamingjusamari en þegar ég er að flækjast um, kynnast nýju fólki og upplifa nýja hluti. Ég hef búið um tíma erlendis, í Frakklandi, Belgíu og Bretlandi, og gat ferðast mikið þaðan um meginland Evrópu. Það er eiginlega stóra ástríðan í lífinu; að ferðast og kynnast nýjum menningarheimum, ekkert skemmtilegra en að heyra áhugaverðar staðreyndir um af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru í ólíkum löndum.“

Ferðalög veita Tönju mikla gleði.
Ferðalög veita Tönju mikla gleði. Ljósmynd/Aðsend

Vinkonan í Japan, Rut Einarsdóttir, fékk starf í Tókýó í desember síðastliðnum, en Tönju hafði alltaf langað að fara þangað. Þegar Rut tjáði henni að hún hefði landað starfinu, ákvað Tanja samstundis að hún yrði að heimsækja hana – svona tækifæri kæmu ekki á hverjum degi.

„Mig hefur líka alltaf langað að fara til Suður-Kóreu, svo ég ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og fara líka þangað. Ég náði svo að plata litla bróður minn, Róbert Orra, til að koma með mér – og ég held að hann sjái svo sannarlega ekki eftir því! Hvorugt okkar hafði komið áður til landanna, eða Asíu yfirhöfuð, og við vorum mjög, mjög spennt í marga mánuði,“ segir Tanja.

Tók langan tíma að skipuleggja ferðina?

„Já, við vorum að skipuleggja þetta frá því í desember og allt fram á byrjun sumars og fórum svo út í ágúst. Það erfiðasta var að ákveða hvert við ættum að fara af því okkur langaði til þess að fara til allra staðanna, við hefðum auðveldlega getað farið í fimm mánaða ferð en þurftum að láta þrjár vikur nægja.

Við fengum líka hjálp frá Rut við skipulagninguna í Japan, og það var mjög gott að hafa hana innan handar. En ég lá svoleiðis yfir öllu efni tengdu Japan og Suður-Kóreu í marga mánuði – og „algorithminn“ á Instagram og TikTok er enn að jafna sig.“

Hvernig var að fara í ágústmánuði?

„Það var ógeðslega heitt og mikill raki, þannig undir lokin var ég farin að fantasera um að einhver myndi hrinda mér til Reykjavíkur í súld og rok.“

Hvernig söfnuðuð þið fyrir ferðinni?

„Við lögðum bara fyrir af laununum okkar mánaðarlega. Þetta var dýr ferð og við byrjuðum strax að leggja fyrir þegar við ákváðum að fara út.“ 

Róbert Orri Leifsson veitti systur sinni félagsskap í ferðinni.
Róbert Orri Leifsson veitti systur sinni félagsskap í ferðinni. Ljósmynd/Aðsend

Verslaði þrefalt magn af húðvörum

Hvert fóruð þið í Suður-Kóreu?

„Við flugum til Seúl og vorum þar í fjóra daga. Við ætluðum að fara að landamærum Norður-Kóreu en við hittum tvo sólóferðalanga frá Brasilíu sem höfðu ekki verið ánægðir með sína reynslu. Við ákváðum að sleppa því, líka vegna þess að okkur fannst Seúl svo æðisleg og vildum endilega fá auka dag þar. Það gerðist margt mjög skemmtilegt í Seúl sem er uppáhalds borgin mín í dag, ótrúlega spennandi, falleg og það sem kom mér á óvart er að hún er mjög rómantísk!

Ef einhver mun biðja mín einhvern tímann þá vil ég að það sé við Cheonggyecheon-strauminn í Seúl.

Ég er líka forfallinn „K-skincare“-aðdáandi og það var eiginlega eins og að vera barn í nammibúð að komast í Olive Young og þessar verslanir, það fyndna er að ég nota ekkert rosalega mikið af húðvörum, ég hef þetta bara frekar einfalt hjá mér, en finnst þetta samt gaman.

Ég tók einmitt eina góða verslunarferð í Hongdae eftir að hafa fengið mér nokkra á kjúklinga- og bjórstað, en Kóreubúar eru búnir að mastera þetta kombó og kalla það „Chimaek“, sem er blanda af orðunum „chicken“ og „maekju“ sem þýðir bjór á kóresku. Ég endaði semsagt á því að misskilja sölufólkið örlítið og endaði með þrefalt magn af nær öllu sem ég valdi og dröslaðist svo með það milli staða, því þetta var í byrjun ferðar,“ segir hún.

