París er ein vinsælasta borg heims fyrir ferðamenn en jafnframt ein erfiðasta þegar kemur að gistingu. Þúsundir Íslendinga bóka hótel eða Airbnb í borg ástarinnar á hverju ári en margir gera sömu mistökin; velja rangt hverfi, borga of mikið eða lenda á hótelherbergi sem lítur ekkert út eins og á myndunum.
Áður en þú tekur fram kreditkortið og bókar „fallegt lítið hótel í miðbænum“, stoppaðu aðeins. Það er líklegra en ekki að þú sért að falla í eitt af klassísku Parísar-mistökunum. Hér eru algengustu gildrurnar sem ferðafólk fellur í og ráðin sem hjálpa þér að forðast þær.
Mörgum finnst miðbærinn hljóma best en París hefur um tuttugu hverfi. Mörg hótel á ferðasíðum segja að þau séu miðsvæðis þó að þau séu í raun langt frá aðalstöðum.
Hverfi fjögur og fimm henta til dæmis vel fyrir rómantík, 9. og 11. fyrir mat og næturlíf og 15. fyrir rólegheit.
Herbergi í París eru fræg fyrir að vera pínulítil. Margir taka ekki eftir að „lítið og kósý“ þýðir stundum 9 fermetrar. Góð ábending er að kíkja alltaf á stærð herbergisins og skoða myndir af baðherberginu.
Ekki bóka gistingu of nálægt Eiffelturninum. Turninn er fallegur en svæðið í kring er ekki endilega það besta til að gista í. Það er dýrt, mikið um túrisma og dauft á kvöldin.
Það að vera nálægt Metro-stöð er jafnvel mikilvægara en að vera í miðbænum. Með lest kemstu hvert sem er á 20 mínútum, svo það gæti verið gott ráð að velja gistingu sem er innan fimm mínútna göngu frá stöð.
Hafðu í huga að lyftur eru ekki sjálfgefnar í eldri byggingum svo þú gætir endað með hótelherbergi á sjöttu hæð og enga lyftu. Fyrir hrausta ferðamenn er þetta ekkert mál en það á ekki við um alla. Það er gott að tryggja þessa hluti áður en gistingin er bókuð.
Loftkæling er sjaldgæf á sumrin og getur orðið vel heitt í borginni yfir heitustu mánuðina. Gististaðir taka það sérstaklega fram ef það er loftkæling.
Morgunverður og þjónusta getur kostað mikið aukalega. Yfirleitt er meira heillandi að stökkva út á næsta kaffihús fyrir góðan bolla og croissant og sleppa hótelmorgunmatnum.
Í París eru strangar reglur gegn ólöglegum Airbnb-gististöðum. Margir ferðamenn hafa lent í því að gistingu er aflýst skömmu fyrir komuna. Mikilvægt er að velja stað með skráningarnúmeri.
Ef þú veist hvað þú átt að varast er París fullkomin; maturinn, göturnar, vínið, stemningin. En ef þú bókar í flýti endarðu kannski í herbergi með útsýni yfir múrvegg og viftu í stað loftkælingar.
Og það er bara ekki jafn rómantískt.