Ebbw Vale, fallegur lítill bær í suðurhluta Wales, hefur á síðustu árum fengið á sig nýjan, umdeildan og heldur óhefðbundinn titil: „feitasti bær Bretlands“.
Samkvæmt breskum fjölmiðlum eru allt að 80% íbúa sagðir of þungir eða glíma við offitu og yfir 70% allra veitingastaða í bænum selja aðeins sveittan skyndibita.
Íbúar eru sagðir panta sér oft heimsendan mat, jafnvel nokkrum sinnum á dag, og segja sumir að það sé einfaldlega hluti af daglegu lífi í bænum.
Meðal þekktra skyndibitastaða í Ebbw Vale eru McDonald’s, KFC, Subway, Domino’s, Greggs, Burger King og Nando’s. Þar má einnig finna þó nokkra kínverska og indverska veitingastaði, kebab-staði og veitingastað sem selur aðeins djúpsteiktar franskar.
Costa Coffee og Starbucks eru einnig til staðar en fjöldi veitingastaða í Ebbw Vale er sagður einhvers staðar á bilinu 50 til 70. Íbúafjöldi er um 33 þúsund manns.
Eftir lokun stálverksmiðjunnar Ebbw Vale Steelworks á áttunda áratugnum breyttist samfélagið mikið. Atvinnuleysi jókst og margir leituðu í ódýrari og fljótlegri mat, sem er talið hafa átt stóran þátt í því vandamáli sem bærinn glímir við núna.
Vinsæll ferðabloggari að nafni Will Tennyson heimsótti bæinn fyrr á árinu og birti myndskeið af heimsókn sinni á YouTube, sem hefur vakið mikla athygli – hátt í sex milljónir manna hafa horft á það frá því það fór í loftið.
Myndbandið, sem ber titilinn How Much Weight Can I Gain in the World’s Most Obese Town? sýnir Tennyson meðal annars ræða við bæjarbúa og heimsækja nokkra af fjölmörgum skyndibitastöðum bæjarins.
Mikið hefur verið fjallað um bæinn á fréttasíðum á borð við Daily Mail, The Sun, The Telegraph, The Guardian og BBC, þar sem íbúar segjast orðnir fullsaddir á heimsóknum samfélagsmiðlastjarna, en nokkuð sáttir með lífið í bænum.
Grein með fyrirsögninni „We're fed up of YouTubers coming to our town and ridiculing us for being 'the world's fattest' place to live... we're not a freak show!“ birtist á Daily Mail í júlí, aðeins örfáum vikum eftir heimsókn Tennyson.