Sælkeraparadís í hjarta Póllands

Það er hægt að fá gómsætan mat í Kraká fyrir …
Það er hægt að fá gómsætan mat í Kraká fyrir lítinn pening. Samsett mynd

Á undanförnum árum hefur Kraká í Póllandi fest sig í sessi sem einn vinsælasti áfangastaður sælkera í Evrópu. Þar má finna allt frá veitingastöðum sem bera á borð hefðbundinn pólskan heimilismat til Michelin-verðlaunaðra veitingastaða og óteljandi alþjóðlegra staða og matarvagna.

Gamli bærinn í Kraká iðar af lífi og þar má finna fjölda lítilla veitingahúsa sem bera fram klassíska rétti á borð við pierogi (pólskar bökur), żurek súpu í brauðskel og bigos, ljúffengan kjöt- og súrkálspottrétt. Ný kynslóð pólskra matreiðslumanna hefur tekið við keflinu og gefið þessum sígildu réttum nýtt líf með nútímalegum áherslum og sköpunargleði – og er vel þess virði að bragða á þeim.

Í hverfunum Kazimierz og Podgórze hefur sprottið upp fjöldinn allur af skemmtilegum bistróum, vegan-veitingastöðum og handverksbrugghúsum sem vert er að heimsækja. Kaffihúsin þar keppa við þau bestu í Berlín og vínmenningin er í örum vexti þar sem litlar pólskar víngerðir sækja nú hratt í sig veðrið.

Það besta er að það kostar ekki mikið að gera vel við sig í mat og drykk í Kraká. Þriggja rétta máltíð á góðum veitingastað kostar oft minna en einn forréttur í Reykjavík. Kraká er því fullkominn áfangastaður fyrir þá sem vilja njóta hágæða matarupplifunar án þess að tæma bankareikninginn.

Kraká er falleg borg.
Kraká er falleg borg. Skjáskot/TripAdvisor
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert