Ástin bankaði upp á í Bláa lóninu

Nicole og Einar Þór.
Nicole og Einar Þór. Skjáskot/TikTok

Kona að nafni Nicole Zohdi, sem heldur úti vinsælum TikTok-reikningi Nicole in Iceland, hefur vakið mikla athygli með myndböndum sem hún kallar „How to sound Icelandic without knowing Icelandic“ – eða „Hvernig á að hljóma eins og Íslendingur án þess að kunna íslensku“.

Nicole birti nýverið sjötta myndskeiðið í seríunni þar sem hún fer yfir nokkra klassíska íslenska frasa sem flestir landsmenn nota að minnsta kosti fimm sinnum á dag – ef ekki oftar. Þar má meðal annars heyra:

„Í alvöru?“

„Helvíti gott.“

„Ojjj bara.“

„Hvað segir þú?“

Nicole hefur aflað sér mikilla vinsælda á TikTok þar sem hún sýnir reglulega frá lífi sínu á Íslandi.

How to sound Icelandic–serían hefur gert góða hluti á samfélagsmiðlum; tugir þúsunda hafa horft á myndskeiðin og fjölmargir sem eru að læra íslensku hafa skrifað athugasemdir og lýst því yfir að þau séu bæði gagnleg og skemmtileg.

Þessi stórskemmtilega sería er þó ekki það eina sem hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlasíðu Nicole síðastliðna daga.

Í nýjasta myndskeiðinu segir hún frá því þegar einkaleiðsögumaður hennar, Einar Þór Jóhannsson, skutlaði henni í Bláa lónið fyrir fjórum árum.

Henni þótti hann sætur og ákvað því að skrifa símanúmerið sitt á þjórféð sem hún afhenti honum.

Nú, fjórum árum síðar, eru þau gift og Nicole deildi myndskeiði af þeim saman í Bláa lóninu.

Einn fylgjandi hennar skrifaði í athugasemd að sagan væri „efni í Hallmark-mynd“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert