Var hátt uppi allan tímann

Valentína ásamt vinkonum sínum
Valentína ásamt vinkonum sínum Ljósmynd/Aðsend

Valentína Björnsdóttir, forstjóri Móður Náttúru, tók bara sjálfa sig og einn bakpoka með sér þegar hún gekk hringinn í kringum Mont Blanc síðasta sumar en í ferðinni er gengið í gegnum Sviss, Ítalíu og Frakkland. Hún undirbjó sig vel fyrir ferðina, fór að stunda reglulega líkamsrækt og var þakklát fyrir það þegar ævintýrin í fjöllunum tóku völdin. Hún segir að miðaldrakrísa og ævintýraþrá hafi ýtt henni af stað.

„Upphaflega kom þessi ferð til vegna þess að mig langaði svo til að ögra sjálfri mér almennilega, í bland við smámiðaldrakrísu. Þó að ég væri búin að vera að ganga smá þá vantaði helling upp á formið og mig langaði að koma mér í betra form. Ég hafði fylgst með þessari göngu á Facebook árið áður og hélt að það væri bara á færi fólks í svaka formi að ganga þessa leið. Svo sá ég ferðina auglýsta og eitthvað inni í mér sagði mér að skrá mig. Ég gerði það og mig svimaði við tilhugsunina um að ég væri í alvöru að fara ganga 180 km á 10 dögum. Til að standa með sjálfri mér dreif ég mig í ræktina og stundaði hana samviskusamlega ásamt göngum úti í náttúrunni fram að ferðinni. Það skilaði sér svo sannarlega þegar í gönguna var komið.

Einnig hittumst við vinkonurnar sem fórum saman í ferðina reglulega til að ræða ferðina, skoða kort og láta okkur hlakka til,“ segir Valentína.

Hún segir að myndir af stórbrotnu landslagi Alpanna hafi upphaflega kveikt í henni að fara í ferðina. Svo hafi hana langað að fara í eitt skipti fyrir öll hressilega út fyrir þægindarammann, vera á ókunnugum slóðum með lágmarks búnað á bakinu og finna sinn innri styrk. Þegar hún er spurð að því hvort fólk þurfi að vera í góðu formi til að fara í slíka ferð segir hún að það sé alltaf betra.

„Ég myndi mæla með því að fólk væri í frekar góðu formi ef það ætlaði í svona langa göngu. Fólk nýtur sín betur í göngunum ef það er vel á sig komið og er búið að vinna í því að byggja sig upp eins og var í mínu tilfelli. Svo eru minni líkur á að liðverkir og hnévandamál plagi þig ef þú erft í góðu formi,“ segir hún.

Valentína naut hverrar mínútu ferðalagsins
Valentína naut hverrar mínútu ferðalagsins Ljósmynd/Aðsend

Valentína er mikið náttúrubarn og hefur gengið mikið á íslensk fjöll. Aðspurð hver sé munurinn á að fara í svona ferð eða fara í ferðir innanlands segir hún að íslenskt landslag sé miklu fjölbreyttara.

„Ég hef aldrei farið í svona langa ferð innanlands. Ég elska að ganga um Ísland og hef gert svolítið af því. Landslagið á Íslandi er mun fjölbreytilegra en á þessari gönguleið, en veðrið hefur svo mikið að segja í göngu og því miður er svo oft allra veðra von á Íslandi. Mér finnst það ekki mjög spennandi tilhugsun að ganga í roki og rigningu langar leiðir og eiga svo kannski eftir að tjalda. En á fallegum degi er íslensk náttúra algjör töfraveröld og birtan oft einstök. Alpanáttúran er miklu blíðari en á sama tíma mjög stórbrotin. Þessi miklu fjöll, skriðjöklar og jökulár í bland við blómabreiður og fiðrildi í öllum litum. Gengið er í gegnum skógastíga niður í dali framhjá kúm á beit og gegnum litla bæi. Það getur nú líka rignt hressilega þar og skollið á með þrumum og eldingum eins og við lentum til dæmi í uppi í 2.300 m hæð. Það var frekar óþægileg lífsreynsla en lærdómsrík.

Mér fannst alveg frábært að koma í alla þessa mismunandi skála sem við gistum í á leiðinni og í flestum þeirra var ágætis matur og huggulegir desertar! Þessir skálar eru bara starfræktir yfir sumarmánuðina. Sumir eru það hátt uppi að þar er ekkert rafmagn, bara notuð sólarorka og allar vistir fluttar með þyrlu,“ segir hún.

Stórkostlegt frelsi

Hvað var stórkostlegast við ferðina?

„Stórkostlegast fannst mér þetta frelsi sem ég fann fyrir og þakklætið og gleðin yfir að geta gert þetta. Vera á rambi dögum saman úti í náttúrunni léttklædd og vita að í enda dagsins biði manns einhver skáli til að gista í. Vakna svo næsta dag, reima á sig skóna og halda áfram alveg að springa úr tilhlökkun fyrir göngu dagsins.“

Hverju breytti þessi ferð?

„Þessi ferð var á allan hátt mjög uppbyggileg. Mér fannst ég styrkjast mikið líkamlega og set það ekki fyrir mig að ganga lengri leiðir og hef meiri unun að því að taka á því í ræktinni. Það gaf mér líka heilmikla innri ró að ganga svona marga daga samfleytt í þessari ægifegurð. Svona smá andleg hreinsun sem fylgir með í kaupbæti.“

Þannig að það gerist eitthvað stórkostlegt innra með fólki þegar það gengur alla þessa kílómetra í tíu daga?

„Það er sjálfsagt persónubundið hvað hver og einn upplifir. Hver göngudagur fyrir mér var pínulítið eins og lífsgangan. Það koma erfiðir kaflar og það koma góðir kaflar með litlum persónulegum sigrum inni á milli sem vert er að halda upp á með góðum desert um kvöldið.

Við fórum þrjár vinkonur saman með hóp á vegum Mundo-ferðaskrifstofu sem allt voru frábærir ferðafélagar. En maður finnur það svo vel á langri göngu hvað það er gott að vera með kærum vinum, geta deilt upplifuninni, spjallað og hlegið en líka gengið saman í þögninni það er ómetanlegt.“

Valentína segist hafa komið mun sterkari til baka.

„Mér fannst ég koma miklu sterkari til baka heim úr ferðinni og hún opnaði fyrir mér alveg nýja veröld hvað göngur varðar. Það er ekki svo flókið að ganga um þessar slóðir og vel hægt að fara í alls kyns styttri ferðir þar. En ég myndi samt mæla með að ef fólk ætlar að ganga TMB og hefur ekki mikla þekkingu á fjallgöngum að fara í skipulagða ferð, ég hefði ekki viljað sleppa okkar yndislegu fararstjórum, þeim Guðrúnu Hörpu Bjarnadóttur og Erlendi Pálssyni, því þau voru mjög fróð um leiðina og ég lærði heilmikið af þeim.“

Pakkaði bara því allra nauðsynlegasta

„Það er erfitt að velja eitthvert eitt sérstakt augnablik, ég var í hálfgerðu „blizzi“ allan tímann. Mesta feginsaugnablikið var þegar við komum í skálann eftir þrumuveðurskaflann. Svo fannst mér það stórkostlegt þegar við komum á landamæri Frakklands og Ítalíu, það var eitthvað svo magnað að hafa gengið til Ítalíu fjallaleiðina! Fyrir mig þá fannst mér Ítalíuparturinn bestur, bestu skálarnir og besti maturinn, svo vorum við einstaklega heppin með veður og fjallasýnin stórkostleg á þeirri leið,“ segir Valentína spurð um besta augnablik ferðarinnar.

Það eina sem Valentína tók með sér í ferðina, fyrir utan sjálfa sig, var einn bakpoki og hann mátti alls ekki vera of þungur.

„Ég tók eins lítið með mér og ég gat! Fór bara að ráðum fararstjóranna, ég var með um það bil 8 kg á bakinu, það var eitt og annað sem ég ætlaði að taka með en hætti við allan óþarfa þegar ég sá hvað það bætti við í þyngdina. Hugsaði oft um það í löngum brekkum hvað ég var fegin að vera bara með föt til skiptanna og varla það.“

Hvað er næst á dagskrá? Eru fleiri ferðir fyrirhugaðar?

„Það styttist að í að við fjölskyldan förum til Tenerife, þar eru margar spennandi gönguleiðir í boði. Við höfum gengið aðeins þar og er það mjög skemmtilegt. Svo langar mig að ganga eins mikið og ég get hérna heima í sumar, vera dugleg að stökkva á fjall þegar færi gefst. Ég væri alveg til í að ganga TMB aftur, en það verður að bíða betri tíma.“

Hvað færðu út úr gönguferðum sem ekki tekst í hefðbundinni líkamsrækt innanhúss?

Það er varla hægt að bera þetta saman þetta er svo ólík hreyfing. Það er ákveðinn unaður sem fylgir því að vera út í náttúrunni sem maður finnur hvergi annars staðar, en ræktin er svo frábær til að fá útrás og um leið að styrkja svo marga vöðvahópa og bæta þolið, sem aftur gagnast svo vel í göngum, fyrir mér er þetta frábær blanda. Ræktin er líka alltaf til staðar alla daga, það eru ekki alltaf aðstæður til að ganga út í náttúrunni, mér finnst ástundunin skipta mestu máli, það er eiginlega magnað hvað það er hægt að ströggla við að koma sér af stað í ræktina. Ekki það að ég sé einhver sérfræðingur, það er búið að taka mig 30 ár að fatta þetta en betra seint en aldrei. Óskadraumurinn er að fá að vera sterk og hraust fram eftir öllum aldri og stunda útivist af fullum krafti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert