„Við finnum fyrir auknum áhuga Bandaríkjamanna á Noregi“

Stein Ove Rolland og Gísli S. Brynjólfsson takast í hendur …
Stein Ove Rolland og Gísli S. Brynjólfsson takast í hendur við undirritun. Ljósmynd/Aðsend

Icelandair og norska markaðsstofan Fjord Norway hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf um að fá fleiri ferðamenn til að heimsækja Vestur-Noreg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

„Við finnum fyrir auknum áhuga Bandaríkjamanna á Noregi og sérstaklega Vestur-Noregi. Við teljum að þessi vöxtur muni halda áfram og samstarfið við Fjord Norway sýnir hvernig Norðurlöndin geta unnið saman að því að laða að ferðamenn frá öllum heimshornum. Við erum stolt af því að vera brú milli heimsálfa en Icelandair er það flugfélag sem býður flestar tengingar milli Skandinavíu og Norður-Ameríku,“ segir Gísli S. Brynjólfsson, markaðsstjóri Icelandair.

Í tilkynningunni kemur fram að aukinn áhugi sé á heimsóknum til Vestur-Noregs en ferðamönnum sem fljúga þangað með Icelandair hefur fjölgað um 26% á þessu ári, og hvað mest frá Norður-Ameríku eða um 55%.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga gott samstarf við Icelandair. Félagið býður upp á frábærar tengingar milli Vestur-Noregs og Norður-Ameríku. Saman munum við vinna að því að kynna áfangastaði og ferðamöguleika í Vestur-Noregi fyrir ferðaskrifstofum, ferðaheildsölum og almenningi og gera svæðið aðgengilegra ferðamönnum,“ segir Stein Ove Rolland, framkvæmdastjóri Fjord Norway.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert