Sohra – borgin sem aldrei þornar

Mikilvægasti fylgihlutur íbúa Sohra er regnhlífin.
Mikilvægasti fylgihlutur íbúa Sohra er regnhlífin. Samsett mynd

Í norðausturhluta Indlands, í ríkinu Meghalaya, liggur borgin Sohra, áður þekkt sem Cherrapunji – ein blautasta borg heims. Þar rignir nánast alla daga ársins og hefur úrkoman mælst yfir 9.000 mm á einum mánuði.

Sohra á heimsmetið í mestu úrkomu á einum mánuði og einnig á heilu almanaksári.

Þrátt fyrir stöðuga rigningu býr fólk í umhverfi sem er bæði grænt og stórbrotið – með hæðum, djúpum giljum, tignarlegum fossum og einstökum „living root bridges“, brúm sem hafa verið ræktaðar úr trjárótum í áratugi.

Bandaríski ferðabloggarinn Drew Binsky heimsótti nýverið Sohra og sýndi í myndbandi sínu Inside the Wettest City on the Planet hvernig lífið í borginni gengur sinn vanagang í þessari stöðugu rigningu.

Hann sýnir meðal annars hvernig heimamenn „brosa í gegnum skýin“, vinna, ferðast og aðlagast náttúrunni og öflum hennar – í stað þess að berjast gegn henni.

Hér má sjá myndbandið sem um ræðir:

 

Ferðavefurinn hefur áður birt myndskeið frá Binsky, sem er mikill Íslandsvinur. Hann hefur á undanförnum árum ferðast um allan heim, kynnst ólíkum menningarheimum og skyggnst inn í hulda heima sem fáir þekkja.

Binsky, sem kom til Íslands árið 2022 – þó ekki í fyrsta sinn – hefur nú heimsótt öll lönd heimsins, sum þeirra oftar en einu sinni. Það tók hann tólf ár að ljúka ferðinni, en á leiðinni hefur hann frætt fylgjendur sína um staði, hefðir og mannlíf og hvatt marga til að leggja land undir fót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert