Icelandair flýgur til Faro í Portúgal

Faro er höfuðborg Algarve og er syðsta borg Portúgals.
Faro er höfuðborg Algarve og er syðsta borg Portúgals. Brianna C/Unsplash

Icelandair bætir Faro í Algarve-héraði í Portúgal við leiðarkerfi sitt og hefst flug þangað 26. mars næstkomandi. Faro er höfuðborg Algarve og syðsta borg Portúgals. Algarve er þekkt fyrir fallegar strendur, golfvelli og ríkulega menningu.  

Til að byrja með verður flogið tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum til 11. maí, en frá 16. maí verður flogið einu sinni í viku, á laugardögum. Icelandair VITA hefur áður boðið upp á skipulagðar ferðir í leiguflugi til Faro en með breytingunni mun úrval skipulagðra ferða aukast, sérstaklega golfferða.

Félagið hefur einnig aukið tíðni til vinsælla áfangastaða í Suður-Evrópu á borð við Tenerife, Las Palmas, Alicante og Barcelona. Einnig hefur flug verið aukið til lykiláfangastaða eins og Kaupmannahafnar og Parísar.

„Við sjáum mikla eftirspurn eftir áfangastöðum í Suður-Evrópu og viljum efla tengingar okkar þangað. Faro er spennandi áfangastaður sem margir Íslendingar þekkja, og við erum ánægð að geta boðið upp á flug þangað frá næsta vori. Með þessari viðbót og aukinni tíðni til annarra vinsælla áfangastaða styrkjum við leiðakerfið og bætum enn frekar við ferðum til sólríkra áfangastaða,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert