TikTok: „Hvar er besta að baða sig?“

Giselle Langley og Stephen Jiroch hafa komið þrisvar sinnum til …
Giselle Langley og Stephen Jiroch hafa komið þrisvar sinnum til Íslands á örfáum árum. Skjáskot/Instagram

Giselle Langley og Stephen Jiroch eru vinsælir ferðabloggarar með yfir milljón fylgjenda á Instagram. Þau ferðast heimshorna á milli, gefa ráð og birta skemmtileg myndbönd frá upplifun sinni. Þau hafa heimsótt Ísland þrisvar sinnum á örfáum árum og líkt og segir í nýrri færslu segja þau spurninguna sem þau fái hvað oftast varðandi landið vera: „Hvar er besta að baða sig?“

Í nýjasta myndskeiðinu raða þau nokkrum baðlónum og heitum laugum í röð eftir uppáhaldi og byggist röðunin á þægindum, aðgengi, verði, upplifun, gestafjölda og staðsetningu.

Jarðböðin á Mývatni.
Jarðböðin á Mývatni. mbl.is/Þorgeir Baldursson

7. sæti, The Secret Lagoon: Eitt elsta baðlón á Íslandi með sögu aftur til 1891. Lónið er staðsett við Hvammsveg á Flúðum og hefur verið vinsælt í gegnum tíðina. Þau segja staðinn hafa verið fallegan og aðgengilegan.

6. sæti, Jarðböðin Mývatni: Í umsögninni segja þau að Jarðböðin séu eina baðlónið sem kemst næst Bláa Lóninu hvað litinn varðar. Hins vegar séu Jarðböðin ekki eins aðgengileg þar sem þau séu svo langt frá höfuðborginni.

5. sæti, Skógarböðin: Náttúrulaugar sem staðsettar eru í Vaðlaheiði gegnt Akureyri. Staðurinn var opnaður vorið 2022 og er vatnið tengt við heita vatnið sem kemur frá Vaðlaheiðargöngum. Þau segja staðinn ákaflega fallegan, gestir voru í yngri kantinum en að þeim hafi líkað nútímaleg þægindin.

4. sæti, Sky Lagoon: Fyrirtækið leggur mikið upp úr hefðbundnum baðaðferðum Íslendinga og meðferðarrútínu sem þekkist vel frá Bláa Lóninu. Þeim fannst lónið sjálft minna helst til mikið á aðrar eilífðarlaugar (e. infinity pools) sem þau hafa heimsótt en segja staðsetninguna frábæra því lónið er vissulega á höfuðborgarsvæðinu.

GeoSea á Húsavík.
GeoSea á Húsavík. Henry Becker/Unsplash

3. sæti, GeoSea: Baðstaðurinn er staðsettur á Húsavík og segja þau hann hafa komið sér mest á óvart. Þeim fannst þau njóta mesta næðis þar af öllum baðlónunum en eins og með jarðböðin, er GeoSea langt frá Reykjavík.

2. sæti, Hvammsvík: Heitar laugar í Hvalfirði sem hafa notið mikilla vinsælda hjá ferðamönnum jafnt sem Íslendingum. Staðurinn hefur hlotið fjölda viðurkenninga og samkvæmt Langley og Jiroch er hann ótrúlega fallegur og náttúrulegur.

1. sæti, Bláa Lónið: „Það verður alltaf töfrandi staður til að heimsækja!“ segja þau orðrétt í færslunni. Þeim finnst Bláa Lónið vera með mestu þægindin, vera aðgengilegast, með nóg af plássi, og segjast heimsækja það í hvert sinn sem þau koma til Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert