Eitt af frægustu kennileitum New York-borgar, staður þar sem er mjög reimt á, er Merchant's House-safnið, sem er í nálægð við Greenwich Village. Byggingin, sem var reist árið 1832, var heimili Tredwell-fjölskyldunnar áður en henni var breytt í safn. Á safninu er hægt að fræðast um líf hinnar vellauðugu kaupmannsfjölskyldu, Trendwell, sem stuðlaði að því að höfnin í New York varð ein sú mikilvægasta í Bandaríkjunum.
Síðan húsinu var breytt í safn hafa sögur verið á kreiki um reimleika þess. Bæði gestir og starfsmenn safnsins segjast hafa séð hluti á hreyfingu, að þeir hafi upplifað óútskýrða kalda staði innan hússins og annað álíka.
Samkvæmt íbúum á svæðinu á Gertrude Tredwell, sem bjó í húsinu allt sitt líf, að hafa rokið út dag einn 1933 til að ausa skömmum yfir börn í nágrenninu sem höfðu hátt, þrátt fyrir að hafa látist nokkrum vikum áður.
Það er ekki aðeins orðrómurinn um draugagang sem lifir á safninu heldur er einnig boðið upp á kertaljósaferðir um safnið ásamt leiðsögumanni sem kannar yfirskilvitleg fyrirbæri og leiðir gesti í gegnum óhuggulega hluti sem hafa átt sér stað innan safnsins, með augum vísindanna.
Öðrum megin árinnar, East River í Brooklyn, er 478 hektara kirkjugarðurinn Green-Wood, sá býr einnig yfir aragrúa draugasagna. Garðurinn, sem var vettvangur orrustu í frelsisstríðinu, er nú hvíldarstaður listamanna, stjórnmálamanna, aðalsmanna og nokkurra þúsunda hermanna úr borgarastyrjöldinni, margir hverjir sem þó hvíla ekki í friði.
Víða á samfélagsmiðlum, eins og Youtube, má sjá myndskeið sem sýna reimleikann í garðinum; þar heyrast yfirnáttúrulegar raddir, sjást kynlegir skuggar og jafnvel hestvagn á ferð.
Ólíkt safninu er ekki boðið á yfirskilvitlegar ferðir um kirkjugarðinn heldur skoðunarferðir þar sem farið er yfir sögu þeirra sem þar hvíla.
Á Metropolitan-listasafninu er boðið upp á skoðunar- og fræðsluferðir sem heita Draugasögur (e. Ghost Stories: A Mysterious Macabre Adventure). Í ferðunum er skoðað hvernig manneskjan hefur fengist við dauðann, líf eftir dauðann og hið yfirskilvitlega í formi listsköpunar svo öldum skiptir.
Morris-Jumel-herrasetrið í Hamilton-hæðunum á Manhattan var byggt 1765 og býr yfir langri og breytilegri sögu og er jafnframt eitt elsta húsið á svæðinu. Löngu áður en húsið varð safn var starfrækt þar krá.
Á frelsisstríðsárunum, 1775-1783, þjónaði Morris-Jumel-herrasetrið sem höfuðstöðvar George Washingtons, en á sama tíma var maður að nafni Isaac Till fluttir í húsið.
Enginn veit nákvæmlega hvenær eða hvar Isaac þessi fæddist, aðeins að hann kom í Morris-Jumel ásamt eiginkonu sinni, Hönnuh. Samkvæmt skjölum safnsins voru þau þrælahjón og voru leigð út sem kokkar til Washingtons á meðan hann og herinn dvöldu á lóð hússins. Aðeins er vitað um tilvist hjónanna vegna skráninga Washingtons sem sýna leigugjöld fyrir vinnu þeirra.
Starfsfólk safnsins vinnur að því að heiðra minningu þeirra og annarra ónefndra þræla sem bjuggu í kjallara hússins. Það er enn er hægt að finna fyrir nærveru þeirra þegar safnið er heimsótt.