Á að jafna Eiffel-turninn við jörðu?

Falskar fréttir á netinu hafa m.a. fjallað um að jafna …
Falskar fréttir á netinu hafa m.a. fjallað um að jafna eigi Eiffel-turninn við jörðu. Chris Karidis/Unsplash

Orðrómur um að rífa eigi eitt aðal kennimerki Parísar, Eiffel-turninn, á næsta ári hefur grasserað á netinu undanfarið. 

Turninn, sem er 330 metra hár, laðar að sér milljónir ferðamanna ár hvert og skilaði t.a.m tekjum upp á 117,8 milljónir evra árið 2023, eða tæplega 17 milljarða króna. Þetta kemur fram á Euro News.

Eiffel-turninn er einn fárra minnisvarða í Frakklandi sem hlýtur ekki styrki frá ríkinu og um 300 Parísarbúar hafa atvinnu af minnisvarðanum.

Snemma októbermánaðar flykktust íbúar meira en 200 bæja og borga víðs vegar um Frakkland út á götur til að mótmæla niðurskurði og til að kalla eftir hærri sköttum á þá ríku. Þúsundir íbúa voru á götum Parísar sem olli tímabundinni lokun á Eiffel-turninum af öryggisástæðum.

Nokkrum vikum fyrir mótmælin komu fram falsfréttir um að Eiffel-turninn yrði jafnaður við jörðu og breytt í risa „rennibraut eða tónlistarhús“, sem ýfðust upp á samfélagsmiðlum. Falsfréttirnar og tímabundin lokun Eiffel-turnsins vegna mótmælanna virðast í sameiningu hafa ýtt undir orðróminn um að rífa ætti turninn. 

Á Euro News kemur fram að fréttir sem þessar geti haft kaótísk áhrif innan ferðamannaiðnaðarins. Snemma á þessu ári áttu veitingastaðir og hótel á Ítalíu undir högg að sækja vegna falskra umsagna á netinu. Í kjölfarið hefur þeim sem skilja eftir umsagnir á netinu verið gert að sýna fram á að þeir hafi í raun heimsótt staðinn.

Samkvæmt viðskiptaráðuneyti Ítalíu hefur falsefni á netinu áhrif á 6-30% af tekjum fyrirtækja í ferðamannaiðnaði. 

Euro News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert