Norðurljósin eru í forgrunni nýrrar markaðsherferðar fyrir áfangastaðinn Ísland sem fór í loftið í dag. Skrautlegur hópur alþjóðlegs áhugafólks leitar norðurljósanna í nýju kynningarmyndbandi Íslandsstofu fyrir áfangastaðinn Ísland. Myndbandið má sjá neðst í fréttinni.
Myndbandið er hluti af aðgerðum markaðsverkefnisins Ferðaþjónusta til framtíðar sem Íslandsstofa rekur fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu og er fjármagnað af íslenskum stjórnvöldum. Markmið þess er að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu.
Einkum verður lögð áhersla á að sækja á Bretlandsmarkað að þessu sinni, en Bretar eru einn mikilvægasti markhópur íslenskrar ferðaþjónustu, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.
Með aðalhlutverk í myndbandinu fer breski gamanleikarinn Joe Thomas, sem er þekktur fyrir leik sinn í hinum vinsælu gamanþáttum The Inbetweeners. Nýlega var tilkynnt um væntanlega endurkomu þeirra þátta á skjáinn í Bretlandi sem vakið hefur mikla eftirvæntingu þar í landi.
Í myndbandinu er fylgst með áðurnefndum hópi sem valið hefur að koma til Íslands því hér á landi eru góðar líkur á að upplifa norðurljósin, en jafnframt er nóg önnur afþreying og þjónusta í boði ef það bregst, þar sem ekki er á vísan að róa í þeim efnum.
„Ísland hefur verið að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar sem áfangastaður fyrir norðurljósaferðir, en Noregur og Finnland hafa í auknum mæli verið að sækja á þennan hóp ferðamanna. Við vildum því bregðast við því með beinum hætti, en vekja jafnframt athygli á hve mikil afþreying er í boði fyrir ferðamenn á Íslandi yfir vetrartímann,“ segir Oddný Arnarsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, í fréttatilkynningu.
„Það er afar neikvæð þróun fyrir íslenska ferðaþjónustu ef vetrargestum fækkar. Það ýtir undir aukna árstíðarsveiflu en það hefur lengi verið einn helsti þáttur í stefnumótun geirans að búa til grundvöll fyrir heilsársferðaþjónustu hér á landi. Þannig skapar greinin flest störf um land allt og nýtir best fjárfestingu og innviði, sem og við dreifum betur álaginu,“ segir Oddný.