Tanja fór í hárspa í Seúl sem henni fannst æðislegt.
Tanja fór í hárspa í Seúl sem henni fannst æðislegt. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum með smá díl systkinin í Seúl, þ.e. að ég átti einn dag og fékk að skipuleggja alveg eftir eigin höfði og svo fékk hann sinn dag. Róbert bróðir minn hafði komist að því að það er hægt að fá kæsta skötu í Suður-Kóreu og hann að sjálfsögðu stökk á það. Við ferðumst þannig næsta dag yfir hálfa borgina, ryðguð eftir Hongdae Chimaek djamm og verslunarferð, í 35 gráðum og svona 190% raka til þess að fá okkur kæsta skötu.

Þau voru mest hissa á okkur, fólkið á veitingastaðnum, vegna þess að þetta er, rétt eins og á Íslandi, ekkert rosalega algengur matur. Við náðum að gera okkur skiljanleg á Google Translate en vissum svo sem að við værum á réttum stað, lyktin fór ekkert á milli mála. Skatan var borin fram hrá með brjóski, og með kimchi og gochujang til hliðar. Mér fannst þetta hræðilegt. Eftir Seúl fórum við til Busan þar sem við skoðuðum okkur um og fórum á Jagalchi-matarmarkaðinn.“

Það er vinsælt að fá sér djúpsteiktan kjúkling og bjór …
Það er vinsælt að fá sér djúpsteiktan kjúkling og bjór sem þægindamat, í Suður-Kóreu. Ljósmynd/Aðsend

Frá Busan kvöddu þau landið og flugu yfir til Japans – nánar tiltekið til Okinawa. Tanja lýsir henni sem æðislegri paradísareyju, en þaðan flugu þau áfram á meginlandið, til Hiroshima.

„Á leiðinni frá flugvellinum í Hiroshima sáum við japönsku kvöldsólina, sem ég hafði aldrei séð áður. Hún var eldrauð, skær og falleg – og ég hugsaði með mér: ókei, ég skil fánann núna. Það var svo fallegt.

Hiroshima er rosalega falleg og róleg borg en það var mjög átakanlegt að fara á Friðarsafn Hiroshima – en jafnframt mikilvægt. Það var ótrúlega erfitt að reyna að byrja að ímynda sér hryllinginn og hörmungarnar, og að vera á staðnum, sjá svæðið þar sem þetta gerðist og lesa sögur eftirlifenda og þeirra sem þurftu að takast á við afleiðingarnar. Ég varð að fara út því ég gat ekki haldið mér saman. Það var erfiður dagur en þetta er samt eitthvað sem ég er mjög fegin að við gerðum.

Svo fórum við til eyjarinnar Miyajima, sem er rétt fyrir utan Hiroshima. Þar er hof, ótrúlega fallegur bær – og dádýr úti um allt! Þau voru svo gæf og góð og gaman að hitta þau. Það var reyndar erfitt að vernda Mojito-kokteilana okkar fyrir þeim,“ segir hún.

Systkinin upplifðu ansi mikið á þremur vikum í sumarhitanum og …
Systkinin upplifðu ansi mikið á þremur vikum í sumarhitanum og gæddu sér á alls kyns kræsingum. Ljósmynd/Aðsend

„Frá Hiroshima fórum við til Osaka og vorum þar í þrjá daga. Það var ótrúlega gaman þar og rosalega mikið sem hægt er að gera. Það var gaman að fara og sjá Dotonbori í Osaka og Glico Running Man. Ég veit ekkert af hverju Glico Running Man er frægur en ég var búin að sjá svo mikið um hann á samfélagsmiðlum að ég varð að fara og fá mynd, og það var þess virði!

