„Þetta er dýr brandari en það skiptir engu máli“

Alexander Kárason keypti búningana úr þrotabúi Play eftir gjaldþrot þess …
Alexander Kárason keypti búningana úr þrotabúi Play eftir gjaldþrot þess og fór í gegnum Leifsstöð í kafteinsbúningi í flug með EasyJet. Hann segir söluna á búningunum hafa gengið vel en nóg sé eftir.

Athafnamaðurinn Alexander Kárason vakti mikla athygli um daginn þegar hann keypti búningana úr þrotabúi Play aðeins nokkrum dögum eftir að fregnir bárust af gjaldþroti flugfélagsins. Salan hefur gengið vel að hans sögn, það er samt nóg eftir og hefur hann bætt veitingavögnunum við úrvalið. 

Fyrir nokkru var haldinn markaður með vörunum í Hlégarði í Mosfellsbæ sem gekk vonum framar að hans sögn.

Rauk þetta út?

„Þetta gekk ótrúlega vel og það er möguleiki á að við tökum annað „Play-date“ í Mosó,” segir hann.

„Dragtirnar eru vinsælar hjá konunum, það er eitthvað við rauða litinn sem gerir margt fyrir marga. Það er bara þannig,“ segir hann og hlær.

Er fólk að kaupa þetta í gríni?

„Bæði og. Það er búið að vera fínt eins og í kringum Hrekkjavökuna og fullt af fólki að fara í búningapartý. Það eru hins vegar mikið af karlmönnum sem hafa viljað eignast kafteinsdress og mikið af konum sem vilja eignast flugfreyjudress,“ svarar hann.

„Svo er líka mikið af karlmönnum sem vilja kaupa flugfreyjudress handa konunum sínum. Þetta er alls konar.“

Hann segir þó enn nóg vera eftir af fatnaði.

„Það er nóg til af flugfreyjudressum og fleiru, þetta er súper gott og þetta grín heldur áfram að gefa.“

Alexander segir hann ætli að halda áfram að koma hlutunum út á meðan það er til. „Nú er hægt að fá flugfreyjudress með kjól á 25 þúsund krónur. Þetta er bolur, sokkar, belti, dragt og kjóll. Þannig þetta er lítill peningur fyrir heilt dress.“

„Dragtirnar eru vinsælar hjá konunum, það er eitthvað við rauða …
„Dragtirnar eru vinsælar hjá konunum, það er eitthvað við rauða litinn sem gerir margt fyrir marga. Það er bara þannig.“

Breyta veitingavögnunum í bjórkæla

Ertu kominn út í plús?

„Þetta endar alltaf vel. Maður veit aldrei hvernig þetta endar en þetta endar vel, það veit ég alveg. Þetta er dýr brandari en það skiptir engu máli.“

Alexander lét fatnaðinn ekki aðeins duga og hefur nú bætt við sig veitingavögnunum frá flugfélaginu auk flugvélamódela. „Við erum að skoða hvort við getum ekki breytt þessum flugvögnum í litla bjór- eða vínkæla inn í bílskúr. Halda þessu áfram aðeins og sjá hvað þetta teygist langt,” segir hann.

Er eitthvað annað verkefni á döfinni hjá þér?

„Ekki eins og er en það kemur alltaf eitthvað annað, það er pottþétt. Það kemur upp augnablik og það verður á næstunni,“ svarar hann.

„Þetta einhvern veginn kemur til mín. Það eru ekki allir sem eru tilbúnir í svona verkefni en ég er tilbúinn til þess að segja bara já og af hverju ekki.”

Hann stefnir á að nota hluta fatnaðarins fyrir íþróttafélagið í hans heimabæ, Aftureldingu.

„Við gáfum Aftureldingu haug af bollum og svo eru þetta rauðar dragtir. Við erum að skoða hvort við dressum meistaraflokk kvenna ekki bara upp í rauðu dragtirnar.“

Góð gæði eru í Play-fötunum að sögn Alexanders.
Góð gæði eru í Play-fötunum að sögn Alexanders. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert