„Fyrstu fjórar af fimm skáldsögunum voru skáldaðar ferðasögur. Þar sem einhver staður heillaði mig sem sögusvið og þá bjó ég til persónu sem ferðaðist á þann stað,“ segir kennarinn, fararstjórinn og rithöfundurinn Ása Marin Hafsteinsdóttir sem skrifaði bókina Stjörnurnar yfir Eyjafirði sem er væntanleg í lok október.
„Ég gaf út ljóðabók þegar ég var að útskrifast úr Verslunarskólanum, þá var ég tvítug, þannig að þetta eru 28 ár sem ég hef verið að skrifa. Síðustu tíu ár hef ég skrifað skáldsögur, þannig að á tíu árum hef ég skrifað sjö skáldsögur.“
Auk þess að skrifa skáldsögur hefur hún einnig skrifað námsefni í íslensku fyrir Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu.
Ása er með B.Ed-próf frá Kennaraháskóla Íslands og kenndi um tíma íslensku í unglingadeild. Hún er blóðborinn Hafnfirðingur og segist ekki getað hugsað sér að búa annars staðar, þrátt fyrir að hún ferðist mikið og sæki jafnan innblástur og nýja orku í þorpið Ronda í Andalúsíu.
Bókin Vegur vindsins (2015) gerist á Jakobsveginum, sem liggur frá landamærum Frakklands og Spánar til borgarinnar Santiago de Compostela. „Ég hafði gengið fyrstu fimm dagleiðirnar og heillaðist mjög af orkunni og stemningunni á Jakobsveginum.“
Eftir að Ása kom heim skrifaði hún fyrstu drög að sögunni og þegar þau voru að verða tilbúin fór hún aftur út og kláraði gönguna og gekk í fjórar vikur til að fylla upp í staðarlýsingar og andrúmsloftið í sögunni.
Ása leggur áherslu á að þekkja það sem hún skrifar um, hvort sem hún hafi upplifað það sjálf eða heimsótt staðina sem hún notar sem sögusvið í bókunum.
„Svo fór ég til Hanoi í Víetnam og fékk svona rosa góða tilfinningu fyrir staðnum og ég man að ég sat einhvern tímann við vatn sem er í miðbænum og hugsaði með mér að þetta yrði skemmtilegt sögusvið í skáldsögu.“
Ása dvaldi í Víetnam í tíu daga, ferðaðist um og var dugleg að punkta hjá sér staðarlýsingar, hvaða lykt hún fann á hverjum stað, liti í umhverfinu o.s.frv.
Það var svo þegar kórónaveirufaraldurinn skall á sem Ása segist hafa fengið þann tíma sem hún þurfti til að skrifa skáldsöguna sem gerist í Víetnam, Yfir hálfan hnöttinn (2021).
Ferðaskáldsögur Ásu fengu afar góðar viðtökur svo hún segist hafa ákveðið að halda áfram á þeirri línu. Það var þá sem hún fór til Andalúsíu á Spáni þaðan sem hugmyndin að bókinni Elsku Sólir (2022) er sprottin.
Sagan fjallar um systur sem alast ekki upp saman. Þegar móðir þeirra flytur til Andalúsíu og sendir þeim tölvupóst, þar sem hún liggur á dánarbeðinu, ferðast þær þangað þrátt fyrir að slæmt samband þeirra mæðgna. Þær þurfa að finna móður sína í gegnum ratleik sem hún setur upp.
„Spánn, sérstaklega Andalúsía, er nánast eins og mitt annað heimaland. Mér líður alltaf jafn vel þegar ég lendi á flugvellinum í Malaga eins og þegar ég lendi í Keflavík. Þegar ég fer til að hlaða rafhlöðurnar þá fer ég lóðbeint til Ronda. Það er staðurinn sem ég sæki orku í.“
Ronda er lítill fjallabær í Andalúsíu, rétt fyrir ofan Marbella. Þangað eru farnar dagsferðir frá stöðum eins og strandbæjunum við Costa del sol. Ása segir bæinn vera þekktan sem eitt af svokölluðu hvítu þorpunum í Andalúsíu, þaðan komi nútímanautaatið og margir þekktir listamenn og höfundar hafi hrifist af þorpinu, t.d. Hemmingway og Orson Welles.
„Í kóvid áttaði ég mig á að ég hafði ferðast mikið en hafði í raun ekki ferðast mikið innanlands, því alltaf þegar ég átti frí flaug ég úr landi,“ og segist Ása þá hafa fengið hugmyndina að bókum sem gerast á aðventunni á Íslandi, í takt við erlendar bækur sem hafa verið þýddar yfir á íslensku.
Ása skrifaði bókina Hittu mig í Hellisgerði (2024) og segir hana hafa verið nokkurs konar ástarbréf til Hafnarfjarðar, sem rammar inn söguna. „Og í bókinni fer sögupersónan um Suðurlandið líka. Hún skráir sig í ferð á vegum stefnumótafyrirtækis þar sem enginn á að koma einn til baka.“
Í nýjustu bók Ásu, Stjörnurnar yfir Eyjafirði, segir hún ástina ferðast norður í Eyjafjörð.
„Í skálduðu ferðasögunum er ný persóna í hverri bók en í jólarómans-bókunum tengjast bækurnar innbyrðis. Það er aukapersóna í bókinni Hittu mig í Hellisgerði sem er aðalpersóna í Stjörnurnar í Eyjafirði. Þú þarft ekki að hafa lesið fyrri bókina til að njóta þeirrar seinni en ef þú hefur lesið hana þá færðu smá fréttir af Snjólaugu og hvar hún er stödd eftir ævintýrin í Hittu mig í Hellisgerði.“
Að lokum segist Ása stöðugt vera að uppgötva Ísland og að í hvert skipti sem hún keyri um landið þá skilji hún af hverju svo margir ferðamenn sæki landið heim. Hún er sérstaklega hrifin af fjalladýrðinni á Austfjörðum en heldur áfram að hafa áhuga á ferðalögum erlendis og er Suður-Ameríka ofarlega á lista, svo það er spurning hvert sögusvið næstu bóka verður?