Jordi Pujolá, rithöfundur og hagfræðingur, hefur búið á Íslandi síðan árið 2012. Hann veltir fyrir sér stöðu ferðaþjónustunnar.
Sá ótti sem fréttirnar af fækkun skemmtiferðaskipa eða álvera kunna að valda er á margan hátt skiljanlegur. En við verðum að takmarka atvinnustarfsemi sem skaðar náttúru og umhverfi landsins og grefur undan siðferði og virðingu. Í báðum tilvikum er um að ræða erlend fyrirtæki sem skilja lítinn ávinning eftir fyrir íslenska hagkerfið – með öðrum orðum, mylsnurnar.
Hvað varðar skemmtiferðaskip, þá ber okkur að meta gæði fremur en magn. Það er því kominn tími til að fínstilla ferðaþjónustuna og umfram allt forðast að verða algjörlega háð henni, eins og raunin er í fátækum löndum. Varðandi álverin, þá er orka af skornum skammti á heimsvísu, og því ætti að mínu mati frekar að nýta hana í íslenska atvinnustarfsemi og fyrirtæki, svo sem landbúnað og náttúrlaugar. Í stuttu máli, slæmar fréttir til skamms tíma geta reynst tækifæri til úrbóta til lengri tíma litið.
Á hinn bóginn má ekki vanmeta aðrar auðlindir, svo sem fiskveiðar, og ekki hækka auðlindagjöldin um of þó nauðsynlegt sé að hafa samkeppnislög í huga. Skattahækkanir eru að skaða útflutning alvarlega og ég velti fyrir mér hvað við ætlum að gera við svona mikinn fisk, nútíma skipakosti og þá aðstöðu til fiskverkunar sem við höfum?
Við þurfum að greiða nýjum fyrirtækjum leiðina því Ísland er land frumkvöðlanna. Nemendur snúa til baka eftir nám erlendis með góðar hugmyndir, en mæta stjórnsýslulegum og fjárhagslegum hindrunum. Hávaxtastefnan er skaðleg fyrir viðskiptalífið og við þurfum fleiri fyrirtæki á borð við Össur, Marel og deCode.
Ísland er land, þar sem efnahagslífið hefur vaxið gríðarlega frá Marshall-aðstoðinni. Landið er ekki háð kolvetnisorku og hefur tekist að fjárfesta í menntun, sem er enn ein stoðin sem ekki má gleyma. Í heimi þar sem þróunin, vegna offjölgunar, er í átt að lokun landamæra, munu aðeins þeir hæfustu hafa aðgang að heimsmarkaði.