Næst fórum við til Rutar í Tokyo og vorum þar í fimm daga, sem var rétt varla nóg. Tokyo er algjört æði og mér fannst gaman að skoða mig þar um. Ég náði ekki að skoða helminginn af því sem mig langaði að sjá og á enn inni almennilega verslunarferð, en það er allt flott. Mér var hins vegar alltaf ógeðslega heitt og hafði ekki orku í að velja. Ég fór inn í búðir, fannst allt flott, varð ringluð og fór út. Þannig að næst, ég veit ekki hvað ég þyrfti að vera lengi í Tokyo til að hafa fundist ég séð hana vel, fjögur ár?“

Henni fannst gaman að vera í mibæ Osaka og lét …
Henni fannst gaman að vera í mibæ Osaka og lét smella einni mynd af sér við The Running Man-skiltið. Ljósmynd/Aðsend

Var einhver staður í ferðinni sem stóð upp úr?

„Ég kolféll fyrir Seúl í Suður-Kóreu. Ég er svona leyni „K-drama fan“ af því þetta er allt mjög „soft-core krúttó dæmi“ og finnst kóreskur matur mjög góður. Það kom mér svo á óvart hvað Seúl var falleg og róleg á sinn hátt. Þar er mikið af náttúru, fallegar sögulegar byggingar og svæði og ótrúlega sjarmerandi. Hún einhvern veginn náði mér alveg. Ég á klárlega eftir að koma aftur þangað.“

Hefði getað verið í marga mánuði í Japan

Voru einhver plön sem fóru í vaskinn?

„Já, og því miður! Við ætluðum í fjallgöngu upp á Mt. Fuji og vorum búin að vera að skipuleggja það lengi, búin að bóka fjallaskála og allt. Þegar kom að því að fara að koma okkur þangað ákváðum við með trega að hætta við vegna þess að það var einfaldlega svo heitt, við þreytt og ég búin að sjá vídeó af rosalega mikilli mannmergð hreinlega upp og niður allt fjallið, á þeirri gönguleið sem við ætluðum. En næst, klárlega. Ég var svo sjúklega spennt.“

Það var mikið um að vera í Tokyo.
Það var mikið um að vera í Tokyo. Ljósmynd/Aðsend

Hefðirðu viljað vera lengur á einhverjum stað – eða kannski styttra?

„Ég hefði náttúrulega getað verið í marga mánuði í þessari ferð, en það sem stendur kannski upp úr núna er að ég hefði klárlega átt að vera bara tvo daga í Osaka og nota þriðja daginn til að fara til Kyoto. Það var svo sem alveg búið að segja okkur að gera það en mér fannst nóg að fara á milli staða eins og við gerðum, í þessum hita.“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerðir í ferðinni?

„Svona eftir á að hyggja var mjög gaman í þessu hárspa-i sem ég fór í, af því það var svo mikið öðruvísi lífsreynsla. Svo var líka ógeðslega gaman að fara til Nago Pinapple Park sem er svo steikt dæmi. Þetta er einhvers konar risaeðluskemmtigarður og allt þar er skreytt með ananas. Þar var mikið hægt að bralla og þetta var svo sérstök og skemmtileg upplifun.

Annars var líka ógeðslega gaman að fara í öll þessi kareókí. Við bróðir minn tókum einu sinni dúett og vorum bæði svo skelfileg að við reyndum að sanna okkur með því að taka annan dúett, en hann var verri en sá fyrri og við vorum komin í hláturskast þarna fyrir framan alla að reyna að syngja og þetta var eitthvað svo innilega vandræðalegt.“

Þau brögðuðu á vel kæstri skötu í Suður- Kóreu, með …
Þau brögðuðu á vel kæstri skötu í Suður- Kóreu, með þarlendu meðlæti en Tanja var ekki yfir sig hrifin af þeirri máltíð. Ljósmynd/Aðsend

Hvað fannst þér einkenna Japan?

„Erfitt er að segja eftir bara í þrjár vikur þarna, en ég myndi segja hvað fólkið var yndislegt og tilbúið til þess að gera allt til þess að aðstoða og hvað fólk var tillitssamt.

Mig klæjar í fingurna að fara aftur, ég er klárlega núna orðin svona manneskja sem hættir ekki að blaðra um Japan og Suður-Kóreu og hvað allt er frábært og gaman þar. Svo mikið gellan núna sem segir: „þegar ég var í Japan.“ Annars langar mig núna mjög mikið til Kína. Ég held að það væri geggjað. Ég er líka bara mjög þakklát fyrir að hafa getað farið í svona ferð, hitt fólk og upplifað heiminn,“ segir Tanja í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert