Áhrifavaldur að nafni Hannah Grubbs hefur fengið yfir sig mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum eftir að hún deildi myndböndum af sér í fríi á Jamaíku á sama tíma og fellibylurinn Melissa nálgaðist eyjuna.
Grubbs, sem heldur úti vinsælum samfélagsmiðlareikningum á Instagram og TikTok, birti fyrsta myndskeiðið föstudaginn 24. október, þar sem hún sést á flugvelli. Í texta við myndbandið skrifaði hún: „Við á leiðinni til Jamaíka í miðjum fellibyl.“
Hún hélt áfram að deila efni næstu daga, þar á meðal myndskeiði þar sem hún var að panta sér drykki á bar.
Margir netverjar hafa gagnrýnt hana harðlega fyrir að gera lítið úr hættunni, sem hefur þegar kostað líf að minnsta kosti 30 manns; fjögurra á Jamaíku, 25 á Haítí og eins í Dóminíska lýðveldinu.
Í athugasemdum var hegðun hennar sögð „viðbjóðsleg“ og „skammarleg“.
Sunnudaginn 26. október birti Grubbs annað myndband þar sem hún stóð á hótelsvölum.
„Fellibylurinn Melissa er hérna að skemma fríið fyrir mér,“ skrifaði hún við þá færslu.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa.
„Fríið þitt? Hvað með heimili fólks? Fyrirtæki?“ spurði einn TikTok-notandi, á meðan annar skrifaði: „Fólk er að fara að missa allt sem það á, ástvini sína og líf sitt.“
Grubbs virðist hafa fjarlægt myndskeiðin en í „story“ á Instagram birti hún í gær gervihnattamynd og skrifaði:
„Ég er föst á Jamaíku. Vinsamlegast biðjið fyrir Jamaíku og öllu fólkinu þar.“
Dregið hefur nú úr styrk fellibylsins Melissu, sem er skilgreindur sem eins stigs bylur eftir að hafa verið á fimmta og hæsta stigi í byrjun.