Þetta eru heitustu áfangastaðirnir núna

Bled-vatnið í Slóveníu, Ksamil-ströndin í Albaníu og Múskat í Óman.
Bled-vatnið í Slóveníu, Ksamil-ströndin í Albaníu og Múskat í Óman. Samsett mynd

Það eru ekki ferðabæklingar eða bloggarar sem ráða nú för þegar kemur að því að kynna nýja og áhugaverða áfangastaði heldur eru það samfélagsmiðlar. TikTok hefur komið sérstaklega sterkt inn þar sem nokkurra sekúndna myndskeið geta breytt áður óþekktri borg í heitan áfangastað. 

Áfangastaðir sem vekja athygli á samfélagsmiðlum geta fljótt breyst úr rólegri leyniperlu yfir í fjölfarinn ferðamannastað. Enn er tími til að heimsækja nokkra þeirra áður en það gerist. 

Er Albanía nýja Króatía?

Suðurströnd Albaníu hefur á undanförnum árum orðið einn vinsælasti nýi áfangastaður Evrópu. Þar sameinast blágrænt Miðjarðarhafið við dramatísk fjöll og sjarmerandi sjávarþorp. Þrátt fyrir mikla fegurð er verðlagið enn þá lágt og fólkið talið mjög gestrisið. Vinsælustu staðirnir eru Ksamil, Saranda og fjalladalurinn Theth. Myllumerkið #AlbanianRiviera hefur nú fengið yfir 800 milljón áhorf á TikTok. 

Ksamil-ströndin í Albaníu.
Ksamil-ströndin í Albaníu. Michael Struharova/Unsplash

Slóvenía

Ljubljana, Bled og nágrenni eru orðin að spennandi viðkomustöðum fyrir þá sem sækjast eftir náttúrufegurð, ró og hreinleika. Landið minnir á Sviss en án verðmiðans. Vatnið við Bled hefur laðað að ferðalanga sem kjósa umhverfisvænni upplifanir fram yfir túristastrauma. Myllumerkið #LakeBled hefur fengið yfir 600 milljón áhorf á TikTok. 

Bled-vatnið í Slóveníu er fyrir þá sem sækjast eftir náttúrufegurð …
Bled-vatnið í Slóveníu er fyrir þá sem sækjast eftir náttúrufegurð og ró. Jaka Škrlep/Unsplash

Madeira 

Madeira var lengi þekkt sem áfangastaður fyrir eldri kynslóðina en hefur nú öðlast annað líf á samfélagsmiðlum. Ævintýragjarnir ferðamenn sækja þangað fyrir fjallaleiðirnar, grænu dalina og til að baða sig í náttúrulaugum. Eyjan býður upp á stórkostlegt landslag, milda veðráttu og einstaka kyrrð. Myllumerkið #MadeiraIsland er nú með yfir 1,2 milljarða áhorfa. 

Madeira í Portúgal hefur orðið mjög vinsæll áfangastaður á stuttum …
Madeira í Portúgal hefur orðið mjög vinsæll áfangastaður á stuttum tíma. Phil Aicken/Unsplash

Óman

Ferðalög til Mið-Austurlanda hafa verið bundin við glans og hávaða eins og til dæmis í Dubai. Óman býður upp á aðra upplifun, rólega, græna og menningarlega. Þar er hægt að sofa í eyðimörkinni, keyra fjallavegi og synda í tærum vatnshyljum án mannfjöldans. Landið hefur notið vinsælda fyrir „ekta lúxus“ og myllumerkið #OmanTravel verður vinsælla og vinsælla. 

Óman hefur vakið athygli fyrir ekta lúxus.
Óman hefur vakið athygli fyrir ekta lúxus. Anfal Shamsudeen/Unsplash

Georgía

Tbilisi, höfuðborg Georgíu, hefur orðið að nýju mekka fyrir ferðamenn sem sækjast eftir menningu og góðum mat. Hér blandast áhrif frá Rússlandi, Tyrklandi og Evrópu í einstaka menningarfléttu. Fyrir utan borgina er vínræktarsvæðið Kakheti sem laðar að vínáhugafólk alls staðar úr heiminum. Myllumerkið #VisitGeorgia er orðið vinsælt á samfélagsmiðlum. 

Tbilisi er áhugaverður áfangastaður og má finna góðan mat og …
Tbilisi er áhugaverður áfangastaður og má finna góðan mat og fjölbreytta menningu. Georgy Trofimov/Unsplash

Ef það er ferð á döfinni hugsaðu þá eins og áhrifavaldur. Enn eru til staðir sem virðast of fallegir til að vera sannir á skjánum og eru það líka í raunveruleikanum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert