Nýtt myndskeið sýnir atvikið í Reynisfjöru betur

Kanadíski ferðamaðurinn Candice Lloyd, sem var í Reynisfjöru á þriðjudagskvöld, varð vitni að því þegar ólagsalda gekk á land og lagðist yfir mann sem hafði komið sér fyrir á stuðlaberginu til að sitja fyrir á mynd.

Myndskeið sem sýnir atvikið hefur vakið mikla athygli á Facebook-síðunni Infinite Iceland undanfarinn sólarhring og er Lloyd ein þeirra sem hafa skrifað athugasemd við færsluna.

Candice Lloyd er á leið heim til Kanada eftir 12 …
Candice Lloyd er á leið heim til Kanada eftir 12 daga ævintýraferð um Ísland. Ljósmynd/Aðsend

Slapp naumlega

Lloyd, sem var í ferð með hópi á vegum National Geographic G-Tours, segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi ekki verið hluti af hópi þeirra.

Hún segir hann hafa sloppið naumlega og að engar björgunaraðgerðir hafi verið nauðsynlegar.

„Hann náði að klifra niður,“ segir Lloyd, sem nú er á leið heim til Kanada eftir tólf daga ævintýraferð um Ísland.

Hún segir að ekkert eftirlit hafi verið á ströndinni.

„Ég sá ekkert eftirlit á ströndinni. Fararstjórinn okkar útskýrði að strandverðir væru ekki á svona ströndum því þeir ættu ekki að þurfa að hætta lífi sínu fyrir aðra sem geta ekki lesið skilti og notað skynsemina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert